Helmingur hjóna skilur

Vissir þú að meira en helmingur allra hjónabanda fólks á sextugs og sjötugsaldri endar með skilnaði, spyr markþjálfinn Ellen Bachmeyer í grein á vefnum sixtyandme.com. Hún bætir við að skilnuðum fari fjölgandi. En hvers vegna? Hluti skýringarinnar er langlífi.  Ellen segir að konur sem telji að þær lifi ekki í neitt sérstaklega góðum hjónaböndum spyrji sig þegar þær komist á sextugs- eða sjötugsaldurinn hvort þær nenni að eyða næstu 25 til 30 árum með sama manninum og þær hafa verið giftar í áratugi. Á þessum tímabili ævinnar eru börnin líklega flogin úr hreiðrinu. Þegar konur fá meiri tíma til að hugsa og endurmeta líf sitt verður niðurstaðan oft skilnaður, segir Ellen.

Ein helsta ástæða þess að konur vilja skilja eftir miðjan aldur er að tilfinningatengsl þeirra og makans hafa trosnað. Fólk vaknar fer í vinnuna og kemur heim og fer að sofa. Um helgar hefur fólk ekkert að tala um því það sameiginlega sem það átti var í flestum tilvikum börnin og velferð þeirra.  Í staðinn fyrir að  snúa bökum saman og reyna að finna sér sameiginleg áhugamál og viðfangsefni breikkar gjáin á milli hjónanna þegar þau eldast.

Samskipti eru lykillinn að því að tengsl hjóna haldist. Hjónabandsráðgjafarnir John og Julie Gottman segja að hjónabandssælan felist ekki í áhugamálum hjóna  heldur hversu vel þeim tekst að tjá sig hvoru við annað. Þau segja til að mynda að ef annað hvort karlinn eða konan hafi spilað golf í einhvern tíma og hitt sé nýbyrjað eigi sá sem kann leikinn ekki að gagnrýna hitt stöðugt. Það skapi leiðindi og hvorugur hafi gaman.

Þegar samskipti hjóna hafa verið lítil í lengri tíma hætta hjörtu þeirra að slá í takt. Samtöl verða skýrslukennd. Langar þagnir einkenna sambandið eða langdregin rifrildi.  Vilji fólk láta hjónabandið ganga verður það að breyta hegðun sinni. Taka áhættu og tala um framtíðina. Ekki láta óttann um höfnun stjórna gerðum sínum.  Hamingjan er á ábyrgð hvers einstaklings það er ekki einhvers annars að stjórna hamingju annarrar manneskju. Hún verður að bera ábyrgð á eigin lífi, segir Ellen.

Ritstjórn nóvember 19, 2018 06:39