Tengdar greinar

Skiptir um starfsvettvang eftir sjötugt

Pálmi V. Jónsson

Pálmi V. Jónsson var yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítala þar til á síðasta ári þegar hann varð sjötugur en þá hætti hann í sínu gamla starfi lögum samkvæmt. Hann segir hiklaust að þetta tímabil ævinnar, sem hann er á, geti verið gefandi og frjótt ef heilsan heldur. Hann hafði ekki hugsað sér að setjast í helgan stein á þessum tímamótum enda er upplifaður aldur afstæður.

,,Þegar leið að því að ég léti af mínu gamla starfi hafði ég séð starf yfirlæknis öldrunarlækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins auglýst og sótti um því ég sá að það væri  áhugavert,“ segir Pálmi og brosir. ,,Ég hef eðli málsins samkvæmt talsverða reynslu og þekkingu sem ég tel að ég geti notað til góðs úti í samfélaginu og í heilsugæslunni svo ég hikaði ekki við að sækja um. Segja má að ákveðnir tæknilegir örðugleikar fylgi því þegar maður á mínum tímamótum sækir um starf hjá opinberum aðilum! Niðurstaðan varð sú að ég kæmi til starfa sem ráðgjafi.

 Gott að breyta til

Pálma hefur aldrei leiðst að vinna og segir að svo sé enn. ,,Mér finnst ég hafa fullt starfsþrek og starfsgleði og þess vegna er ég ánægður að geta unnið áfram að verðugum verkefnum. Ég hef gjarnan viljað horfa til nýsköpunar og þróunar og mér finnst ég vera á þeim stað núna í nýju verkefni. Þetta starf var ekki til, er opið og þarf að móta og er skemmtilegt og ögrandi að takast á við eftir að hafa verið í akademísku og stjórnunarstarfi lengi,“ segir Pálmi. ,,Ég hef verið lánsamur að fá að vinna með góðu fólki að áhugaverðum verkefnum alls staðar þar sem ég hef verið og hér er ég að kynnast góðu fagfólki þar sem ríkir starfsgleði og kraftur.“

Tilbreyting að þurfa ekki að standa vaktir 

Pálmi segir að mesta breytingin sem hann finni fyrir sé að hann standi ekki lengur vaktir. ,,Það gerði ég fram á síðasta dag í starfi mínu sem öldrunarlæknir. Það munar mikið um að eftir klukkan fjögur á daginn og um allar helgar er ég ekki á vakt. Því fylgir ákveðin frelsistilfinning sem ég er ekki alveg búinn að nema enn þá,“ segir hann og brosir enda ekki nema 4 mánuðir síðan hann hætti í sínu gamla starfi.

Frakkar mótmæla hækkuðum eftirlaunaaldri 

Pálmi segist ekki skilja mótmælin í Frakklandi vegna hækkunar  eftirlaunaaldurs úr 62 ári í aðeins 64 ár, ekki síst þar sem unga fólkið vinnur fyrir eftirlaunum þeirra eldri. ,,Við söfnum vissulega í persónutengdan lífeyrissjóð og miðum við 67 ár eins og Otto von Bismarck gerði, þegar hann sá að þá þyrfti hann aðeins að greiða 5% hermanna sinna eftirlaun. Sambærilegt viðmið í dag væri liðlega 90 ár! ,,Lífslíkur hafa aukist mjög allt frá 1840 þegar þær voru aðeins 45 ár og eru við fæðingu nú ríflega 80 ár. En ævilíkur hvers og eins breytast með aldri. Sem dæmi get ég nefnt að ævilíkur barna sem fæddust 1952 og eru á lífi nú eru 14 árum lengri en þegar þau fæddust. Þess utan hefur heilsufar stórbatnað og allt er þetta stórkostlegt ævintýri. Í þessu ljósi veitir ekki af að halda því fólki, sem það kysi, í starfi sem lengst, ekki síst í smáu samfélagi sem okkar. Æskilegt væri að hafa starfslok sveigjanleg og valkvæð, þannig að ef einstaklingurinn vill vinna og hann eða hún hæfir verkefnum fyrirtækisins, þá megi útfæra áframhaldandi starf. Hvað þarf að tala um það í mörg ár, svo það geti orðið að veruleika?“ spyr Pálmi.

Frágangur pappíranna eins og að stíga inn í fortíðina

Fyrra starf Pálma var mjög erilsamt og fjölþætt og gaf honum aldrei tíma til að taka almennilega til. ,,Ég var þess vegna með mjög skipulagða óreiðu á skrifstofunni. Þegar ég fór í gegnum þessi gögn nú í lokin fór ég að hugsa um það sem liðið er og margt rifjaðist upp. Þessi gömlu gögn fengu mig til að hugsa um hvað lífið er í raun og veru stutt. Það sem gerðist fyrir 30 eða 40 árum er eins og það hafi gerst í gær. Ég veit sem er að ég er kominn á þann aldur að það getur brugðið til beggja vona hvenær sem er og ef einhver ætti að vita það þá er það öldrunarlæknir. Ég sá um leið mjög skýrt þegar ég leit um öxl hvað lífið er verðmætt og eins gott að fara vel með það.“

Skondnar sviðsmyndir

Eitt af því sem Pálmi fann í tiltektinni voru bréf frá því fyrir 30 árum. ,,Maður þurfti oftar en ekki að eiga gögn lengi áður en þeim var hent. Nú er þetta allt í tölvum og hægt að geyma gögnin endalaust. Ég fann til dæmis afrit af bréfi frá því ég var forstöðulæknir á Borgarspítalanum 1994. Mér hafði hugkvæmst að senda þetta bréf til forstöðumanns lækninga. Ég hafði komið heim úr sérnámi 1989 og þá var maður svolítið einangraður fyrst því Internetið var ekki komið til sögunnar í þeirri mynd sem það er nú. Ég hafði verið í alþjóðlegu samstarfi upp á gamla mátann í gegnum fax og póst og bréfið sem ég sendi til forstöðumannsins hljóðaði eitthvað á þessa leið: Nú er komið til sögunnar svokallað Internet víða um heim og hvort ekki  væri vert að tengja Borgarspítalann við það. Svarið sem ég fékk var:  Þetta er verðug hugsun. Ég sendi erindið til „tölvuráðs“ til frekari skoðunar. Nú er hreinlega erfitt að hugsa sér hvernig  hægt var að hafa alþjóðleg samskipti með gamla laginu. Nú er maður á fundum með fólki í mynd frá Ástralíu, Kanada og Evrópu samtímis. Heimurinn er gjörbreyttur og tæknin margfaldar tækifæri og skilvirkni hverrar manneskju.

Svo fann ég annað bréf frá svipuðum tíma. Ég var í forsvari fyrir lyflækningar, taugalækningar og öldrunarlækningar á Borgarspítalanum. Lækningaforstjóri sendi mér línu: ,,Þú hefur nú tækifæri til að fá einn GSM vaktsíma. Hvaða vaktalína ætti helst að fá hann?“ Það var svo sem auðvelt val. Best að láta hjartalæknana fá símann,“ segir Pálmi og hlær. ,,Þá vorum við sem sagt með einn GSM síma til umráða á þessu víðtæka sviði og það eru ekki nema 30 ár síðan,“ Nú er hvert skólabarn með GSM síma bætir hann við og brosir.

Var sjaldan liðtækur á þriðju vaktinni

Pálmi segist vart hafa verið liðtækur á þriðju vaktinni vegna vinnu sinnar. ,,Þórunn Bára konan mín sá um flest í kringum börn og bú sem var mér ómetanlegt,“ segir Pálmi en hann er kvæntur Þórunni Báru Björnsdóttur. ,,Þórunn er listamaður og mér þykir mikilvægt að hún fái nú allan þann tíma sem hún þarf í listsköpunina. Svo nú geri ég mig gildandi á þriðju vaktinni og tilbúinn að taka að mér þau verkefni sem þarf að sinna,“ segir Pálmi og nefnir til dæmis matargerð. ,,Matargerð mín er einföld en ég bjarga mér alveg og geri mitt besta,“ segir hann og hlær. ,,Og Þórunn kvartar ekki.“

Pálmi og Þórunn eiga fjögur börn sem öll eru uppkomin. ,,Ég var löngum stundum fjarri heimilinu vegna vinnu þegar börnin okkar voru ung en nú eigum við níu barnabörn og mér þykir óskaplega gaman að fylgjast með þeim þroskast. Sem betur fer er viðhorf ungs fólks og skipulag á vinnu breytt frá því sem áður var. Mér sýnist að það sé reiknað meira með að allir taki þátt í fjölskyldulífinu en var í gamla daga. Við erum öll börn okkar tíma og ég sé núna að óhófleg vinna og mikil fjarvera frá heimilinu er ekki af hinu góða.“

Tækifæri til að gera áhugaverða hluti 

Pálmi segir að nú hafi opnast tími til að gera meira af því sem honum þyki áhugavert. ,,Ég hef gaman að sögu, bókmenntum, myndlist og tónlist en í gegnum tíðina hef ég ekki gefið mér eins mikinn tíma og ég hefði viljað til að sinna þessum áhugamálum mínum. Ég er meðvitaður um að tíminn er ekki óþrjótandi og er ákveðinn í að nýta þann tíma sem ég hef vel, bæði í leik og starfi,“ segir hann. ,,Ég veit auðvitað sem læknir á þessu sviði að til þess að halda góðri heilsu eru ákveðnir þættir sem skipta máli. Þar er fyrst að telja hreyfingu, hollt mataræði, takast á við ögrandi verkefni og eiga í samskiptum við fjölskyldu og samferðafólk og að temja sér jákvætt hugarfar. Margir selja fjölskylduhúsið og flytja í fjölbýlishús þegar komið er á minn aldur. Við Þórunn teljum hins vegar að það sé ágætt að eiga hús með stigum og lítinn garð að hugsa um. Og fræðin segja að það er hollt að hugsa sjálfur um heimilið, þrífa, ganga stiga og hugsa um umhverfi sitt. Þeir sem það gera eru almennt frískari og lifa lengur. Loks eigum við sumarbústað sem ég vænti að geta varið meiri tíma í og þar hef mikla ánægju af því að taka til hendinni. En það er ekki á vísan að róa og auðvitað glíma margir við heilsubrest og geta ekki lifað sínu gamla lífi lengur, og ef eða þegar sú staða kemur upp, þurfum við eins og aðrir að aðlagast raunveruleikanum.“

Hvað gerir Pálmi sjálfur til að halda heilsu?

,,Aðalatriðið er að velja foreldrana vel!“ segir hann og hlær. ,,Öllu gamni sleppt, þá er stutta svarið að ég geri ekki neitt alveg sérstakt,“ segir hann. ,,Stærstu þættirnir eru líklega að ég reyki ekki og hef ekki gert og neyti áfengis í hófi. Svo er ég meðvitaður um þau ofan töldu atriði sem stuðla að góðri heilsu. Loks fylgist ég  með áhættuþáttum sjúkdóma, svo sem  hjarta- og æðasjúkdóma og D-vítamín er mikilvægt fyrir bein- og vöðvastyrk.“

Pálmi veit manna best hvaða hættur eru fyrir hendi og hvað skiptir máli þegar aldurinn færist yfir og segir að hver og einn verði að vera meðvitaður og taka ábyrgð á eigin heilsu. Sú ábyrgð vex óðfluga upp úr miðjum aldri.  ,,Svo er það er takmörkunum háð hvað heilbrigðiskerfið getur gert fyrir okkur ef í óefni er komið,“ segir Pálmi eftir langa starfsævi á sviði öldrunarlækninga.

Farðu heim og hlúðu að eigin umhverfi

Pálmi er áhugamaður um alþjóðlegar fréttir og stjórnmál og segir að það sé erfitt að vita af stríðsátökum, fátækt, hungri og óréttlæti víða um heim, nú sem fyrr. ,,Það eru svo margir sem líða ólýsanlegar þjáningar vegna þessa og sem ein stök manneskja finnur maður til vanmáttar. Við getum hjálpað með því að  styðja hjálparsamtök og getum lagt góðum málum lið.  En ég minnist þess sem Móðir Teresa sagði þegar hún var spurð hvað við ættum að gera í ljósi þess að lífið á jörðinni væri illt og óréttlátt fyrir svo marga sem raun ber vitni. Hún sagði ,,farðu heim og elskaðu fjölskyldu þína.“ Ef fjöldinn fylgdi þessu heilræði kæmist mannkynið á betri stað,“ segir Pálmi V. Jónsson sem tók nýverið við splunkunýju starfi, sjötugur að aldri.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 17, 2023 07:00