Að takast sjötugur á við þjálfun að lokinni hjartaaðgerð

Páll Ólafsson. Myndin er tekin á Geysi, en hann starfar við að aka erlendum ferðamönnum

 

„Ég heiti Páll Ólafsson, ég er aflóga kennari, ég er hjartasjúklingur og tek pillur á hverjum morgni“. Þetta eru upphafsorðin í ávarpi sem Páll flutti á ráðstefnunni Aldrei of seint, sem haldin var nýlega og fjallaði um heilsueflingu eldri aldurshópa.  Páll sem er fæddur vestur á fjörðum hefur alla tíð hreyft sig mikið og byrjaði snemma að iðka frjálsar íþróttir, knattspyrnu, badminton og fleira. Seinna lá leið hans í Kennaraskólann og  þaðan í Íþróttakennaraskólann. En gefum Páli orðið:

 

 

Á fjörutíu ára kennsluferli var ég ætíð líkamlega virkur í kennslustundum þannig að líkamsþjálfunin hélt áfram alveg fram að þeim tíma er ég settist í helgan stein. Samhliða kennslu á efri árum starfstímans tók ég þátt í öldungaíþróttum s.s. blaki, frjálsum íþróttum, sundi og skokki á meðan bak og axlir leyfðu. Ég tók þátt í fjölmörgum skemmtiskokkum, þ.e. 10 km hlaupum, bæði í Reykjavíkurmaraþoni, Húsasmiðjuhlaupi, Krabbameinshlaupi, Miðnæturhlaupi o.s. frv. og var jafnan meðal sjö fremstu í mínum aldursflokki. Ekki amalegt það. Þetta segir manni bara það að líkamlegt form mitt var með ágætum og þakka ég það því uppeldi sem ég fékk í æsku og þeim tækifærum sem lífið bauð uppá.

Allan minn kennsluferil hvatti ég nemendur mína til að hugsa um það sem stæði þeim næst, eigin líkama. Þau hugsuðu vel um bílinn sinn, bónuðu hann og færu með hann í smurningu o.s.frv., en hvað gerðu þau fyrir sjálfan sig? Það gæti skipt sköpum að líkaminn væri í góðu standi þegar og ef e-ð  bjátaði á síðar í lífinu. Ég reyndi það sjálfur fyrir stuttu.

Það var fyrir réttum þremur árum, að ég fann fyrir þyngslum fyrir brjósti þagar ég reyndi á mig. Það var ekki eðlilegt. Ég pantaði tíma hjá heimilislækni og þurfti að bíða um það bil tvær vikur eftir viðtali. Hann sagði mér að panta tíma hjá tilteknum hjartalækni eftir að hafa skoðað hjartalínurit. Tími hjá sérfræðingnum fékkst seint í júlí eð eftir um það bil þrjá og hálfan mánuð. Ég komst að hjá honum mánuði fyrr eftir að einhver hafði forfallast. Skemmst frá að segja sendi hann mig beint niður á Hjartagátt eftir að hafa skoðað hjartalínurit og hlustað á mína frásögn, en það er engin saga um hjartabilun í ættum foreldra minna, ég hafði aldrei reykt, hreyft mig mikið alla ævi og reynt að borða hollt fæði. Það nánast eina sem vann gegn mér var að ég var karlkyns og var að eldast. Svo má deila um það hvort álag í fjörutíu ára kennslustarfi hafi ekki eitthvað með málið að gera.

Eftir þræðingu á hjartagáttinni var mér tilkynnt að fjórar kransæðar væru verulega stíflaðar og stoðnet væri ekki varanleg lausn. Ég beið í hálfan mánuð á deild 14E ásamt tveimur öðrum á stofu sem biðu sömu úrlausnar. Annar var tíu árum yngri, 15 – 20 kg of þungur, stórreykingamaður og með sykursýki. Hinn var tveimur árum eldri en ég, kyrrsetumaður, en þó grannur. Þessi bið var nánast eins og á fimm stjörnu hóteli, dekrað við okkur og við tengdir við sírita sem starfsfólkið fylgdist með dag og nótt. Ekki skemmdi það fyrir að HM í knattspyrnu stóð yfir og við sátum löngum frammi í setustofu og horfðum á knattspyrnu.

Sá yngri fór í aðgerð 7. júlí og við félagarnir tveir sem eftir voru sáum hann ekki meir. Hann var þrjár vikur á gjörgæslu. Við hins vegar fórum í aðgerð 9. júlí og vorum komnir á sömu stofuna á deild 12E innan við sólarhring eftir aðgerðina.

Endurhæfingin hófst svo strax daginn eftir með því að sjúkraþjálfari leiddi okkur fram og til baka eftir sjúkrahúsganginum. Einnig notuðum við mótstöðutæki til að örva öndunarvöðvana með öflugri inn- og útöndun. Þetta var nánast eins og að byrja á núlli. Þrekið var ekkert, en smám saman jókst það og ferðunum fram og aftur um ganginn fjölgaði. Viku seinna fengum við að fara heim og þjálfunin hélt áfram á eigin vegum. Ég gekk svalaganginní blokkinnni sem ég bý í, en hann er u.þ.b. 24 m langur. Ég átti svo að lengja tímann sem ég gekk um eina mínútu á dag þar til ég næði 30 mín., eftir þð mátti ég fara og ganga óhindrað úti.

Konan mín kom alltaf með mér til að byrja með. Hún treysti mér ekki einum. Svo var þetta líka þjálfun fyrir hana fyrir utan félagsskapinn. Tvisvar sinnum þurfti ég að stytta gönguna vegna þess að hjartslátturinn varð of ör og mér leið ekki vel. Annars gekk endurhæfingin áfallalaust og ég sagði við vini og vandamenn, að ég ætlaði að vera í svo góðu formi þegar ég kæmi á Reykjalund í endurhæfingu, að þeir spyrðu bara „hvað er þú að gera hér“?

Ég komst að á Reykjalundi um miðjan september og sem betur fer sendu þau mig ekki heim vegna þess að ég væri í of góðu formi. Við komuna er maður þolmældur sem og við lok þjálfunar eftir fjórar vikur. Hvern virkan dag er verið að frá kl. 08:00 til kl. 16:00 síðdegis. Það er hjólað, leikfimi í sal, styrktaræfingar í tækjum, sundleikfimi, sund, gönguferðir, slökun og fyrirlestrar af ýmsu tagi. Verklegir tímar voru allt að fjórum sinnum á dag þannig að þjálfálagið var verulegt. Engum var samt ofgert þar sem hver og einn vann á sínum forsendum þótt margir misjafnlega á sig komnir væru í sama tímanum. Starfsfólkið frábært, sérfræðingar hver á sínu sviði og vel hugsað um alla.

Eftir þolmælinguna í byrjum spurði ég einn sjúkraþjálfarann hver væru viðmiðin, hvar ég stæði gagnvart öðrum. Hún dró þá upp töflu sem sýndi að minn aldurshópur var með 1,7 wött á hvert kg líkamsþyngdar. Ég var með 2,5 wött. Ég var harla ánægður með það að vera fyrir ofan meðaltalið og hugsaði sem svo að ég hafi kannski ekki verið svo fjarri lagi að vera í of góðu formi þegar ég kom á Reykjalund að þau hefðu getað sent mig heim. Sem betur fer gerðu þau það ekkir því eftir fjögurra vikna stífa þjálfun mældist ég með 3,0 wött á hvert kg sem var 20% framför. Fræðin segja, að eftir því sem líkamsástandið er betra, er erfiðara að bæta sig heldur en þegar það er lélegt.

Eftir þessa mælingu spurði ég hjartalækninn á Reykjalundi sömu spurningar og ég spurði sjúkraþjálfarann um viðmiðin. Jú, minn aldurshópur var með meðaltalið 1,7 wött að lokinni fjögurra vikna þjálfun. Ég var með 3,0 wött.

Hvað segir þetta manni. Það er alltaf hægt að bæta sig, sama í hve góðu formi maður er eða hversu gamall maður er. Það er aldrei of seint að byrja. Ég held áfram að hreyfa mig þrisvar til fimm sinnum í viku eftir því hvernig stendur á og felst hreyfingin í að lyfta lóðum í tækjasal, synda eða ganga.

Af félögum mínum er það að frétta, að sá eldri komst ekki á Reykjalund á sama tíma og ég og sl. haust lést hann af öðrum orsökum.

Sá yngri komst á Reykjalund á meðan ég var þar. Á Reykjalundi eru langir gangar og yfirleitt varð hann að hvílast á miðri leið á milli viðburða á hinum ýmsu stöðum í húsinu. Hann átti mjög langt í land með að ná sér að fullu. Ég hef haft samband við hann af og til og í þessari viku var hann ekki farinn að vinna eftir nær þrjú ár frá aðgerð.

Ég var heppinn. Uppgötvaði tímanlega að ekki var allt í lagi. Vegna þess hve snemma ég komst í aðgerð urðu engar skemmdir á hjartavöðvanum. Ég fékk aldrei hjartaáfall. Viðgerðin tókst fullkomlega.

Ef við getum lært e-ð af þessari sögu, dregið ályktanir, þá eru þær þessar:

Það skiptir öllu máli að hlúa að því sem stendur manni næst, eigin líkama, til þess að geta tekist á við hið óvænta þegar veikindi steðja að síðar á ævinni.

Líkamleg þjálfun á efri árum er tvímælalaust til gagns, hægir á vöðvarýrnun sem aftur stuðlar að meiri brennslu og betra jafnvægi s.s. við göngu. Þeim tíma sem varið er í líkamsrækt, sama á hvaða aldri einstaklingurinn er, er vel varið.

 

Ritstjórn apríl 26, 2017 11:07