Gráir skilnaðir er hugtak, sem kemur frá Bandaríkjunum. Það er sammerkt með Bandaríkjamönnum og Norðmönnum að skilnaðir fólks sem er í kringum sextugt og eldra hafa tvöfaldast og jafnvel þrefaldast á síðustu 30 árum eða svo. Um þetta var fjallað á systursíðu Lifðu núna í Noregi. Vi över 60. Þar er rætt við tvo sérfræðinga, sálfræðing og félagsfræðing sem hafa bæði rannsakað gráa skilnaði og tekið viðtöl við uppkomið fólk um líðan þess þegar foreldrar þeirra skilja á efri árum. Punktarnir sem hér fara á eftir eru fengnir úr samtali við þær á vefnum. Þar kemur fram að uppkomnu börnin geti upplifað skilnað foreldra sinna á efri árum sem svik og ákveðinn missi.
- Vandinn sem getur tengst gráum skilnuðum er sá að foreldrar uppkominna barna halda að skilnaðurinn hafi engin áhrif á börnin, þau séu upptekin af eigin lífi og samböndum.
- Þau upplifa skilnað foreldranna samt sem áður oft sem erfiða, sorglega og truflandi. Þeim finnst oft að tilfinningar þeirra séu ekki teknar með í reikninginn. Þær skipti ekki máli. Til að bæta gráu ofan á svart ríki hálfgert „tabú“ um skilnaði eldri foreldra. Uppkomin börn mæta litlum skilningi í umhverfinu þegar foreldrar þeirra skilja. Margir skilja ekki hvað tilfinningar þau eru að ganga í gegnum og finnst bara að þau séu orðin fullorðin og geti þess vegna hrist þetta af sér.
- Það er engu líkara en að eldra fólk sem skilur og á uppkomin börn og jafnvel barnabörn, geri sér ekki alltaf grein fyrir afleiðingunum. Umhverfið líti svo á að skilnaðurinn sé nokkuð sem uppkomnu börnin eigi bara að láta sig hafa. Eldri foreldrum beri engin skylda til að taka tillit til uppkominna barna sinna. Þeir lifi sínu lífi og eigi rétt á að velja hvað þeir gera.
- Það geta verið margar ástæður fyrir því að fólk velur að skilja á efri árum. Kannski hafa hjónin fjarlægst hvort annað og verið óhamingjusöm árum saman. Þau gera sér líka betur grein fyrir því með aldrinum að þau hafa mismunandi þarfir þegar kemur að tilfinningum og fjármálum. Stundum getur ástæðan verið framhjáhald eða andlegt- og líkamlegt ofbeldi. En hvað sem því líður eru þau oft á tíðum tilbúin til þess eftir langt óhamingjusamt hjónaband, að taka skrefið og skilja.
- Fólk lifir lengur en áður og það skiptir máli fyrir þá sem vilja skilja á efri árum. Konur eru oðnar sjálfstæðari og óháðari makanum en áður var og hugsanlega sjá bæði karlar og konur tækifæri til þess að finna persónulega hamingju, síðustu æviárin.
- Ég hef fullan skilning á því að fólk sem hefur búið í óhamingjusömu hjónabandi í 30-40 ár vilji að lokum skilja og finnist að þar sem börnin eru flogin úr hreiðrinu og farin að lifa sínu eigin lífi, sé tími til kominn að hugsa um eigin þarfir. En samt sem áður er ekki hægt að loka augunum fyrir þeirri staðreynd að skilnaðarbörn eru á ýmsum aldri og erfiðu tilfinningarnar eru svipaðar. Uppkomin skilnaðarbörn geta átt erfitt með að taka skilnaði foreldranna og finnst ekki rétt að litið sé framhjá því þegar þau upplifa sorg og missi.
- Uppkomin skilnaðarbörn hafa að mörgu að hyggja. Það getur til dæmis skapast uppnám á hátíðum, afmælum og við útskriftir barnabarna þegar fjölskyldan er ekki lengur sameinuð. Það eru nokkuð mörg dæmi þess að uppkomin börn geta ekki haldið eina einustu hátíð með báðum foreldrum sínum, öfum og ömmum barnanna.
- Þetta er sérlega áberandi um jól og aðra hátíðisdaga. Það þarf að sinna öllum, þannig að enginn gleymist og finnist hann utan gátta. Fólk verði ekki leitt og biturt yfir jólin. Kona nokkur lýsir því að hún gæti aldrei sagt mömmu sinni að hún væri að fara í heimsókn til pabba síns, því mamman héldi strangt bókhald um heimsóknirnar.
- Einstaka eiga fráskilda foreldra og líka afa og ömmu sem hafa skilið. Þá fyrst fer fjölskyldutréð að verða margklofið og kræklótt og erfitt að halda öllu saman.
- Það sem skiptir máli í þessum samskiptum þegar eldri foreldrar skilja, er hversu gott samkomulagið er þeirra á milli. Það er mjög erfitt fyrir uppkomin börn ef það er pressað á þau að taka afstöðu með öðru foreldrinu. En það eru líka dæmi um skilnaði sem ganga friðsamlega fyrir sig og samkomulagið er þannig að fólk getur hist á hátíðum og merkisdögum. Þannig er hægt að halda í fjölskylduhefðirnar. Það er enn betra ef nýir makar foreldranna geta líka takið þátt, án þess að það valdi vandræðum.
- Það getur líka verið krefjandi að taka afstöðu til nýrra maka foreldranna. Jafnvel þótt uppkomin skilnaðarbörn óski þess heitt að mamma og pabbi hafi það gott, getur það verið krefjandi þegar ný manneskja fer að breyta æskuheimilinu. Þó börnin skilji að pabbi eða mamma vilji hefja nýtt líf með nýjum maka, getur það samt verið sárt. Þegar nýr maki er búinn að umturna gamla heimilinu finnst börnunum það ekki lengur vera „þeirra“ heimili.
- Það getur verið flókið að ákveða hverjum uppkomnu börnin eiga að bjóða í brúðkaup, skírnir og fermingar. Það hentar kannski ekki alltaf að mamma eða pabbi komi með nýja makann. Það getur verið sérstaklega erfitt ef nýi makinn er á aldur við uppkomnu börnin. Það gerir hlutverk þeirra sem fullorðinna barna foreldra sinna snúnara og mörgum finnst það snúa lífinu á hvolf ef nýr maki er á aldur við börnin sjálf, eða jafnvel yngri.
Sérfræðingunum ber saman um að líðan uppkominna barna við skilnaði hafi verið of lítill gaumur gefinn og það eigi að vera eðlilegt að ræða þær tilfinningar. Skilnaðurinn geti verið þeim ákveðið áfall, sérstaklega ef hann vekur upp aðra eldri reynslu, sem var erfið. Það geti verið gott að leita sér aðstoðar ef líðanin er slæm. Fullorðið fólk ber sjálft ábyrgð á því að takast á við sína sorg. Svo er mikilvægt að uppkomnu börnin verði ekki helstu stuðningsmenn foreldranna við skilnað, sérstaklega ekki ef annað foreldrið upplifir mikla óánægju.
- Skilnaður foreldra á efri árum kemur stundum eins og þruma úr heiðskýru lofti fyrir börnin. Menn lifa lengur og halda heilsu lengur en áður. Stundum er hægt að bíða með að skilja, en verði skilnaður ekki umflúinn er mikilvægt að veita tilfinningum og upplifun uppkomnu barnanna athygli.
- Það eru nokkur atriði sem skilja uppkomin skilnaðarbörn frá yngri skilnaðarbörnum. Góðu fréttirnar eru þær að þau hafa bæði þekkingu og tilfinningalegan þroska til að setja sig í spor foreldranna. Þau verða kannski leið, en sem fullorðnir einstaklingar geta þau skilið hvað er á seyði.