Var allt betra í gamla daga?

Hafa þeir sem eldri eru og halda því fram að allt hafi verið betra áður fyrr, eittvað til síns máls? Já, segir norskur vísindamaður, sem vefurinn Vi over 60 ræddi við á dögunum.

Var allt betra í gamla daga?  Randi Rönning Balsvik háskólaprófessor segir að spurningin sé ekki létt. Hvað á fólk við með „í gamla daga“ og hvar átti það heima? Bjó það úti á landi, í smáþorpi eða stórborg?  Það sem var kannski ekki betra, var að fólk hafði lágar tekjur og bjó í  íbúðarhúsnæði sem var mun minna en nú er.  Hver þekkir ekki sögur gamalla húsa, sem í dag eru einbýlishús, en hýstu 4-5 fjölskyldur fyrir 100 árum?  Nábýlið gerði hins vegar að verkum að nálægðin milli fólks var mun meiri. Fólk stóð saman í lífsbaráttunni og var ekki jafn einmana og margir eru í dag, að mati prófessorsins.

Sumt var betra hér áður fyrr.

Randi Rönning minnist áranna eftir stríð þegar hún var að alast upp í húsi með fimm íbúðum. Börnin fengu innsýn í líf annarra og lærðu hversu ólíkt fólk er. Þegar foreldrar hennar byggðu einbýlishús og fluttu leiddist henni, jafnvel þótt hún hafi loks fengið sérherbergi.

„Við borgum í dag ákveðið gjald fyrir rúmt og glæsilegt húsnæði, en gjaldið getur verið að sumir verða einmana. Ekki síst eldra fólk sem er búið að missa makann“, segir hún.

Hún segir að það hafi verið ákaflega gott þegar eldra fólk fór að fá ellilífeyri frá hinu opinbera og þurfti ekki lengur að reiða sig á börnin sín  til framfærslu. Eldra fólk öðlaðist sjálfstæði, en á móti kom að uppkomnu börnin eru ekki jafn mikið inni í þeirra lífi og áður tíðkaðist.

Það er algengt úti á landi að fjölskyldan leysist upp og börnin flytji til stærri bæja, þar sem þau geta fengið vinnu við hæfi. Ellilífeyrir og almenn þjónusta gera að verkum að börnin geta valið sér lífsvettvang án þess að hafa áhyggjur af eldri foreldrum.

Annað sem var betra áður að sögn Randi var að fólk las miklu meira af bókum. „Það er hreinlega dularfullt hversu lítið unga fólkið les í dag. Það er himinn og haf á milli mín, barnanna minna og barnabarnanna hvað lestur varðar“, segir hún og bætir við að það hafi verið svo lítið um bíla þegar hún var að alast upp, að börn hafi getað leikið sér eins og þau lysti, nánast hvar sem var.

„Við gátum farið sjálf þangað sem við þurftum að fara til að taka þátt í því sem börnum stóð til boða. Þar að auki var lífið rólegra áður en upplýsingatæknibyltingin með sínu áreiti, hóf innreið sína“.

En hvað er betra í dag?

Það er ótrúlega margt sem er betra í dag en í gamla daga að sögn Randi. Við lifum lengur en áður og í Noregi er barnadauði minni. Það er að mestu vegna þess að við búum við meiri velmegun, betra húsnæði, meira hreinlæti, betri næringu og kunnáttu en áður. „Þetta hefur gert okkur kleift að byggja upp fyrsta flokks heilbrigðiskerfi“, bætir hún við.  „Við búum við meira efnahagslegt öryggi en nokkru sinni“.

Eldra fólk gleymir erfiðleikum

Það að mörgum sem eldri eru, skuli finnast svo margt hafa verið betra hér áður fyrr, hefur vakið athygli vísindamanna í Bandaríkjunum. Þeir telja sig hafa fundið vísindalega ástæðu fyrir þessu. Starfsemi heilans geri það nefnilega að verkum, að eldra fólk muni færri erfiða og neikvæða atburði, en yngra fólk.

Það kom fram í rannsókn sem var birt árið 2011 að fólk á eftirlaunaaldri notaði heilann öðruvísi en þeir sem yngi eru, þegar kom að því hvernig það geymir minningar, sérstaklega ef minningarnar eru slæmar.

Mikilvægasta þróunin

Þó deila megi um hvort ýmislegt var betra hér áður fyrr eða ekki, telur prófessorinn að það hafi orðið ein meginbreyting sem geri samfélagið í dag betra en það var. Mikilvægasta breytingin sé að konur hafi fengið umráðaréttinn yfir eigin líkama og ráði nú hversu mörg börn þær eignist. „Getnaðarvarnirnar ollu byltingu í lífi kvenna, einkum þeirra sem búa í ríkari löndum heimsins“, segir hún.

Ritstjórn janúar 19, 2023 07:44