Tengdar greinar

Að gista frítt á ferðalögum í útlöndum

Gunnar og Snæfríður hafa líka ferðast mikið um Ísland, Hér eru þau stödd á Drápuhlíðarfjalli.

Nú er hægt að ferðast um heiminn án þess að greiða krónu fyrir gistingu. Þetta hljómar sérkennilega en æ fleiri notfæra sér þennan möguleika til að ferðast ódýrar en áður. Nú býður Endurmenntun Háskóla Íslands upp á námskeið þar sem Snæfríður Ingadóttir deilir reynslu sinni af íbúðaskiptum en hún hefur um árabil notfært sér þennan möguleika til að halda kostnaði við ferðalögin í lágmarki.

Ævintýrafólk á miðjum aldri

Þau Gunnar E. Kvaran ráðgjafi og fyrrverandi fréttamaður og Snæfríður Þóra Egilson fötlunarfræðingur og iðjuþjálfi hafa lengi ætlað sér að prófa slíkt fyrirkomulag og nú er komið að því. Þeim finnst góður kostur að geta nýtt fjármunina, sem annars færu í gistingu, í upplifun á staðnum. Þau hafa ferðast mikið í gegnum tíðina og oft leitað annarra leiða en að gista á hóteli.

Gunnar starfar hjá Athygli almannatengslafyrirtæki sem fékk það verkefni á sínum tíma að aðstoða Home exchange fyrirtækið sem vildi hasla sér völl á Íslandi. Þau hjónin fóru á  kynningu sem haldin var í Salnum í Kópavogi í fyrra. Þau höfðu heyrt sögur frá fólki sem hafði prófað íbúðaskipti og allir báru þessu fyrirkomulagi góða sögu. Kynningin varð þeim síðan hvatning til að taka skrefið og þau skráðu sig inn síðastliðið vor. Þau voru búin að setja stefnuna á haustið og ætluðu til Valencia á Spáni sem er mikill uppáhaldsstaður þeirra hjóna. Þau voru búin að finna íbúð þar hjá fólki sem vildi einmitt koma til Íslands en svo breyttust áætlanir svo ekkert varð úr íbúðaskiptum í það skiptið. En nú eru þau komin í gírinn aftur.

Spennandi leið til að kynnast menningu þjóða

“Mér finnst spennandi tilhugsun að gista á heimili innfæddra og hafa verið í sambandi við þau áður en við mætum á staðinn,” segir Gunnar. “Samskiptin áður en mætt er á svæðið skipta máli og gera upplifunina dýpri en ef gist er á ópersónulegu hóteli.”

Þau Gunnar og Snæfríður hafa búið erlendis og ferðast  mikið í gegnum tíðina. Þau segjast í seinni tíð hafa leitað uppi huggulegar “bed & breakfast” eða Airbnb gistingar og finnist það yfirleitt hafa verið skemmtilegra en að gista á hótelum. “Svo erum við með ákveðið plan fyrir vorið 2019 en þá verð ég í rannsóknamisseri og þá langar okkur að dvelja á Spáni” segir Snæfríður. “Það er kannski ekki raunhæft að halda það sé einmitt fjölskylda í Valencia sem myndi vilja koma hingað í þrjá mánuði, en kannski hluta af þeim tíma” segir Snæfríður og brosir en miðað við það hvernig ferðalög þeirra hafa gengið hingað til gæti það vel verið því nú er  mikil eftirspurn eftir Íslandi á öllum íbúðaskiptavefjum.

Hvað um verðmætin á heimilinu?

Gunnar og Snæfríður segja að það sé snilldin við þetta fyrirkomulag að það sé allra hagur að heimsóknirnar gangi vel. Það verði allir að bera traust til hver annars og það hafi sýnt sig að langflestir séu traustsins verðir. Gunnar segir að fulltrúar Home Exchange fyrirtækisins segist ekki hafa fengið kvartanir frá viðskiptavinum þeirra vegna tjóna á innbúi. Enda eru þeir hinir sömu búnir að lána sín heimili. Á kynningunni í Salnum hlustuðu þau á konu, sem búsett er á Akureyri, segja frá því að hún noti þetta fyrirkomulag líka hér á landi þegar hún þurfi að ferðast til Reykjavíkur. Það séu alltaf einhverjir sem vilji nýta sér hennar íbúð í staðinn eina helgi. 

Hjólaferð um Evrópu í sumar

Þau Gunnar og Snæfríður eru búin að bóka hjólaferð með Bændaferðum í sumar þar sem hjólað verður með fram Dóná og bátur fylgir hópnum. Í honum er gist á nóttunni og hjólað á daginn. Þau hafa líka farið í skemmtilega hjólaferð um Jakobsveginn á Spáni. “Það var geysilega skemmtileg ferð en ókosturinn kannski sá að maður þurfti að pakka saman á hverjum degi því það er eðlilega gist aðeins einu sinni á hverjum stað.  Gististaðurinn mun hins vegar fylgja okkur í ferðinni  í sumar,” segja þau.

Göngufrí á Spáni

Ein af ferðunum sem Gunnar og Snæfríður hafa farið í er vel heppnuð gönguferð með fyrirtæki sem heitir Göngufrí eða gongufri.is þar sem hjónin Ingibjörg og Rúnar leiða hópa um Spán. Þau byggja á áralangri reynslu af gönguferðum um Ísland, Spán og víðar og bjóða upp á ferðir við allra hæfi, bæði léttar og erfiðar. Gunnar og Snæfríður ferðast mikið um Ísland, bæði hjólandi, gangandi og akandi. Þau leitast við að finna hreina og óspillta náttúru á ferðum sínum og upplifa kyrrðina. En það segja þau að sé að finna víðar en á Íslandi  eins og þau komust að þegar þau byrjuðu að ferðast um fjallahéruð Spánar.

 

 

 

Ritstjórn janúar 16, 2018 09:36