Að giftast í annað eða þriðja sinn – er ekki fyrir alla.

Þeir sem gifta sig í annað eða þriðja sinn ætla í langflestum tilvikum að láta hjónabandið endast. Þrátt fyrir það segir tölfræðin að slík hjónabönd endi oftar en ekki með skilnaði. Sálfræðingar og hjónabandsráðgjafar segja að það séu sjö ástæður fyrir því að seinni hjónaböndin endist ekki. Þessi grein birtist á vefnum aarp.org Lifðu núna endursagði og stytti örlítið.

  • Margir giftast aftur áður en þeir hafa gert upp fyrra hjónaband. Það hefur áhrif á seinna hjónabandið og getur orðið þess valdandi að hjónin treysta ekki hvort öðru. Þau fara að gruna hvort annað um græsku. Hjón verða að geta talað saman og sett samskiptum sínum við fyrrverandi maka ákveðin mörk.
  • Þegar fólk giftist í fyrsta sinn er gert ráð fyrir að hjónin hafi sameiginlegan fjárhag, hafi sameiginleg markmið hvað hann varðar og deili fjárhagslegri ábyrgð. Fólk er oft komið á miðjan aldur eða orðið enn eldra þegar það gengur í sitt annað hjónaband og á oft á tíðum eignir og peninga. Það hefur ákveðna sýn á fjármál sín og hvers það væntir í framtíðinni. Það er því mikilvægt að fólk ákveði í upphafi hvernig haga á fjármálum í seinna hjónabandinu, hver á að borga hvað og hversu mikið. Peningar eru algengasta ágreiningsmál hjóna. Deilur um peninga eru ein algengasta ástæða skilnaða í seinni hjónböndum.
  • Þeir sem giftast í annað eða þriðja sinn ættu að leita sér ráðgjafar áður en þeir láta pússa sig saman. Fólk ætti gera með sér sáttmála þar sem kveðið er á um réttindi og skyldur hvors um sig í hjónabandinu. Góður ráðgjafi spyr spurninga sem tilvonandi hjón hafa ekki þorað að spyrja hvort annað eða hafa hreinlega ekki hugsað út í að þeir ættu að að spyrja og fá svör við. Þetta er ein leið til að styrkja grunninn undir hjónabandinu.
  • Ein ástæða þess að mörg hjón vilja reyna að leysa ágreiningsefni sín bæði tilfinningaleg og efnisleg er að þau vilja ekki leggja það börn og foreldra að slíta sambandinu og skipta eigum sínum. Skilnuðum fylgir oft mikil sorg og eftirsjá. Ef fólk á ekki börn saman eða deilir eignum þá er miklu minna mál að skilja ef eitthvað kemur upp á í hjónabandinu, í stað þess að reyna að lappa upp á það. Ef stjúpforeldri hefur ekki bundist stjúpbörnum sínum tilfinningaböndum fylgir því ekki sektarkennd að fara frá þeim. Það getur raunar fylgt því ákveðinn léttir fyrir alla aðila. Seinni skilnaður er ekki nærri eins skelfilegur og sá fyrsti. Fólk veit hvað bíður þess. Það hefur gengið í gegnum skilnað áður og veit að það getur lifað af annan skilnað.
  • Margt óvænt getur komið uppá í síðari hjónaböndum vegna þess að fólk gerir sér of miklar væntingar.  Hvort sem það eru óvæntar fjölskylduflækjur sem koma upp eða vonbrgiði með að hjónabandið sé ekki tóm sæla. Flækjustigið getur verið hátt og margir upplifa í síðari hjónaböndum sömu vandamálin og þeir voru að flýja í fyrsta hjónabandinu. Það leiðir til skilnaða. Fólk er líklegt til að gera sömu mistökin í seinni hjónaböndum og það gerði í því fyrsta. Ef það leitast við að skilja hvað fór úrskeiðis í fyrsta hjónabandinu og reynir að skilja hvað fór úrskeiðis í hjónabandi makans, minnka líkur á að það endurtaki mistökin. Að tala um fortíðina hjálpar ykkur að skilja hvort annað og kemur í veg fyrir sektarkennd, ótta og afprýðisemi út í fyrrverandi maka. Ræðið um það sem sameinar, hvað skilur ykkur að, vonir og drauma. Að þekkja það sem fór úrskeiðis í fyrri samböndum hjálpar fólki að koma auga á vandamálin áður en það endurtekur þau.
  • Fólk heldur oft að ástin og hamingjan komi af sjálfu sér þegar það er gift. Þeir sem giftast í annað eða þriðja sinn eiga oft börn úr fyrri samböndum. Það eru því tvær fjölskyldur sem þarf að taka tillit til. Það þarf að semja um umgengni, skipuleggja frí, aðstoða við heimanám, skulta á fótboltaæfingar og svo framvegis. Fólk sem giftist í annað eða þriðja sinn hefur því oft lítinn tíma fyrir sjálft sig og nýja hjónabandið. Það leiðir til þess að ástin fýkur út um gluggann og fólk skilur.

 

 

 

 

Ritstjórn mars 23, 2017 13:59