Tengdar greinar

Sting höfðinu inn í bakaraofninn

Stjúpi minn útbjó dekk á vörubílinn og sturtara á pallinn og þá átti ég fullkominn vörubíl til að leika með í vegavinnuleik. Hann var alltaf svo góður við mig  –  Ég bjó í Bræðrahöllinni á Miklubraut 16. Við systkinin lékum okkur mikið á stéttinni fyrir framan húsið. Fórum til dæmis í Bimbi rimbi rimm bamm. – Við lékum okkur í fallin spýta og yfir. Mér er minnisstætt þegar elsti pilturinn í hópnum raðaði okkur eitt sinn upp eftir aldri og lét okkur fara í kapphlaup –  Leikföng voru ekki keypt í búð. Á Sölvhólssgötu var grasgrænn og yndislegur hóll og þar lékum við okkur með kjálka og leggi –  Við lékum okkur mikið saman strákar og stelpur og fengum að vera úti fram undir miðnætti yfir bjartasta tímann –

Þessar setningar eru úr endurminningum fimm kvenna sem voru að spinna og æfa fyrir Endurminningaleikhúsið sem verður með sýninguna Í þá tíð hjá Félagi eldri borgara í Mosfellsbæ þann 7.nóvember, en sýningin er unnin í samvinnu við félagið og raunar líka sveitarfélagið.

Þær rifjuðu líka upp ball á Selfossi, en þær vonuðust til að fá far þangað með Binna á jeppanum.  „Ég set í mig rúllur, set pilsner í hárið og sting höfðinu inní bakaraofninn“, sagði ein þeirra og þetta hafði blaðamaður aldrei heyrt að konur hefðu einhvern tíma þurrkað á sér hárið í bakaraofninum.  Þær ræddu líka um strákana á ballinu og æfðu sig síðan í að hlaupa til að bjóða þeim upp í dömufríinu.

Á myndinni eru frá vinstri: Erna Sigþórsdóttir, Hildigunnur Davíðsdóttir, Bára Kjartansdóttir, Úlfhildur Geirsdóttir og Jórunn Lísa Kjartansdóttir

Endurminningar efniviður sýningarinnar

Verkið lofaði sannarlega góðu, fjörugt og skemmtilegt, en leikstjóri og listrænn stjórnandi verkefnisins er Andrea Katrín Guðmundsdóttir nemi í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst.  Andrea segir að í Endurminningaleikhúsi séu endurminningar þáttakenda efniviðurinn í verkið. Þeir deili endurminningum og leikstjórinn safni saman því, sem hann telur að geti komið vel út á sviði. Hann finnur líka ólík þemu og tengir minningarnar saman. „Það er ekkert handrit að leiksýningunni í byrjun, heldur spinna leikstjórinn og þáttakendur efnið upp saman. Leikstjórinn leiðir vinnuna, heldur utanum þetta allt og á endanum er komin leikýning“, segir hún.

Hentu sér út í djúpu laugina

Andrea segir að hún hafi skipulagt vinnuna þannig að það kæmi alltaf eitthvað út úr hverjum æfingatíma. Eitt skiptið fór í að velja gamlar ljósmyndir og ræða um þær, annað í að tala um leikina og leikföngin sem þáttakendur mundu eftir frá fyrri tíð og einu sinni var rætt um tónlist, Hauk Mortens og Bítlana. Konurnar fimm sem taka þátt í sýningunni hafa enga reynslu af leikhússtarfi, en ein þeirra var í kór sem tók þátt í sýningu hjá Vesturporti. „Hinar höfðu ekki komið fram áður og fyrir þær var þetta svolítið eins og að henda sér út í djúpu laugina. Ég hélt þegar ég auglýsti að það yrði erfitt að fá fólk til að taka þátt, en konurnar fundu fljótt hvað þetta er afslappað og að allt gert á þeirra forsendum“, segir hún.

Andrea Katrín Guðmundsdóttir

Fjársjóður sem þarf að nýta

„Helsta markmiðið okkar með sýningunni núna er að deila minningum og hafa gaman af að segja frá. Eldra fólk hefur lifað langa ævi og hefur frá mörgu að segja, ég tala nú ekki um kynslóðina sem núna er að eldast, hún hefur lifað alveg gríðarlegar breytingar á íslensku samfélagi. Mér finnst þetta fjársjóður og ástæða til að fara að nýta sér það efni sem þarna er til.  Það er hægt að fara ólíkar leiðir í endurminningaleikhúsinu. Ég er farin að sækja um styrki til að halda áfram. Það er til dæmis hægt að fara inná hjúkrunarheimilin, spjalla við fólk og heyra sögur þeirra, en síðan koma leikarar og leika þessar minningar. Þau fá hins vegar að sitja og njóta þess að sjá þær spretta ljóslifandi upp fyrir framan sig. Það er líka mikilvæg að endurminningaleikhúsið tengir kynslóðirnar saman. Ef  börn koma á sýninguna okkar, þá munu þau finna að það er allt annað að lesa um atburði í bók, eða sitja og hlusta á einhvern segja frá, einhvern sem upplifði atburðinn í raun og veru. Það skapast alveg sérstök tenging“, segir Andrea.

Samfélagsleikhús frá Bretlandi

Hugmyndina að Endurminningleikhúsinu fékk Andrea þegar hún var í leiklistarnámi í Bretlandi. Þar gekk hún í skóla sem hét East 15 Acting School. Hann er í London. Hún valdi að fara þar í deild sem heitir Community theatre, eða samfélagsleikshús, en þar er unnið með alls konar hópum fólks að leiklist, til dæmis innflytjendum.  Hluti af náminu hjá henni var að vinna með fólki á dvalarheimili í lítilli borg sem heitir Southend-on-Sea. „Við vorum með ákveðið þema, endurminningar fólks frá strönd sem þarna var og hafði verið mjög lífleg. Þar hafði til dæmis verið tívolí á árum áður. Við sömdum svo sýninguna uppúr frásögnum þeirra og sýndum þeim á dlvalarheimilinu“, rifjar hún  upp.

Útskriftarverkefni Andreu var leiksýning með geðfötluðum. „Ein bekkjarsystir mín gerði sýningu með eldra fólki, mér fannst magnað að horfa á þetta og þessi hugmynd blundaði alltaf í mér. Það er ekki mikið verið að gera af svona leiklist hér. Það var eitt sinn starfandi leikhópur hjá eldri borgurum sem hét Snúður og Snælda en þar var starfið meira hefðbundið. Hann starfar heldur ekki lengur. Andrea sem er í menningarstjórnunarnámi segist hafa gert smá könnun á því starfi sem er í boði fyrir eldra fólk. Hún talaði við iðjuþjálfa og komst að því að leiklist er ekki í boði í félagsstarfi fyrir eldra fólk. „Það kostar oft að fá einhvern utanaðkomandi til að koma inn. Fjármagn til þessara hluta er takmarkað og peningarnir  fljótir að fara. Þetta er meira og minna unnið í sjálfboðaliðastarfi“ segir hún.

Vorboðar, kór eldri borgara í Mosfellsbæ tekur þátt í tónlistarflutningi á sýningu Endurminningaleikhússins 7.nóvember, undir stjórn Hrannar Helgadóttur. Sýningin verðu í Eirhömrum, Hlaðhömrum 2. Meira um sýninguna hér.

 

Ritstjórn nóvember 5, 2019 06:01