Hvaða áhrif hefur það á sextán ára ungling að vera handtekinn og fluttur í fangabúðir fyrir brot sem hann vissi ekkert um og kom aldrei nálægt? Í það minnsta er engin sanngirni í því að þurfa að gjalda fyrir mistök annarra en það þurfti Einar Sveinn Erlingsson að gera. Lilja Kristín og Dagný, dætur hans, rifja upp frásagnir föður síns af verunni í stríðsfangabúðum í Bretlandi og hvernig óttaleysi hans og ódrepandi lífsgleði skilaði sér til barna hans.
Sagt er frá þessu í bókinni Örlagaskipið Artic eftir G. Jökul Gíslason. Þetta virðist hafa verið hin versta óhappafleyta en á það réði Einar Sveinn sig árið 1942. Þetta var skonnorta í þjónustu Fiskimálanefndar og var ætlað að sigla með fisk til stríðshrjáðrar Evrópu. Einar Sveinn hafði komið um borð í Reykjavík og þaðan var siglt til Vestmannaeyja. Þar ráðast um borð breskir hermenn með alvæpni og áhöfnin er öll handtekin vegna gruns um njósnir. Talaði hann um þessa reynslu sína?
„Hann sagði okkur söguna í pörtum og bara þegar hann langaði til,“ segir Dagný. „Hann vissi ekkert hvers vegna hann var tekinn og þegar þeir voru komnir í fangaklefa á Kirkjusandi í Reykjavík reyndi hann að kalla milli klefa til að komast að hvað væri í gangi. En það var fátt um svör. Skipstjórinn, Sigurjón Jónsson, var greinilega mjög reyndur maður því hann hélt ró sinni. Pabbi talaði um að það hefði hann gert allan tímann. Hann mundi líka eftir því og talaði um að sennilega voru þeir pyntaðir. Hann heyrði í þeim ópin og hrópin meðan á því stóð en hann talaði ekki mikið um það. Hins vegar varð hann ekki fyrir því þótt hann þyrfti að dúsa þarna ásamt hinum. En mennirnir voru í rúman mánuð í einangrun í kaldri fangageymslunni á Kirkjusandi.“
Sofnaði ofan í kartöflutunnurnar
Það voru bandarískir hermenn, sérfræðingar í yfirheyrslum, sem pyntuðu þrjá áhafnarmeðlimi en þeir voru kallaðir til vegna þess að breska yfirmanninum, majór Wise, þótti ekki ganga nógu vel að ná upplýsingum upp úr Íslendingunum. Þetta hlýtur að hafa mótað hann?
„Hann talaði um að hann hefði verið í klaustri í Bretlandi,“ segir Lilja Kristín. „Loftárásir voru tíðar á þessum tíma og hann talaði um að grjót úr loftinu hefði hrunið yfir hann þar sem hann lá í kojunni. Mér finnst eins og hann hafi sagt að hann hafi verið einn í herbergi en hinir úr áhöfninni voru á sama stað. Engu að síður hlýtur þetta að hafa verið erfitt. Hann var látinn skræla kartöflur og stundum sofnaði hann ofan í tunnurnar svo þreyttur var hann eftir svefnlausar nætur. Upp frá þessu gat hann heldur aldrei borðað hafragraut. Þegar mamma sauð graut handa okkur, grjónagraut eða hafragraut, vildi hann ekki sjá það. Hann fékk nefnilega svo þykkan og ógeðslegan hafragraut að borða meðan á þriggja mánaða dvöl hans í fangabúðunum stóð.“
Fullorðnaðist fljótt
Málið snerist um loftskeytasendingarnar sem voru fyrst og fremst veðurskeyti og loftskeytamaðurinn og skipstjórinn voru neyddir til að senda þau. Áhöfnin var í þrjá mánuði í fangabúðunum í Bretlandi, frá 22. maí til 9. ágúst þegar mál þeirra hafði verið tekið fyrir og réttur í Bretlandi sýknað þá. Þeir halda heim, á skipinu Artic sem þeir höfðu siglt út.
„Já, loftskeytamaðurinn hafði sent þessi veðurskeyti en af illri nauðsyn,“ segir Lilja Kristín. „En það hafði líka djúp áhrif á áhöfnina að annar vélstjóri svipti sig lífi á leið út til Bretlands því hann óttaðist um afdrif sín. Pabbi fullorðnaðist mjög fljótt. Hann missti mömmu sína aðeins sjö ára og er alinn upp af afa og afasystur minni. Hann fór mjög ungur á sjó og Artic ekki fyrsta skipið sem hann var á. Hann tók hins vegar lífinu af ótrúlegu óttaleysi og kæruleysi. Það mætti segja að það væri ótrúlegt því pabbi hafði sannarlega lært að lífið er ekki sjálfgefið og dauðinn ævinlega nærri. Hann varð var við kafbáta á ferðum sínum á stríðsárunum og árið 1941 missti hann bróður sinn Jón Erlingsson, sem var aðeins þrjátíu og þriggja ára. Hann fórst með Heklu á leið til Nova Scotia en þýskur kafbátur grandaði skipinu.“
Skömmu eftir heimkomuna frá Bretlandi eða 17. mars 1943 strandar þetta óhappaskip utan við Snæfellsnes Talað pabbi ykkar um það?
„Já, í næstu sjóferð Artic strandaði skipið við Snæfellsnes í ofsaveðri og var áhöfninni bjargað naumlega í land með stól sem var hengdur í björgunarlínu,“ segir Lilja Kristín. „Pabbi sagði mér að að hann hafi fengið að fara fyrstur þar sem hann var yngstur. Hann hélt að hann myndi drukkna því hann fór á bólakaf í sjóinn en skaut svo upp með línunni langt yfir sjávarmál þess á milli og náði þá andanum. Skipstjórinn dó í kjölfar þessa strands. Mörgum árum seinna fór ég með mömmu og pabba til að skoða flakið af Arctic sem lá enn þá upp í fjörunni og voru teknar myndir af mömmu og pabba við flakið.“
Sigldi um öll heimsins höf
Hvernig persóna var pabbi ykkar?
„Þegar ég hugsa til baka minnist ég þess að pabbi mátti ekkert aumt sjá. Hann var líka mikill ævintýramaður og vildi ferðast um öll heimsins höf og gerði það. Hann tók sér ansi margt fyrir hendur meðal annars man ég að hann sigldi eitt sinn skútu til Grænlands fyrir erlendan mann sem vantaði reynda áhöfn til að ferja hana þangað,“ segir Dagný. „Um tíma áttum við fjölskyldan heima í Ástralíu þegar honum bauðst vinna tengd skipasiglingum. Pabbi var mikill lífskúnstner og fannst mjög gaman að ferðast bæði um Ísland og erlendis. Við veltum fyrir okkur hvort þessi útþrá og löngun til að upplifa nýja hluti hafi verið vegna þess að hann missti mömmu sína svo ungur og hugsanlega verið tengt einhverju öryggisleysi en nú hef ég stundum hugsað hvort hann hafi fengið áfallastreituröskun.“
„Pabbi var yndislega skemmtilegur maður. Allur heimurinn stóð honum opinn og hann lét ekkert stoppa sig. Í mömmu fær hann konu sem var ofsalega stabíl og jarðbundin. Þau voru bæði mjög greind og bættu hvort annað upp. Ég man eftir þegar pabbi var að koma af sjónum að mamma þaut í fangið á honum. Meðan hann var í skútusiglingunni sendi mamma sendi honum lag í óskalögum sjómanna. Hvítir mávar með Elly Vilhjálms sem er eitt af mínu uppáhaldslögum og kallar ávallt fram margar minningar um mömmu og pabba þegar ég heyri það spilað,“ segir Lilja Kristín.
Yndislegur tími í Ástralíu
Það hefur ekki verið heiglum hent á þeim tíma að taka sig upp með sex börn flytja alla leið til Ástralíu. Svo var pabbi þinn af frægri ætt grasalækna og ljósmæðra. Funduð þið fyrir því?
„Já, í raun vitum við ekki hvort áföllin mótuðu pabba eða hvort hann var svona vegna þess að hann var af þessari ætt,“ segir Lilja Kristín. „Þau voru miklir frumkvöðlar og dugnaðarfólk. Langafi minn og -amma bjuggu í Kálfafellskoti í Vestur-Skaftfellssýslu. Filippus Stefánsson var silfursmiður og Þórunn Gísladóttir ljósmóðir og grasalæknir en getið er um hana í ljósmóðurfræðum. Hún skrifaði Kristjáni X, Danakonungi bréf til að fá leyfi til að nota tangir á Íslandi en fékk ekki.
Þau hjónin tóku sig upp þegar fór að harna á dalnum í sveitinni þeirra þá gengu þau yfir hálendið með allt sitt hafurtask og settist að í Brúnavík á Borgarfirði eystra. Frá þessu er sagt í bók sem heitir Yfir fjöll og firnindi. Hún stundaði þar sjó og var ljósmóðir. Ég hef tengingu við Borgarfjörð eystra vegna þess að maðurinn minn er þaðan og öldruð frænka hans sagði einhvern tíma við mig að hún væri montin af því að langamma mín hefði tekið á móti henni. Þórunn var farsæl í starfi og hún reið yfir ár og vötn þegar hún bjó í Kálfafellskoti til að koma konum í barnsnauð til hjálpar.
Erlingur afi minn var grasalæknir og ég man eftir að hafa tínt fífla og fleiri jurtir fyrir afa. Hann fór oft með okkur krakkana í grasaferðir og reyndi að kenna okkur að þekkja jurtirnar með misgóðum árangri. Ég man þó að á vissum tímum áttum við að tína fíflablómin og á öðrum tíma stönglana eða blöðin. Pabbi sauð einnig seyði og bjó til smyrsl. Þegar ég starfaði sem hjúkrunarfræðingur eða ljósmóðir átti ég alltaf græðismyrsl og gaf stundum sjúklingum.“
Lifði lífinu á sinn hátt
Einar Sveinn var vélstjóri að mennt og seinna vörubílstjóri hjá Vörubifreiðastöðinni Þrótti í Reykjavík. Hann var einn af stofnendum stöðvarinnar.
„Pabbi var óskaplega duglegur að vinna og sá vel fyrir fjölskyldunni,“ segir Lilja Kristín. „Þegar hann var heima vildi hann bara sinna okkur. Ég á góðar minningar úr æsku og fann aldrei fyrir óöryggi. Hann var alla tíð alveg frábær kokkur og eldaði oft fyrir okkur, las heilu sögurnar fyrir mig í æsku og þýddi Andrésar andar blöðin fyrir mig sem voru á dönsku í þá daga. Þegar ég var lasin kom hann með nammi og gos til mín og hélt þeim upptekna hætti alla tíð. Jafnvel þegar ég var sextugsaldri átti alltaf von á því ef ég lá í flensu að hann kæmi með malt og nammi í poka til mín.
Hann var líka lipur penni og skrifaði margar greinar í Morgunblaðið. Ég man líka að hann skrifaði mér oft bréf þegar hann var í burtu og lýsti þá ævintýrum sínum á svo lifandi hátt að þetta var eins og að lesa sögubók. Ég týndi þessum bréfum og sé mikið eftir þeim núna. Hann var líka hagmæltur og málaði mikið af myndum og var að skipuleggja að halda sýningu á þeim þegar hann dó. Eitt sinn sagði hann við mig að hann væri að hugsa um að láta breyta nafninu sinu í Einar Kjarval,“ segir Lilja og skellihlær. „Hann hafði nefnilega góðan húmor og var rosalega fyndinn. Hann glímdi við hjartasjúkdóm í fjölda ára en hafði aldrei viljað taka nokkur lyf en notaði grasalyfin sín. Hann átti alls staðar vini, var töffari fram í andlátið. Hann hélt góðu sambandi við systkinin sín en þau náðu flest háum aldri og héldu góðri heilsu alla tíð. Hann fór sínar eigin leiðir og þær voru ekki allar hefðbundnar, en alltaf skemmtilegar.“
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.