Hjólaþjófurinn góði og draumurinn um Teslu

Inga Dóra Björnsdóttir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Maðurinn minn hefur hjólað í vinnuna í 37 ár. Gott veðurfar við Kalíforníuströnd og góðar hljólabrautir hafa gert honum það kleift. Maðurinn minn er laus við allar tækja dellur og þar til fyrir þremur árum hjólaði hann alltaf á notuðum hjólum, en framboð á þeim er mikið hér um slóðir. Árlega er haldið uppboð á hjólum, sem nemendur við Kalíforníu háskóla í Santa Barbara skilja eftir þegar þeir ljúka námi, og skipta þau hundruðum.

Á sextíu og fimm ára afmæli hans ákvað ég að gefa honum nýtt hjól, hjól með breiðum og góðum dekkjum, þægilegu sæti, góðum gírum og góðu stýri. Í maí síðastliðinn þurfti hann að fara með mér í tannaðgerð en varð seinn fyrir, hentist heim á hjólinu, lagði því í hjólagrindina fyrir framan húsið okkar og brunaði með mig til tannlæknisins.

Þegar við komum heim aftur var hjólið  horfið, en í öllum asanum hafði maðurinn minn gleymt að læsa því. En þar með var sagan ekki öll: hjólaþjófurinn hafði skilið eftir annað hjól í hjólagrindinni, hjól af Fuji gerð, létt og nett að sjá.

Það fyrsta sem maðurinn minn gerði var að senda út skeyti til allra í hverfinu okkar til að grennslast fyrir um hvort einhver þeirra ætti þetta hjól, en enginn þeirra reyndist vera eigandi þess.

Því næst hringdi hann í lögregluna og tilkynnti stuldinn og fundinn. Við könnun á gagnagrunni lögreglunnar kom í ljós að enginn tilkynning um stuld á þessu tiltekna hjóli hafði borist henni.

Það kom einnig í ljós að eiganda hjólsins hafði láðst að skrá hjólið svo númer hjólsins var ekki að finna í gagnagrunni lögreglunnar og því engin leið að nálgast eiganda þess.

Lögreglan sagði manninum mínum að koma með hjólið á lögreglustöðina til geymslu í þrjá mánuði. Ef enginn gæfi sig fram sem eigandi þess á þessum þremur mánuðum yrði hjólið hans eign, en hér gildir sú gamla góða regla, að sá á fund sem finnur ef enginn kemur eigandinn…

Enginn gaf sig fram sem eigandi hjólsins, svo að þremur mánuðum liðnum hringdi lögreglan og bað manninn minn að sækja hjólið, það væri nú hans eign.

Þegar maðurinn minn sótti hjólið sagði lögreglumaðurinn, sem afhenti honum það, að þeir hefðu aldrei haft jafn flott hjól í sinni vörslu og bætti því við, að hann yrði alltaf að taka það inn með sér á skrifstofuna og loka það inni í bílskúrnum heima. Ef hann gerði það ekki yrði því stolið fljótt aftur.

Og er það nema von. Maðurinn minn komst að því að nýtt hjól af sömu gerð kostar um 5000 dali, eða tólf sinnum meira en hjólið hans sem hvarf.

Já og nú gerir maðurinn minn eins og honum var sagt og gætir þessa happafengs vel, enda hefur hann aldrei haft jafn mikla ánægju af því að hjóla í og úr vinnu eins og eftir að hann eignaðist þetta eðalhjól.

Nú göntunst við hjónin með það að skilja hybrid Honduna okkar alltaf eftir opna með lyklunum í, í von um að bílaþjófur á Teslu skipti henni út fyrir Honduna gömlu…

Inga Dóra Björnsdóttir mars 28, 2022 06:50