Maðurinn minn yfirgaf mig vegna nunnu

Inga Dóra Björnsdóttir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Í haust fór ég á heilsugæslustöð til að fá flensusprautu. Rétt eftir að ég settist niður í biðstofunni, gekk inn smávaxin, kvikk eldri kona, sem settist við hliðina á mér. Við tókum tal saman og fyrr en varði var hún búin að segja mér lífssögu sína í stórum dráttum.

Kona þessi var danskættuð og hét Jytte. Hún fæddist í Kaupmannahöfn árið 1943, en á þeim tíma réðu þýskir nasistar lögum og lofum í Danmörku. Þegar stríðinu lauk var móðir hennar aðframkomin og vildi komast eins langt burt frá Danmörku og hún gat. Það var ekki aðeins erfið reynsla stríðsáranna sem réði þessari útþrá, heldur hafði maðurinn hennar svikið hana í tryggðum oftar en einu sinni.

Hún var svo lánsöm að eiga frænda í Arizona, sem gat útvegað henni og fjölskyldu hennar landvistarleyfi í Bandaríkjunum. Þegar leyfið var í höfn tilkynnti hún manninum sínum fyrst um áætlanir sínar, og bauð honum að koma með ef hann vildi, ef ekki, þá færi hún ein síns liðs með dóttur þeirra til Bandaríkjanna.

Faðir Jytte ákvað að slást í för með þeim mæðgum, en þegar þau komu til Arizona í sumarlok 1947 leist þeim ekki á blikuna. Þar var of mikil auðn, þar var of heitt, gróðurinn þyrrkingslegur og eini gróðurinn sem var á hæð við dönsk tré, voru þyrnum þaktir kaktusar, sem veittu hvorki skugga né skjól. Þau ákváðu því að halda förinni áfram til Kaliforníu og ráðlagði frændinn þeim að fara til Santa Monica, sem er strandbær í Los Angeles.

Jytte sagði að foreldrar hennar hefðu aldrei komist til botns í því af hverju þeim voru seldir lestarmiðar til Santa Barbara, en ekki til Santa Monica. Þau komu til Santa Barbara seint að kvöldi, og þar sem lestin til Los Angeles kom ekki fyrr en síðla næsta dags, gistu þau á tjaldstæði yfir nóttina.

Þegar þau vöknuðu morguninn eftir blasti Santa Barbara við þeim í allri sinni dýrð. Faðir Jytte fór á stjá og sá að mikill uppgangur var í bænum, mörg ný hverfi að rísa og því nóg að gera fyrir mann eins og hann, en hann var ekki aðeins húsasmíðameistari heldur líka fullgildur veggfóðrari.

Fjölskyldan settist því að í Santa Barbara og vegnaði vel og þar liggja foreldrar Jytte grafnir.

Það var komið fram á haust þegar þau lentu óvart í Santa Barbara og Jytte hóf nám í elsta barnaskóla bæjarins. Í fyrsta tímanum kynnti kennarinn hinn nýja nemanda fyrir bekknum, sagði þeim að hún væri frá Danmörku og héti Jytte. Jytte væri danska nafnið yfir Judy og bauð kennarinn síðan bekkjarfélögum hennar að kjósa um hvort þeir vildu kalla hana Judy eða Jytte. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra vildi að hún héldi danska nafninu og sagði hún að hún hafi alla tíð verið bekkjarfélögum sínum ákaflega þakklát fyrir það hún hafi fengið að halda áfram að vera Jytte.

Jytte kynntist stóru ástinni sinni í framhaldsskóla. Þegar þau útskrifuðust fór hún að vinna á skrifstofu, en mannsefnið fór í kennaraháskólann í Santa Barbara og gengu þau í hjónaband árið sem hann útskrifaðist þaðan.

Ungu hjónin komu sér upp fallegu heimili í Santa Barbara og eignuðust tvö börn, dóttur og son.  En svo, sagði Jytte, og leit á mig með sínum stóru leiftrandi augum, fór maðurinn minn frá mér, hann tók saman við nunnu.  – Við nunnu, spurði ég hvumsa???!!!  Hvernig gat það eiginlega gerst?????

Jú, maðurinn hennar, sagði hún mér, var írskættaður kaþólikki.  Eftir að hann lauk kennaranáminu, kenndi hann um árabil við grunnskóla í Santa Barbara, en undi til lengdar ekki hag sínum þar.  Launin voru of lág og vinnuálagið of mikið.  Hann leitaði því fyrir sér með nýja kennarastöðu og fékk besta  tilboðið frá kaþólskum heimavistarskóla fyrir stúlkur í Los Angeles, sem rekinn var af nunnum. Hann þáði starfið með fullu samþykki Jytte. Hún taldi að betri laun myndi bæta upp fyrir það að maðurinn hennar yrði bara heima um helgar, en of langt er á milli Santa Barbara og Los Angeles til að keyra  á milli daglega.

Það hvarflaði aldrei að henni, sagði hún, að hjónabandi hennar og mannsins hennar væri stefnt í hættu þó hann væri umkringdur nunnum alla daga, þær voru jú harðgiftar Jesús Kristi. – En reyndin varð svo sannarlega önnur, það er víst hægt að segja skilið við Jesús og taka saman við karlmann af holdi og blóði!

Skilnaðurinn var henni mikið áfall, en með tíð og tíma tókst henni að koma undir sig fótunum.  Hún fékk starf á skrifstofu Santa Barbara Sýslu, sem sér um úthlutun byggingarlóða og byggingarleyfa.

Í þessi starfi kynntist Jytte vel reglum og lögum og, um leið, tækifærum á fasteignamarkaðnum í sýslunni og eignaðist hún með tíð og tíma bæði atvinnu-og íbúðarhúsnæði, sem hún leigir út og hefur hún lifað góðu lífi af leigutekjunum um árabil.

Börnum hennar tveim vegnaði einnig vel og hún á hóp barnabarna, sem veita henni mikla ánægju og gleði.

Fyrrverandi eiginmaður hennar og nunnan hans eru bæði látin, en hvort þau lentu í himnaríki eða helvíti veit enginn….

 

 

 

 

Inga Dóra Björnsdóttir apríl 18, 2022 07:00