Omar Sharif látinn í Kaíró

Omar Sharif og eiginkonan  Faten Hamama

Omar Sharif og eiginkonan Faten Hamama

Egypski leikarinn Omar Sharif lést nýlega í Kaíro í Egyptalandi 83 ára að aldri. Omar Sharif var listamannsnafn hans. Hann hét í raun og veru Michael Demitri Chalhoub og fæddist í Egyptalandi árið 1932. Faðir hans var timburkaupmaður. Hann lauk námi í stærðfræði og eðlisfræði frá Háskólanum í Kaíró, áður en hann söðlaði um og gerðist kvikmyndaleikari.  Hann hóf kvikmyndaferilinn í heimalandi sínu á sjötta áratugnum og kvæntist fljótlega leikkonunni Faten Hamama. Til þess að kvænast henni snerist hann til múhameðstrúar.

Talaði sex tungumál

Omar Sharif varð þekktastur fyrir leik sinn í breskum og bandarískum myndum og hlaut Golden globe verðlaunin fyrir leik sinn, annars vegar í myndinni Arabíu Lawrence og hins vegar í myndinni Dr. Zhivago. Dr. Zhivago var þriggja klukkustunda löng mynd um ástir og örlög, sem gerist í Rússlandi byltingarinnar. Hún var gerð árið 1965.  Omar Sharif talaði sex tungumál og lék oft menn af erlendum uppruna. Hann átti mikilli velgengni að fagna í kvikmyndunum, vann til margra verðlauna og lék í sinni síðustu mynd árið 2006, rúmlega sjötugur.

Bjó á evrópskum hótelum

Omar Sharif árið 2003

Omar Sharif árið 2003

Þau Omar og Faten eignuðust einn son, en skildu árið 1974. Omar kvæntist aldrei aftur. Hann bjó á hótelum í Evrópu og stundaði áhugamál eins og kappreiðar og bridge af kappi. Um tíma átti hann í sambandi við Barböru Streisand, sem olli nokkru fjaðrafoki í pólitíkinni í Egyptalandi, þar sem hún studdi Ísrael í átökum við Egypta.

Omar átti við hjartveiki að stríða síðustu árin og á endanum gaf hjartað sig. Hann lést í Kaíró 10.júlí síðast liðinn og var jarðsettur þar.

 

Ritstjórn júlí 23, 2015 15:33