Þau Þórunn Valdimarsdóttir og Einar Már Guðmundsson sendu bæði frá sér skáldævisögur fyrir jól. Bæði hafa áður gert minningum sínum skil á þennan máta Einar í mörgum bóka sinna en Þórunn í Stúlka með höfuð og í Stúlka með maga sagði hún sögu móður sinnar og ömmu. Þetta er áhugaverð leið til að setja sögu sína í orð og með því að bæta orðinu skáld fyrir framan ævisögu er verið að minna á að sagan er ævinlega margslungin og sjónarhorn eins og minningar ekki alltaf eini sannleikurinn.
Lifandi og skemmtileg frásögn
Allt frá hatti oní skó kallast á titilinn á fyrstu ljóðabók Einars Más Guðmundssonar, Er einhver í Kórónafötum hér inni? og á vel við skáldævisögu hans. Við fylgjum Haraldi, ungum manni með skáldadrauma, til Kaupmannahafnar þar sem hann hyggst taka til við framhaldsnám í bókmenntafræði. Það verður lítið úr lærdómi, enda þykir Haraldi mikilvægara að skrifa skáldskap en stúdera hann.
Þetta er skemmtilega skrifuð bók, léttleiki og kímni einkenna frásögnina og mannlýsingar eru lifandi og litríkar. Margar persónur sögunnar eru auðþekkjanlegar þótt þeim séu gefin önnur nöfn og sumir fá að halda sínum nöfnum, einkum skáld, fræðimenn og áhrifafólk á bókmenntasenunni. Einar Már er íslenskum lesendum að góðu kunnur og það er gaman að kynnast vangaveltum hans um skáldskap og heyra af viðleitni hans til að koma sér á framfæri og þroska skáldagáfuna.
Fyrstu bækur Einars, Er einhver í Kórónafötum hér inni?, Riddarar hringstigans, Vængjasláttur í þakrennum og Eftirmáli regndropanna eru illfáanlegar eða ófáanlegar í dag. Þær nutu mikilla vinsælda þegar þær komu út en ekkert í líkingu við þá hrifningu sem Englar alheimsins vakti. Árið 1995 fékk Einar Már bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir þá bók en hún var byggð á sögu bróður hans sem stríddi við geðsjúkdóm. Hann hélt áfram setja lífið í skáldlegan búning, byggja á raunverulegu fólki og atburðum því þríleikur um sögu föðursystkina hans var næstur, Fótspor á himnum, Draumar á jörðu og Nafnlausir vegir.
Krókaleiðir og hliðarskref
Þórunn Valdimarsdóttir er næm, ekki bara á tilfinningar og andrúmsloft heldur einnig á góðar sögur og skemmtilega hluti. Hún hefur mjög sérstæðan frásagnarstíl og mætti segja að hún fylgdi þeim gamla séríslenska frásagnarmáta að fara krókaleiðir að kjarnanum og hika ekki við að taka hliðarskref þegar því er að skipta. Hún er þessar frásaganaraðferð trú í Stúlka með fálka. Líkt og í Íslendingasögunum fléttast hér og flækjast saman alls konar sögur, tilvitnanir, samantekt á ferli fræðimanns og skálds og persónulegar upplifanir.
Helstu kostir Þórunnar sem höfundar eru hve fjörlega hún skrifar, frásagnargleðin bókstaflega ljómar af síðunum. Hún hefur líka lag á að draga fram hið skoplega og kann vel að lýsa á lifandi hátt, mönnum, málefnum og atburðum. Hún er hrifnæm og tilfinningarík og hrífur lesandann með sér hvert sem hún kýs að stökkva í það og það sinnið.
Hún notar bækur sínar til að þræða sig í gegnum ævi sína frá því þar sem Stúlka með höfuð endaði og fram til ársins 2025. Sorgin er hennar fylgifiskur eftir að hún missti mann sinn en vinnan helsta huggun manneskju sem hefur „helft af lífi sínu“. Þórunn er mjög hispurlaus og hreinskiptin í allri frásögn sinni og reynir ekki að draga dul á neitt.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







