Af fáfræði minni og fordómum

Inga Dóra Björnsdóttir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar:

Ég móðga vonandi engan með því að halda því fram, að við séum öll, eða höfum öll verið, haldin fordómum, fordómum sem rekja má til fávisku og þekkingarleysis.

Ég hef verið haldin þeim og er, án efa, haldin mörgum enn. En ég hef líka losað mig við marga, sem stafar annað hvort af því að mér var bent á það blákalt, að ég væri haldin ranghugmyndum, eða að bein reynsla kenndi mér að ég færi með rangt mál.

Þegar ég var að alast upp á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar í Reykjavík voru tveir brandarar í gangi, sem ég heyrði og endursagði gjarnan sjálf og fannst vera voða fyndnir, sem lýstu í raun miklum fordómum og vanþekkingu á sögu og reynslu svertingja og gyðinga.  Einn þeirra var brandari um blökkumann, sem var á gangi niður Laugaveginn og rak auga í sviðakjamma út í glugga í matvöruverslun. Honum brá við, hljóp sem hraðast á brott, því að hann hélt að Íslendingar væru mannætur og borðuð svertingja. Ha, Ha, Ha!  Hinn brandarinn fjallaði um hóp gyðinga, sem voru líka á gangi í Reykjavík og áttu leið fram hjá sláturhúsi Sláturfélags Suðurlands, sem var, og er reyndar enn, þekkt undir skammstöfunni SS.  Sláturhúsið var merkt SS og blóðtaumar runnu undan dyrum þess og flæddu yfir gangstéttina út á götu.  Gyðingunum brá að vonum í brún og hlupu eins hratt og þeir gátu á brott, héldu að þarna væru höfuðstöðvar SS sveita á Íslandi, og þar væri verið að aflífa gyðinga. Ha, Ha,Ha!

Ég viðurkenni, að mér fannst ekkert athugunarvert við þessa brandara, fyrr en ég fór í framhaldsnám til New York á sjöunda áratug síðustu aldar, þar sem ég kynntist í fyrsta sinn gyðingum og svertingjum.  Og það var í raun ekki fyrr en eftir boð, sem við héldum fljótlega eftir komu mína þangað, þar sem saman voru komnir Íslendingar og ein kona af gyðingarættum, sem mér varð fyllilega ljóst að þessir brandarar væru þrungnir fordómum.  Einn íslensku gestanna í boðinu sagði brandarann um gyðingana sem hlupu eins og fætur toguðu frá Sláturfélagi Suðurlands og hlógum við Íslendingarnir, að venju, dátt. Daginn eftir kom kærasti gyðingakonunnar, íslendingur, sem ekki hafði verið í boðinu, að máli við mig, húðskammaði mig og benti mér á hversu mikil fáviska og skilningsleysi á þjáningum gyðinga, já hreinir fordómar, lægu að baki þessum brandara. Hann og kærasta hans voru svo sár og reið, að þau vildu upp frá þessu ekkert við okkur og aðra Íslendinga í New York tala.

Þegar ég fór svo að kynna mér sögu og reynslu Bandarískra svertingja áttaði ég mig fljótt á því, hversu mikil fáviska og fordómar, lágu að baki “brandaranum” um svertingjann og sviðakjammann. Í honum kristallaðist sú landlæga hugmynd að svertingjar séu að eðlisfari heimskir. Heimska þessa manns birtist í því, að hann gerði ekki greinarmun á sínu eigin höfði og haus á kind.  Og það má lesa enn aðra algenga hugmynd að baki þessa brandara, en hún er sú, að svertingjar líkist meira dýrum en mönnum.  Svertinginn á Laugaveginum var í raun skyldari kind en manni.

Ég hafði líka oft heyrt og trúði, að svertingjar væru latir að eðlisfari og það útskýrði af hverju þeir væru svona fátækir og byggju í fátækrahverfum. Andstætt hinum hvítu, nenntu þeir ekki að vinna og voru hirðulausir um sjálfa sig og umhverfi sitt. Ég hafði séð myndir úr hverfunum þeirra, sem sönnuðu svart á hvítu leti þeirra og hirðuleysi, og ég sá líka ruslið og niðurníðsluna með eigin augum, þegar ég keyrði í fyrsta skipti í gegnum Harlem til að komast norður fyrir Manhattan.

Ég efaðist ekki til fulls um réttmæti þeirra hugmynda, að svertingjar væru að eðlisfari latir og óþrifnir, fyrr en starfsfólkið, sem sá um þrif og viðhald á byggingunni, þar sem við bjuggum í Greenwich Village, fór í verkfall. Allt svertingjar.

Þetta var hið huggulegasta fjölbýlishús, þar sem einkennisklæddur dyravörður opnaði dyrnar fyrir íbúum og fagnaði komu þeirra með bros á vör. Og auðvitað gætti hann þess vandlega, að engin óæskileg manneskja kæmist inn í bygginguna. Anddyrið var glæsilegt á að líta, glansandi hreint og fínt, já svo fínt að það var hægt að spegla sig í granítlögðu gólfinu og gylltu súlunum, og við hverju öðru var að búast í húsi þar sem vinnusamt og þrifið hvítt fólk bjó?  En eftir viku verkfall, fóru að renna á mig tvær grímur, anddyrið fína, gangarnir og þvottahúsið í húsinu fyllust af rusli. Hvernig mátti það vera? Hvaðan kom allt þetta drasl hugsaði ég með mér, en áttaði mig fljótt á því, að það var allt hirðuleysi íbúanna sjálfra að kenna.  Þessir dugmiklu og vinnusömu hvítu nágrannar mínir voru í reynd engu minni sóðar en svertingjarnir í Harlem.  Eini munurinn var sá, að hinir hvítu höfðu þjóna, já svarta þjóna, á vakt alla daga til að þrífa skítinn eftir sig, meðan Harlem og önnur fátækrahverfi í New York, fengu litla sem enga þjónustu við sorphirðu og hvað þá, að hinir svo kölluðu hvítu “slum lords,” sem áttu byggingarnar í Harlem og stórgræddu á leigunni frá svertingjum, héldu byggingum sínum við. Þar var allt látið dankast, enda, eins og viðkvæðið var, áttu svertingjar ekkert betra skilið.

Ég skammaðist mín mjög mikið fyrir fordóma mína og þekkingarleysi, og varð það hvatinn að því, að ég hef, frá þessum tíma, haft ástríðufullan og takmarkalausan áhuga á sögu og menningu svertingja og annarra minnihutahópa í Bandaríkjunum.  Ég kenndi til dæmis námskeið við Háskóla Íslands veturinn 1986 um menningu og sögu bandarískra svertingja. Svona til gamans má geta, að ég fékk Jón Múla heitinn, til að koma og tala um jazz og sögu hans í bekknum, en hann var auðvitað aðal sérfræðingur landsins um jazz. Nemendurnir höfðu mjög gaman að, og Jón Múli líka, en honum hafði aldrei fyrr verið boðið að halda fyrirlestur við HÍ. Svo hef ég líka í áraraðir kennt námskeið um minnihlutahópa í Bandaríkjunum við Kalíforníuháskólann í Santa Barbara.  Ég hef lært mjög mikið á þessum árum, en á enn margt eftir ólært, enda er saga þessara hópa svo slungin og margbrotin. Og eins og heimsbyggðinni ætti að vera full ljóst, þá eiga þessir hópar nú undir högg að sækja, eina ferðina enn, undir stjórn Trump forseta. Eins og frægt er orðið, lýsti hann því yfir, kinnroðalaust, þegar hann steig fram til að tilkynna framboð sitt til forseta, að Mexíkóar væru upp til hópa nauðgarar og glæpamenn. Þegar þessi orð eru rituð, berst hann um á hæl og hnakka til að fá vilja sínum framgengt og byggja múr upp á milljarða dala, til að koma í veg fyrir að þessi óþjóðalýður, eins og hann kallar flóttamenn frá Mið Ameríku, komist inn til landsins. Og að lokum má nefna, að áður en hann fór í framboð, hélt hann uppi stöðugum og háværum áróðri fyrir því, að Obama væri fæddur í Keyna og hefði þess vegna engan rétt til að sinna starfi forseta Bandaríkjanna.- Og allt þetta gerir hann undir þeim fallegu formerkjum, að baráttumál hans muni tryggja, að Bandaríkin verði á ný besta land í heimi!

 

Inga Dóra Björnsdóttir febrúar 4, 2019 06:03