Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar.
Ein af kvikmyndunum sem fer að koma í kvikmyndahúsin er japanska myndin Perfect days. Hún segir frá manni sem sér um að þrífa klósett í Tókýó. Frábær mynd ekki síst fyrir tónlistina. Allir gömlu smellirnir og það á kasettum. Otis Redding, Bítlarnir og fleiri og fleiri. Tónlistina spilaði klósettmeistarinn í bílnum á leið í vinnu. Unga fólkið í kringum hann kunni ekki að fara með kasettur þannig að hann gætti þeirra eins og sjáaldurs augna sinna. Setti þær í og tók þær úr græjunni. Krakkarnir fengu ekki að snerta dýrðina.
Þetta minnti mig á atburð fyrir skömmu. Ég fékk heimsókn af ungum dreng sem sagðist vera með gjöf handa mér. Hann gat ekki útskýrt hvað þetta væri en hann vissi að ég ætti tæki, sem enginn annar ætti. Þetta var geisladiskur og tækið var geislaspilari. Hann hafði fengið „þetta“ í skiptum hjá skólafélaga. Á disknum var tónlist eftir Strauss og Schubert. Hann var mjög stolur af gjöfinni og við ánægð með viðbótina í safnið.
Við erum með geislaspilara inni í stofu og notum hann endalaust. Þegar ég fékk nemendur úr háskólanum í heimsókn í fyrra hlógu þau þegar þau sáu græjurnar, sem ég hélt að væru svo flottar. Keypti þær fyrir jólin fyrir nokkrum árum þegar sonur minn var búin að kvarta endalaust yfir lélegum hljómgæðum í stórri stofunni.
Fyrir þessi jól ætluðum við að kaupa tónlistina hennar Laufeyjar, en þá var hún bara til á vínyl. Hins vegar væri smuga að hún kæmi seinna á geisladiski, sagði strákurinn í búðinni þegar á hann var gengið. Við biðum og eigum nú Laufeyju á geisladiski. Það er greinilega mjög hallærislegt að kaupa disk.
Uppi á háalofti eru fullir kassar af vínylplötum sem ég hef aldrei haft kjark eða tilfinningalegt þrek til þess að losa mig við. Plötuspilari af gömlu gerðinni er líka einhvers staðar á loftinu eins og reyndar margt annað gamalt og gott!
Nú er það spurningin hvort við eigum að sækja gömlu vínylsmellina og græjurnar og koma þeim fyrir í stofunni. Reyndar er græjan ljót og plöturnar taka pláss, en hvað gerir maður ekki til þess að losna við hallærisstimpilinn. Eða kannski er rétta skrefið að losa okkur við þetta allt saman og hlusta á Spotify?
En einmitt þegar þetta er skrifað man ég eftir græju sem amma mín fann á haugunum í kringum 1955 á Akureyri. Við kölluðum þetta lallafón af því að við gátum ekki sagt grammafónn. Þetta var voldugt tæki með stórum armi og plöturnar sem hún fann voru rispaðar en ekki af verri endanum m.a. með Caruso. Það var helgistund þegar amma dró fram lallafóninn.
Ég vildi að okkur hefði borið gæfa til þess að halda upp á þessar fornminjar af ruslahaugnum og ég myndi ekki hika við að gefa þeim veglegan sess í stofunni, en því miður eru þær nú bara til í minningunni. Bráðum gildir það sama um flotta geislaspilarann minn. Hann fer sennilega fljótlega á haugana með áfangastoppi á háaloftinu.