Að finna tíma fyrir sjálfan sig

„Ég er hamingjusamlega gift. Maðurinn minn og ég njótum þess að vera saman. Við tölum mikið saman og hlæjum mikið saman. Þegar eitthvað bjátar á leitum við fyrst til hvors annars, hvort sem vandamálin eru lítil eða stór.Við teljum okkur ótrúlega lánsöm.

EN þrátt fyrir það langar okkur stundum að vera ein. Helst ein heima. Þegar enginn er í húsinu nema ég, eða hann“. Þannig hefst grein á vefnum sixtyandme.com, sem birtist hér stytt og endursögð.

Vilja stundum frí frá makanum

Höfundurinn segir að það sé ekkert nýtt að hana langi stundum til að vera ein. Hún hafi hugsað um þetta lengi og þegar hún nefndi þetta við eiginmanninn kom í ljós að honum var eins innanbrjósts. Það sé ekkert feimnismál að vilja stundum fá frí frá makanum sínum þó það sé ekki oft til umræðu. Hún telur að þau hjónin séu ekkert einsdæmi. Mörg pör hafi stundum  þörf fyrir að vera ein um stund, þó þeim finnist líka gott að vera saman. Hvað þá pör sem líður ekki vel saman, þar hljóti þörfin fyrir einveru að vera jafnvel enn meira knýjandi. Hún telur að þetta gildi ennfremur um pör sem búa með fleira fólki, svo sem fullorðnum börnum eða öldruðum foreldrum.

Samt sem áður sé það svo að þegar við eldumst sé erfiðara að finna tíma fyrir sjálfan sig, en áður var, þegar pörin voru á vinnumarkaði og heilmikið í burtu þess vegna.  Þar við bætist að heilsubrestur annars hvors eða beggja getur komið í vef fyrir að þau fari mikið útaf heimilinu.

Frelsið sem fylgir einverunni.                   

„Það er allt öðruvísi upplifun að verja tímanum með öðrum eða vera einn með sjálfum sér.  Það getur verið kvíðvænlegt fyrir fólk sem er ekki vant því að vera eitt. Það er hins vegar ákveðinn léttir fyrir þá sem eru alltaf innan um aðra, að vera stundum einir. Þarfir fólks eru einfaldlega misjafnar“, segir í greininni.

Þegar við búum með öðrum hafa þeir kannski aðrar reglur og vilja borða á ákveðnum matmálstímum. Þeir vilja hafa sína reglu á svefntímanum og sumir vilja hafa bæði útvarp og sjónvarp á allan daginn. Eða ekki.

Þeir vilja kannski dunda sér í húsinu eða garðinum, þannig að maður kemst ekki hjá að finna fyrir nærveru þeirra. Þeir biðja jafnvel um aðstoð annað slagið. Já og þeir þurfa að ræða við okkur um það sem þeir voru að lesa, eða bara um hvað þeir voru að hugsa.

En þegar við erum ein, erum við allt í einu frjáls. Við getum miðað allar ákvarðanir við eigin þarfir og eigin hraða. Farið á fætur þegar okkur lystir og borðað þegar við viljum.Við ráðum því hvort við förum út og hvenær við förum í háttinn.

Við þurfum ekki einu sinni að borða hollan mat. Við getum borðað það sem við viljum, góða máltíð eða úðað í okkur ís fyrir framan sjónvarpið. Svo getum við líka vakað fram eftir. Það er enginn sem truflar okkur (Maðurinn minn var rétt í þessu að sýna mér blaðagrein sem honum fannst góð og vill endilega að ég lesi) „Einveran  er algert frelsi og það þroskar okkur“, segir höfundurinn.

Hvernig er hægt að finna tíma?

Hvernig fólki gengur að finna tíma fyrir sjálft sig, ræðst af venjum makans sem það býr með. Fari hann eða hún til vinnu á hverjum degi, eða stundi líkamsrækt eða eitthvað annað með reglubundnum hætti á daginn, getur verið að fólk hafi húsið útaf fyrir sig allan daginn.

En þegar fólk er komið á eftirlaunaaldur er því yfirleitt ekki þannig farið. Það kann að vísu að vera að makinn sé upptekinn hluta úr deginum, suma daga. Þá er um að gera að grípa tækifærið til einveru á meðan, en vera ekki að nota þennan tíma til að hitta aðra. Það er jafnvel betra að makinn fari í burtu yfir lengri tíma. Þá er hægt að gefa sér tíma til að skipuleggja einveruna og njóta hennar betur.

Sum pör fara í frí ein og sér og það getur verið ein lausn. Það er líka hægt að skreppa einn eða ein í helgarferð til að heimsækja ættingja, eða sinna áhugamálum. Fara á námskeið svo sem jóganámskeið eða annað sem tengist áhugamálum fólks. Þetta gefur parinu tíma til að sinna sínu hvort í sínu lagi eina helgi. Hlaða þannig batteríin og hittast svo vel upplögð í vikunni þar á eftir.

Greinarhöfundurinn bendir líka á að fólk geti búið sitt í hvoru lagi og samt varið tíma saman. Þá þurfi tvö aðskilin heimili. Hún segist vita um elda fólk sem hafi gert þetta, en það myndi ekki henta sér þó hún skilji hvers vegna fólk velur þessa leið. En fólk þurfi að finna út úr þessu hvert fyrir sig. Fólk sé mismunandi og það séu þarfir þess líka.

Ritstjórn september 20, 2023 06:10