Að taka ábyrgð á eigin lífi og hamingju

Ingveldur og Jóhann í garðskála sínum í Danmörku.

Fólk er mismunandi þekkt í samfélaginu okkar en allir hafa sína sögu. Ingveldur Guðrún Ólafsdóttir segist sjálf ekki hafa afrekað neitt sérstakt um ævina en ætli sé nú ekki afrek í sjálfu sér að hafa alið upp snilling sem við þykjumst nú öll eiga svolítið í, en Ingveldur er nefnilega móðir eina Óskarsverðlaunahafa Íslendinga, Hildar Guðnadóttur, sem allir vita nú hver er.

Fór ung í söngnám

Ingveldur hefur sjálf lifað viðburðaríku lífi þegar grant er skoðað en örlögin höguðu málum þannig að hún fór ung í söngnám, kannski sérstaklega af því söngkennarinn hennar vildi það endilega en hún segist brosandi hafa verið hlýðið barn. Ingveldur er því upphaflega menntuð söngkona en átti sér alltaf draum um að komast í einhvers konar hönnunarnám. Eftir söngnám hér heima fór hún í framhaldsnám, fyrst til Amsteredam og svo til Kanada. Hún fór með Hildi með sér en hún var aðeins fjögurra ára þegar hún kom altalandi á hollensku og íslensku til Kanada. Þar komst Ingveldur að því að hún var ekki tilbúin að færa þær fórnir sem nauðsynlegt var að færa til að ná frama í söngheiminum. Hana langaði einfaldlega ekki til þess. Hún minnist til dæmis dapurlegrar sögu úr söngheiminum sem var af einni aðalsöngkonunni í Stuttgart en sú hafði verið nemandi sama kennara og Ingveldur. Söngkonan snjalla hafði fengið mikið klapp eftir sýninguna kvöldið áður enda mjög fær. “Hún hringdi í kennarann okkar hágrátandi daginn eftir þar sem hún sat alein uppi á hótelherbergi um

Húsið þeirra í Kværs í Damörku.

jólin og fjölskyldan víðs fjarri,” segir Ingveldur og viðurkennir að þessi mynd hafi setið lengi í sér. “Að slá í gegn eða reyna fyrir mér í útlöndum heillaði mig alls ekki,” segir Ingveldur sem er greinilega með forgangsröðina í lífinu á hreinu.

Átti sinn feril hjá RÚV

Þegar þær mæðgur komu heim frá Amsterdam liðu rúmir sex mánuðir mánuðir áður en þær lögðu land undir fót aftur og þá var ferðinni heitið til Toronto þar sem þær dvöldu í eitt ár. Þann tíma notaði Ingveldur til að láta Hildi í tónlistarnám í Suzukiskólann. Námið þar krefst þess að foreldrar taki ríkan þátt í tónlistarnámi barnanna og Ingveldur naut þess og hafði tíma til að vera með Hildi í náminu þar en svo kom að utanför aftur.

Þegar þær komu svo heim eftir nám Ingveldar í Toronto magalenti hún illilega. “Lánasjóðurinn hafði breytt reglunum í miðjum klíðum og ég stóð frammi fyrir því að eiga alls ekki pening fyrir skólagjöldunum,” segir hún. “Ég þurfti að rjúka heim og redda mér vinnu í hvelli og taka bankalán í ofanálag.” Þarna var Ingveldur að verða 27 ára gömul og að taka skrefin út í lífið, brennd af peningaleysi. Þegar hún kom heim var hún svo heppin að fá vinnu fljótlega uppi í útvarpi og þar átti hún sinn feril þar til hún sagði upp, rétt fyrir hrun.

Eitt starf dugði ekki einstæðri móður

Ingveldur hafði starfað sem þjónn í tvo mánuði til að bjarga sér eftir áfallið með Lánasjóðinn en fljótlega var auglýst eftir þáttastjórnanda hjá RÚV og hún sótti um. Kristinn Sigmundsson hafði hætt fyrirvaralítið og ráða þurfti manneskju í hans stað strax. Ingveldur var skyndilega kölluð í prufu og ákveðið var að hún fengi vinnuna með mjög skömmum fyrirvara. “Ég átti að sjá um tveggja tíma beina útsendingu þrjá morgna í viku. Það þyrmdi nú pínulítið yfir mig en nú var að duga eða drepast svo ég skellti mér bara út í djúpu laugina. Ég bjó auðvitað að því að eiga móður sem hjálpaði mér eins og hún gat því ég fékk ekki leikskólapláss fyrir Hildi strax og nú veit ég hversu mikilvægar mæður geta verið og reyni að aðstoða Hildi af fremsta megni með sitt barn. Og af því ég var í útvarpinu bara þrjá daga gafst mér tækifæri til að finna vinnu sem ég gæti sinnt hina dagana og fékk vinnu í bókabúð í Kópavogi til að drýgja tekjurnar. Og svo söng ég líka við brúðkaup og jarðarfarir,” segir  Ingveldur og skellihlær að þessum tíma sem hún segir að hafi verið bæði rosalega skemmtilegur en líka erfiður.

Stolt mamma Óskarsverðlaunahafa 

Ingveldur segir að Hildur hafi verið í mjög góðum skóla í Toronto, einhvers konar milli skóla áður en eiginleg skólaganga hæfist. “Hún kom þangað inn altalandi á Hollensku og náði enskunni á tveimur mánuðum og í Kanada var farið að kenna börnum stærðfræði líka mjög ungum. Kennararnir héldu að hún væri undrabarn,” segir stolt mamma Óskarsverðlaunahafans. “Hildur naut góðs af þessu en þegar við komum heim var ekki mikið við að vera fyrir Hildi þótt hún fengi auðvitað að njóta ömmu sinnar ríkulega. En fljótlega hóf hún tónlistarnám í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar.

Sellóið jók verðgildi sitt

Þegar Ingveldur fékk fullt starf hjá RÚV þurfti hún ekki lengur að vinna í bókabúðinni í Kópavogi og þá lát hún sig hafa það að vera bíllaus og seldi bílinn. Það kom sér vel af því nú var komið að því að Hildur þurfti að eignast selló en hún hafði verið með lánsselló frá Tónlistarskólanum fram að því. Þá var hún orðin 15 ára gömul og vantaði hljóðfæri sem hljómaði betur. “Þá var orðið ljóst að Hildur myndi halda áfram í tónlistinni og auðvitað skipti miklu máli að hafa gott hljóðfæri,” segir Ingveldur. “Bíllinn var engin lúxuskerra en ég hafði ætlað mér að selja hann upp í nýrri bíl og taka líka lán til þess. En eftir nokkra umhugsun komst ég að því að það væru betri kaup að fjárfesta í sellói en bíl af því afföllin af bílnum væru svo mikil en sellóið myndi auka verðgildi sitt. Og í dag er ljóst að sú ákvörðun var rétt,” segir Ingveldur ánægð með þá fjárfestingu sína sem var auðvitað risafjárfesting í manneskjunni sjálfri þegar upp var staðið.

Bílleysið hafði aðra kosti í för með sér        

“Þegar ég “hafði losnað við bílinn” labbaði ég miklu meira en annars og var í rosalega góðu formi,” segir Ingveldur og hlær hrossahlátri. “Auðvitað var erfitt að vera bíllaus en síðar fékk ég mér annan. Það kviknaði reyndar í

Sam Slater, eiginmaður Hildar, Kári sonur hennar, Hildur, Jóhann og Ingveldur.

þeim bíl svo ég sat eftir með skuldina en engan bíl, en það reddaðist einhvern veginn,” segir Ingveldur og hlær að eigin óheppni og hefur síðan ekki keypt sér bíl á lánum. “Ég leit sannarlega ekki á það sem fórn að selja bílinn á sínum tíma. Ég gerði það með glöðu geði því mér þykir mikilvægt að styðja börnin, sama hvert hugur þeirra stefnir.

Betur sett í Danmörku en Íslandi

Ingveldur og eiginmaður hennar, Jóhann Hauksson blaða- og fréttamaður, fluttu til Danmerkur fyrir tæpum þremur árum þegar ljóst var að Ísland hafði ekki það upp á að bjóða sem þau höfðu vonast eftir þegar þau væru orðin miðaldra. Ingveldur hafði sagt upp starfi sínu hjá RÚV skömmu fyrir hrun en þá höfðu orðið miklar breytingar á útvarpinu sem henni hugnaðist ekki. “Ég fann að breytingarnar á RÚV tóku á mig en ég áttaði mig ekki á því þá að ég hafði gert mig atvinnulausa korteri fyrir hrun sem reyndist verða mér mjög erfitt. Ég hafði látið gamla drauminn um hönnunarnámið rætast og var komin af stað í það enda hafði ég lofað sjálfri mér að ég skyldi láta þann draum rætast áður en ég yrði fimmtug. Jóhann hafði lent í leiðindamáli í sinni vinnu svo við vorum bæði í lausamennsku þegar hrunið skall á. Þarna hækkuðu skuldir upp úr öllu valdi og enn og aftur var ég komin á einhvern byrjunarreit. Þar fyrir utan vorum við á mjög óæskilegum aldri sem hjálpaði ekki til.” Ingveldur er fædd ´59 og Jóhann ’53. “Við vorum því ekki í góðum málum og alls konar ráð voru notuð bara til að halda húsnæðinu. Jóhann fór í byggingavinnu á tímabili og ástandið var farið að hafa áhrif á svefn hjá mér. En þá opnaðist gluggi og við gátum fest kaup á húsi í Danmörku og losað okkur við allar skuldir,” og léttirinn leynir sér ekki.

Þau Ingveldur og Jóhann hafa gert húsið sérlega fallega upp en hún segir að Jóhann sé einn af þessum handlögnu mönnum.

Fóru í heimsókn til Suður-Jótlands og fundu hús

Þau Ingveldur og Jóhann höfðu ákveðið að heimsækja frænda Ingveldar sem býr á Suður-Jótlandi en hún hafði aldrei komið á þær slóðir áður. “Ég fell gjörsamlega fyrir þessum stað og ekki spillti að hér eru fasteignir mun ódýrari en á Íslandi. Bærinn heitir Kværs og þar er ekki langt í  landamæri Þýskalands. Svo tekur okkur aðeins 20 mínútur að aka til Flensborgar í Þýskalandi.” Einn af kostunum við að vera í Danmörku frekar en Íslandi segir Ingveldur að sé óneitanlega sá að nú geti hún farið upp í bíl og ekið bæði til Berlínar þar sem Hildur býr, og til Prag þar sem Finnur Torfi sonur hennar býr.

Þau Ingveldur og Jóhann eru ekki í fastri vinnu en lifa á lífeyri Jóhanns af því hann er að verða 67 ára. Þeir peningar segir hún að dugi þeim töluvert betur í Danmörku en þeir myndu gera á Íslandi enda hafi þau kost á að nýta sér lágt matarverð og líka að geta farið yfir til Þýskalands í lágvöruverslanir.

Veröndin þar sem gróðurhúsið sést en þar rækta þau mikið á sumrin.

Ingveldur hefur tekið að sér stöku verkefni fyrir RÚV frá því að hún hætti og fyrir utan að gera húsið upp og lagfæra var Jóhann að skila af sér þýðingu á verki Ludwig Wittgenstein sem heitir Rannsóknir í Heimspeki fyrir Háskólaútgáfuna. Jóhann sér fyrir sér að hann geti tekið að sér fleiri þýðingaverkefni en annars líður tíminn sífellt hraðar hjá þeim eins og öðrum á miðjum aldri svo þeim leiðist sannarlega ekki.

Eignaðist líka tvo syni

Ingveldur eignaðist soninn Ólaf Kolbein, 17 ára gömul. Hann lauk burtfararprófi í píanóleik og Ingveldur segir að sé mikill músíkant en hann starfar nú sem skútuskipstjóri á Ísafirði þar sem hann ferjar ferðamenn um Vestfirði og til Grænlands. Og þegar Ingveldur var þrítug eignaðist hún annan son, Finn Torfa, sem móðir Ingveldar tók á móti á 65 ára afmælisdegi sínum.  Finnur starfar í Prag hjá tölvufyrirtæki. “Hann rappar svolítið en er samt sá eini í fjölskyldunni sem er laglaus,” segir Ingveldur brosandi en í röddinni er hlýja þegar hún talar um synina. “Það geta ekki allir verið tónlistarmenn,” bætir hún við.

Tók ábyrgð á eigin lífi

Íslendingar geta sannarlega verið þakklátir þessari hugrökku konu sem tók ábyrgð á eigin lífi og hamingju og forgangsraðaði rækilega. Fyrir hennar tilstuðlan er Ísland nú komið enn betur á kortið en áður var, sama hvað hver segir! Það var samt ekki tilgangurinn þegar bíllinn var seldur fyrir selló.

 

 

 

Ritstjórn febrúar 21, 2020 07:19