Gamlir skartgripir öðlast nýtt líf  

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Mánudagurinn eftir ferminguna mína er mér ógleymanlegur. Allar vinkonur mínar mættu á skólalóðina og báru saman gullhringana sína og úrin sem þær höfðu fengið í fermingargjöf.  Ég hafði hvorki fengið hring né úr.  Reyndar man ég ekki hvað ég fékk – ég man bara hvað ég fékk ekki. Á þessari stundu þótti mér gæðum lífsins misskipt. Hringarnir voru allir svipaðir, enda smíðaðir af eina gullsmiðnum í bænum, skrautlegir steinar með gullflúri í kring. Mér þóttu þeir ótrúlega fallegir. Sumar þeirra nota þá enn.

Tíminnn leið og lífið átti eftir að þróast þannig að ég eignaðist töluvert af skartgripum. Ég naut þess að nota þá og eiga til skiptana, hringa til skiptanna, hálsmen, armbönd og nælur. Allt ekta vara út eðalmálmum. Ég skreytti mig með þessu í takt við tækifærin og fötin mín. Reyndar þróaðist þetta smám saman þannig að ég tók meira ástfóstri við einstaka gripi en aðra og nota þá enn.

Á miðjum aldri tók ég mig upp og flutt með allt mitt til Danmerkur og mætti þar nýjum áskorunum í lífi og starfi. Ein áskorunin var sú að upplifa í tvígang innbrot. Það er lífsreynsla sem gleymist aldrei. Allt hafði verið fótum troðið og þjófarnir voru í leit að lyfjum og skartgripum. Lyfin átti ég ekki en skartgripi fundu þeir. Í bæði skiptin hvarf talsvert af skartinu mínu en það sem verra var – ég missti öryggistilfinninguna og trú á að heimilið mitt væri öruggur friðarreitur.

Í kjölfarið tók ég það sem eftir var, setti í poka og setti í bankahólf. Þar láu skartgripirnir mínir ónotaðir um árabil. Ég mundi þó eftir þeim þegar heim var haldið mörgum árum seinna. Þegar þeir komu upp úr pokanum uppgötvaði ég að ég stórir skartgripir klæddu mig ekki lengur. Enska orðatiltækið less is more átti við um þetta. Gripirnir hurfu því aftur ofan í poka og hafa verið geymdir á vel völdum felustað síðan.

Önnur af ömmustelpunum mínum lauk stúdentsprófi í vor og mig langaði til þess að gefa henni eitthvað fallegt sem hæfði yndislegri stúlku. Í stað þess að kaupa bara eitthvað skoðaði ég pokann minn góða og dró fram demantshring sem mér þótti afar vænt um á sínum tíma. Það þurfti að hreinsa hann og stækka og nú er hann eins og límdur á fingurinn á henni.  Önnur mömmustelpa á afmæli í haust og hennar bíður líka nýpússaður hringur úr pokanum góða.  Ég er þegar farin að skipuleggja jólagjafir í sama anda.

Gullsmiðurinn sem hjálpaði mér brosti stoltur þegar hann sýndi mér árangurinn og sagði að það væri alltaf sérstaklega ánægjulegt fyrir hann að sjá gamla skartgripi öðlast nýtt líf.

Þegar mamma lést, bað pabbi mig um að skipta þeim fáu skartgripum sem hún hafði eignast, milli stúlknanna í fjölskyldunni. Það var erfitt verkefni en ég gerði mitt besta. Ég held að leiðin sem ég er að fara sé miklu meira gefandi – að geta sjálf valið það sem ég held að fari hverri best og geta notið þess að sjá ungu stúlkurnar mínar nota það sem mér er kært.

Sigrún Stefánsdóttir nóvember 1, 2019 08:27