Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Nanna Gunnarsdóttir

Árið 1974, þegar ég var 13 ára, gekk fjölskylda mín í gegnum mikinn harmleik þegar tveir bræður mínir drukknuðu.

Líkanna var leitað í margar vikur, gengnar fjörur, leitað á sjó og úr lofti en þeir fundust aldrei.

Fyrstu dagana var ágangur fjölmiðla allnokkur og kvað svo rammt að honum að þáverandi fréttaritari Morgunblaðsins fékk mig, unglinginn, til að skríða inn um glugga heima hjá mér þegar foreldrar mínir voru fjarverandi, til að nálgast myndir af bræðrum mínum svo birta mætti þær með frétt af sjóslysinu. Þessi atburður, þessi ágangur, þessi frekja hefur setið í mér alla tíð síðan. Ég er hins vegar og hef alltaf verið sannfærð um að engum í litla þorpinu mínu, né öðrum landsmönnum, leið nokkuð betur að fá að sjá nöfn og myndir bræðra minna í blaðinu deginum fyrr en seinna. Alveg er ég viss um að allir hefðu sofið án þess.  Allt þetta rifjaðist harkalega upp í vetur í kringum hvarf og lát Birnu Brjánsdóttur. Atgangurinn í kringum allt það mál var skelfilegur og endurtekur sig nú í fjölmiðlum og fréttaflutningi.

Fyrir mína parta þarf ég ekki að vita mínútu fyrir mínútu hvernig atburðir við lát hennar röðuðust upp, né heldur þarf ég að vita nákvæmlega hvernig réttarhöldin ganga til frá einu augnabliki til annars og ég er næstum því viss um að svo er um okkur flest. Upprifjun á slíku, efnistök fjölmiðla, nákvæmar lýsingar atvika breyta engu, bæta engu við og græða engin sár. Við búum í agnarlitlu samfélagi þar sem nándin er svo mikil, fjarlægðin svo lítil og hvergi er hægt að fela sig. Því frekar ættum við öll að reyna að hafa hugfast að aðgát skal höfð í nærveru sálar, ekki síst þegar jafn hræðilegir atburðir eiga sér stað, blaða- og fréttamenn ekki síður en við, venjulega fólkið á götunni því ekkert okkar veit hvenær harmurinn bankar upp á hjá okkur sjálfum.

Ritstjórn ágúst 24, 2017 12:13