Síðastliðinn föstudag sýndi RÚV fyrri hluta þýskrar kvikmyndar um Aenne Burda. Líklega hafa ekki margar íslenskar konur vitað hver stóð að baki hinum geysivinsælu tískublöðum og sniðum sem ansi margar notuðu til að halda sér móðins í nokkra áratugi á síðustu öld. En Aenne Burda var óvenjuleg á margan hátt, skarpgreind með skýra sýn á stöðu og þarfir kvenna og óbrigðula tískuvitund.
Þessi merka kona lést 3. nóvember, árið 2005. Hún bjó alla ævi í Offenburg, var gift útgefandanum Dr. Franz Burda og átti með honum þrjá syni. En hún var líka vinkona Karls Lagerfeld, Hans-Dietrichs Genschers fyrrum aðstoðarkanslara Vestur-Þýskalands og kvikmyndaframleiðandans Arthurs Cohn. Í minningargreinum þýsku blaðanna var hún kölluð kona aldarinnar, eitt af íkonum tuttugustu aldar, prinsessa kjólanna, einn áhrifaríkasti frumkvöðull eftirstríðsáranna og „Wonderwoman“ þýska viðskiptaheimsins.
Stór orð en svo virðist að þessi kona hafi átt þau öll fyllilega skilin og meira til. Hún ekki bara breytti kvenfatastærðum í Þýskalandi og Evrópu nánast allri varanlega heldur einnig því hvernig konur klæddu sig. Hún gerði hinum efnaminni kleift að taka upp snið af hátískufatnaði og sauma sér sjálfar sambærilegar flíkur. Blað hennar, Burda Moden, var selt í yfir 120 löndum og sniðin flugu um allan heim.
Hún fæddist í Born árið 1909, önnur í röð þriggja barna kyndara og lestarstjóra við þýsku járnbrautirnar og heittrúaðrar kaþólskar móður sem þekkt var fyrir útsjónarsemi og sparnað. Þau bjuggu í fátækrahverfi og almenni skólinn þar var ekkert of góður. Anna Magdalene, en það var skírnarnafn hennar, neitaði að ganga í hann og fékk það fram að fara í klausturkskólann sem þótti betri. Hún varð þó að sætta sig við að hætta þar þegar hún var send heim fyrir að vera ekki í skóm með leðursóla en fjölskylda hennar hafði engin efni á slíku fíneríi. Þetta kom illa við Önnu Magdalenu og hún einsetti sér að ná lengra í lífinu.
Franz Burda kemur til sögunnar
Tækifæri til þess kom þegar hún kynntist Franz Burda. Hann var að vísu fátækur eins og kirkjurotta, rétt eins og hún, en hafði náð að afla sér menntunar, var með doktorspróf. Þau urðu einlæglega ástfangin og Franz ætlaði sér að stækka og gera meira úr lítilli prentsmiðju föður síns. Þau giftust árið 1931. Franz virðist einnig hafa haft skýra sýn á hvernig hann hygðist láta drauma sína rætast því hann hóf að gefa út blöð meðal annars fyrstu útvarpsdagskrárblöð í Þýskalandi og fljótlega tók hann að græða á tá og fingri.
Anna var heima og hugsaði um syni þeirra þrjá en hún þráði að vinna úti og vildi setja á stofn eigið tískutímarit sem maður hennar vildi ekki styðja hana í. Þegar hún komst hins vegar að því í maí 1945 að Franz átti ástkonu og barn í bænum Lahr og hafði sett þar upp útgáfufyrirtæki sem barnsmóðir hans stýrði greip hún til sinna ráða og neyddi hann til að selja sér útgáfufyrirtækið, hún hótaði ella að skilja við hann. Framhjáhaldið var henni engu að síður mikið áfall þótt hún hafi kosið að nýta sér það í hag.
Um leið og hún tók við rekstrinum breytti hún nafni sínu í Aenne en það var vísun í vinsælt dægurlag sem hún hélt mikið uppá. Hún var hugsjónakona í þeim skilningi að hún vildi að allar konur ættu þess kost að efla sjálfstraust sitt og finnast þær fallegar. Lítið úrval var af fatnaði í verslunum í Þýsklandi eftir stríð og flest það sem fékkst í daufum litum, úr slitsterkum og praktískum efnum og sniðin púkaleg. Margar konur gengu í stagbættum fatnaði eða einhverju saumuðu upp úr gömlu. Í París hafði Christian Dior hins vegar hleypt af stokkum nýja útlitinu eins og hann kallaði línu sína. Þar var lögð áhersla á kjóla þrönga í mittið með víðum pilsum, falleg efni og allur fatnaður var lagaður að kvenlíkamanum. Konur um alla Evrópu dreymdi um að klæðast slíkum fötum.
Í Þýskalandi var til gnægð efna en engin snið og hvorki silkisokkar né áhugaverðir fylgihluti. Aenne Burda skildi tækifærin sem fólust í þessu en í hennar huga var fegurð og glæsileiki meira en útlitið eitt. Að hennar mati var það valdefling kvenna sem skipti máli og hún var viss um að henni mætti ná fram með því að hjálpa þeim að njóta sín gegnum föt sem gæfu þeim sjálfstraust.
Í janúar árið 1950 sendi hún frá sér fyrsta blað sitt og líkja má vinsældunum við sprengingu. Upplagið var 100.000 eintök en aðeins ári síðar hafði hún greitt upp allar skuldir útgáfufyrirtækisins, margfaldað upplagið og dreifingin færst til ellefu annarra Evrópulanda. Hún réði Irene Baer, saumakonu, sér til aðstoðar. Irene var aðeins tuttugu og eins árs en full eldmóðs og saman voru hún og Aenne á við heilan her.
Næstu árin var vöxtur fyrirtækisins ótrúlegur og áður en yfir lauk varð það eitt stærsta viðskiptaveldi Evrópu og blaðið selt í yfir sextíu löndum um allan heim. Sjálf þótti Aenne ávallt smekkleg í klæðaburði, fáguð og skemmtileg í fasi og greind. Hún dró að sér athygli hvar sem hún kom og meðal vina hennar voru helstu tískuhönnuðir og listamenn tuttugustu aldar meðal annarra Andy Warhol og Karl Lagerfeld. Hún og Franz slitu aldrei hjónabandi sínu en voru í opnu sambandi þar til hann lést árið 1986. Aenne varð ástfangin af sikileyskum manni Giovanni Panarello, á einum af mörgum ferðalögum sínum til Ítalíu en samband þeirra varði í þrjá áratugi. Sonur hennar, Hubert, tók við fyrirtækinu formlega árið 1994 en Aenne sleppti aldrei alveg af því hendinni meðan hún lifði. Í dag heitir Burda Moden, Burda Style og skrifstofur þess eru staðsettar í Munchen. Blaðið kemur út á átján tungumálum og er eingöngu dreift á netinu.