Tryggjum eldri borgurum erilsamt ævikvöld

„Eldri borgarar eru hressir og virkir í samfélaginu“, sagði Björk Vilhelmsdóttir formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, á málþingi í húsi BSRB í gær. Hún vitnaði í könnun sem var gerð á högum fólks sem er á aldrinum 67-87 ára, síðla árs 2012.  Sú mynd sem þar var dregin upp, kemur ekki heim og saman við algengar  hugmyndir um bág kjör eldra fólks í landinu, en niðurstöðurnar sem Björk nefndi voru þessar:

74% telja heilsufar sitt mjög eða frekar gott.

79% stunda líkamsrækt, frá einu sinni í viku upp í fimm sinnum eða oftar í viku.

85% eru sjaldan eða aldrei einmana.

73% eru sjaldan eða aldrei með fjárhagsáhyggjur, en 70% telja þó þörf fyrir fjárhagsráðgjöf, líkast til fyrir þá sem rætt er um opinberlega að hafi það slæmt.

88% tala daglega eða nokkrum sinnum í viku við nánustu aðstandendur sína í síma.

66% fá nánustu aðstandendur í heimsókn daglega eða nokkrum sinnum í viku.

71% notar internetið daglega.

25% telja viðhorfið til eldri borgara mjög eða frekar neikvætt.

Eftir að hafa rakið þetta varpaði Björk því fram til umhugsunar hvort fordómar í garð eldra fólks, væru meiri hjá þeim sjálfum en í samfélaginu almennt. Hún fór yfir stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum aldraðra fram til 2017, sem sýnir hvernig borgin ætlar að mæta þörfum eldri íbúa í borginni og nýta mannauðinn sem þeir búa yfir. Hún fjallaði um Reykjavík sem aldursvæna borg og sagði meðal annars að fólk vildi vera virkt á efri árum. Hún vill breyta slagorðinu „Tryggjum öldruðum áhyggjulaust ævikvöld“, í „Tryggjum öldruðum erilsamt ævikvöld“.

37% fólks í kringum sjötugt enn á vinnumarkaði

Það er meginstefna borgarinnar að styðja eldra fólk til sjálfstæðrar búsetu, enda vilja flestir búa eins lengi heima og þeir telja öruggt. Boðið er uppá heimilishjálp til að gera fólki þetta kleift, heimahjúkrun, akstursþjónustu, félagsstarf, dagdvöl og ýmislegt fleira. Það koma meðal annars fram í máli Bjarkar að þegar eftirlaunaaldurinn var ákveðinn 67 ár árið 1936, var lífaldur þjóðarinnar um 20 árum lægri en hann er nú og að um 37% fólks á aldrinum 67-70 ára er enn á vinnumarkaði.

Málþingið var haldið af Sambandi lífeyrisþega ríkis og bæja, sem er samband innan BSRB.

 

 

 

 

Ritstjórn október 14, 2014 14:28