Forréttindablinda í algleymi allsnægtanna

Inga Dóra Björnsdóttir

Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Ég uppgötvaði nýlega íslenska nýyrðið foréttindablinda.  Því var varpað fram í þeim heitu umræðum, sem spruttu upp á netmiðlum og í fjölmiðlum, eftir að í ljós kom að bankaráð Landsbankans, banka allra landsmanna, hafði hækkað laun bankastjórans á einu bretti um meira en rúmlega milljón, frá um 2,1 milljón upp í 3,8 milljónir á mánuði. Ljóst er að íslenskur almenningur jafnt sem íslenskir ráðamenn, áttu erfitt með að sætta sig við þennan gjörning, mitt í vandasamri og viðkvæmri kjarabaráttu íslensks láglaunafólks, sem margt hvað þiggur rétt um 300 þúsund krónur í laun á mánuði.

Orðið forréttindablinda hefur tvíbenta merkingu. Í fyrsta lagi þýðir það að fólk sé blint á að það njóti efnahagslegra og félagslegra forréttinda. Fyrir því er það sjálfgefið að búa í vönduðum og fagurlega búnum híbýlum, keyra um á góðum bílum, eiga allt til alls, nóg að bíta og brenna, að geta farið í ferðalög innan lands sem utan, þegar því hentar, hafa aðgang að góðum skólum og góðri menntun og að vellaunuðum störfum, og svona mætti lengi telja.  Hin merking orðsins forréttindablinda er sú, að fólk sé blint á, að til sé fólk, sem ekki býr við sömu góðu kjör og það sjálft, og ef það gerir það, þá sé það bara því sjálfu að kenna.

Ég tók mig til og kynnti mér hverjir það voru sem sitja í bankaráði Landsbankans og sá að meiri hluti þess samanstendur af hámenntuðum konum og körlum, án efa öll í góðum og vellaunuðum störfum og nær öll fædd á tímabilunu 1968-1972. Það er að segja börn minnar kynslóðar, en ég er fædd árið 1952.  Þessi staðreynd vakti mig til umhugsunar um mína eigin æsku og uppeldi og hvað hafi breyst í íslensku samfélagi frá þeim tíma sem ég var að vaxa úr grasi á fimmta og sjötta áratug 20. aldar.

Ég, sem læknisdóttir, ólst upp við forréttindi og ég gerði mér snemma grein fyrir því. Faðir minn kom úr íslenskri forréttindastétt, bæði faðir hans og föðurafi voru prestar. Frá því að hann fæddist, einkasonurinn (hann átti fjórar systur) vissi hann, að hann, einn systkina sinna, myndi fara í langskólanám. Hann var jú karlkyns og fáar stúlkur á þessum árum settust á menntaskólabekk og stunduðu háskólanám. Pabbi bestu vinkonu minnar, sem bjó  í húsinu við hliðan á mér, var lofskeytamaður og vann á millilandaskipi. Faðir hennar var vel gefinn og hörkuduglegur maður, en það hafði aldrei komið til greina hann færi menntaveginn, þá voru engin námslán, sem síðar veittu ungum konum og körlum úr alþýðustétt tækifæri til að afla sér háskólamenntunar. Foreldrar hans unnu alla tíð verkamannavinnu í Reykjavík og bjuggu í hrörlegum húskynnum við Vesturgötuna, þar sem við komum stundum við vinkonurnar, þegar við fórum úr Hlíðunum niður í bæ. Mér varð fljótt ljóst að hrörleg húskynni afa og ömmu vinkonur minnar, höfðu ekkert með manngildi þeirra að gera, heldur mátti rekja stöðu þeirra til þess efnahagslega misréttis sem ríkti í íslensku samfélagi á þeim tíma.

Svo fræddist ég líka fljótt um sögu langömmu minnar í móðurætt og ömmu minnar í föðurætt.  Langamma mín og maður hennar voru bláfátækt sveitafólk, sem dreymdi um að eignast  eigið býli.  Þeim tókst að eignast landspildu upp í grjóthlíð að Fossi á Vestdalseyri við Seyðisfjörð. Vilborg Dagbjartsdóttir skáldkona óx upp í nágrenni við þau, og hefur lýst lífsháttum á þessum stað vel í skrifum sínum. Af mikilli bjartsýni byggðu þau sér þar lítið torfhús og hófust handa við að hreinsa landið af steinum og rækta það.  Það tókst ekki, svo til að lifa af, fór langafi minn í vegavinnu og langamma mín, dugmikil kona, fór til Reykjavíkur og lærði að verða ljósmóðir, og starfaði sem ljósmóðir Seyðfirðinga í rúma þrjá áratugi. Þeim tókst sem sagt að bjarga sér, en komust aldrei, eins og sagt var, í góðar álnir.

Föðuramma mín, ólst hins vegar upp á Seltjarnarnesi í stórum hópi systkina, Þær voru tólf systurnar, og nokkrir bræður. Faðir hennar var sjómaður, sem réri til fiskjar á árabát og dugðu tekjur hans ekki til að fæða og klæða barnaskarann. Amma mín var því ekki há í loftinu, þegar hún fór að vinna fyrir sér og sem ung kona réði hún sig sem vinnukonu á sveitabæi víða um land. Eins og hún sagði síðar frá, voru húsbændur hennar og kjörin sem voru í boði, afar misjöfn. Sumir gerðu vel við vinnufólk sitt og aðrir ekki. Hennar frelsi fólst í því, að hún gat flutt sig um set á annan bæ, ef illa var farið með hana. Eitt sumarið réði hún sig í heyvinnu hjá langafa mínum, sem var prófastur á Miklabæ í Skagafirði, og þar varð draumaprinsinn á vegi hennar, elsta barn foreldra sinna og prestsefni.

Ég er að segja þessar sögur hér til að sýna, að þrátt fyrir að ég sjálf hafi alist upp við forréttindi, þá var ég ekki haldin þeirri blindu að þau væru sjálfgefin og ég gerði mér líka grein fyrir því að það voru margir sem bjuggu við bág kjör og áttu allt betra skilið.  En eins og tilkoma orðsins forréttindablinda gefur vísbendingu um, þá virðist sem á Íslandi sé komin kynslóð, sem hefur ekki haft náin kynni af fólki sem hafði það verra en það sjálft.   Auðvitað voru síðustu áratugir 20. aldar, allt fram að hruni, miklir uppgangstímar á Íslandi, og fáir liðu sýnilegan skort, en ég spyr: Hefur ekki aðeins orðið félagslegt rof í íslensku samfélagi, heldur líka sögulegt rof?  Var þessu unga fólki aldrei sagðar sögur af lífi og kjörum forfeðra sinna og formæðra?  Gleymdist það í algleymi allsnægtanna?

Inga Dóra Björnsdóttir febrúar 25, 2019 09:56