Að lifa af dauðann 

Sagan Gólem eftir Steinar Braga er vísindaskáldsögu distópía í framtíð þar sem fólk getur farið sálförum og ferðast fram og aftur í tíma. Einhver var fljótur að sjá í því viðskiptatækifæri og finnur því ungt fólk með veikt bakland, hæfileikaríkt í að láta sig hverfa úr líkamanum vegna þess að það hefur iðulega upplifað gróft ofbeldi og nægilega vægðarlaus til að gera það sem þarf í hverju verkefni. Og verkefnin eru að bjarga ríkum einstaklingum frá sínu skapadægri, gefa þeim aðeins lengri tíma.

Fyrirtækið heitir klaustrið og við kynnumst ungri konu sem vinnur hjá því, við það að deyja. Þessi stúlka á að baki hræðilega æsku og uppvöxt. Eina manneskjan esm hún er í nánu sambandi við er Kasja, bestu vinkonu sína og skuggann sinn, þær eru tengdar þannig að þegar sögukonan fer fram í tímann ferðast hún um í líkama Kösju. Dag nokkurn eftir að hafa lokið verkefni með góðum árangri segir Kasja henni að orðrómur sé um að eitthvað undarlegt sé að gerast. Í fyrstu vill sögukonan ekki trúa því en svo er hún send aftur af stað án hefðbundins hvíldartíma og þá bregður hún út af venju sinni og kemur ekki strax til baka, fer ekki beina leið aftur eins og henni var ætlað. Það setur af stað atburðarrás sem setur bæði hana, Kösju og fleiri sem henni þykir vænt um í hættu.

Geggjuð tækni

Þáttur tækninnar í bókinni er mjög mikilvægur, enda mun þróaðri en nú er. Það er líka áhugavert að þarna er fólki kennd ævaforn tækni hugleiðslu til að búa sig undir ferðalög í tíma og yfir mörk lífs og dauða. Það eru einnig margar siðferðilegar spurningar þarna undir. Er ásættanlegt að brjóta niður fólk til að geta mótað það að vild? Nú þegar höfum við tækin sem þarf til að geta fylgst með fólki nánast hvar sem er og allan sólarhringinn ef því er að skipta. Er það í lagi að notfæra sér það? Ótal margar fleiri áhugaverðar vangaveltur vakna við lesutr þessarar bókar og söguþráðurinn er bæði djúpur og flókinn.

Steinar Bragi er frábær höfundur og honum er ótrúlega lagið að byggja upp trúverðugar og heildstæða heimsmyndir í bókum sínum þótt þar sé ýmislegt mögulegt sem engan veginn er hægt að framkvæma hér og nú í okkar raunveruleika. Hann kann einnig að skapa flóknar og mannlegar persónur sem lesandanum er alls ekki sama um. Í Gólem verður ofbeldið stundum nær óbærilegt og spennan nær á manni heljartökum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 8, 2025 07:00