„Aldur er ekki forspá um frammistöðu í starfi,“ sagði Jakobína Hólmfríður Árnadóttir, hópstjóri ráðninga hjá Capacent á ráðstefnu sem Landsamtök lífeyrissjóða gengust fyrir undir yfirskriftinni: Áskoranir fyrir vinnumarkaðinn vegna hækkandi lífaldurs. Jakobína sagði að hlutverk Capacent við ráðningar væri tvíþætt. Annars vegar að þjónusta fyrirtæki sem eru að leita að fólki í ákveðin störf og hins vegar að þjóna fólki sem er að leita að vinnu. Hún sagði margar þekktar aðferðir við að ráða í störf . „Aldur er afleit forspá um frammistöðu í starfi og ætti þar af leiðandi ekki að vera breyta varðandi ráðningar. Kennitalan á hvorki að vinna með fólki né á móti því,“ sagði Jakobína. Í máli hennar kom fram að í gagnagrunni Capacent væru 16 þúsund manns frá 16 ára aldri. Þar af eru á milli 600 og 700 í gagnagrunninum sem komnir eru yfir sextugt. Hún sagði að þeir sem væru á skrá hjá Capacent væri fólk sem væri opið fyrir nýjum tækifærum og svo þeir sem væru atvinnulausir.
Fáir atvinnuleitendur yfir sextugt
„Maður veltir því fyrir sér hvers vegna það eru svona fáir yfir fimmtugt í gagnagrunninum. Við höfum ekki endilega svör við því. Það getur verið að fólk þori síður að hreyfa sig þegar það er komið yfir miðjan aldur. Maður veltir fyrir sér hvers vegna svo fáir sækja um störf í gegnum okkur sem eru orðnir 60 ára og eldri. Við heyrum oft frá þeim sem eru 55 ára og eldri, spurninguna skiptir kennitalan mín máli. Ég held að í mínu starfi höfum heyrt þessa spurningu margoft. Ég man eftir því að nýlega sat ég á móti konu sem var um sextugt og var að sækja um starf. Ég hafði ekki leitt hugann að því hvað hún væri gömul fyrr en hún minntist á það. Maður veltir því fyrir sér af hverju við fáum þessar spurningar svona oft, hvort það sé af því að fólk er búið að vera að sækja um og hefur rekið sig á að aldur þess hafi áhrif eða hvort að fólki séu gefnar þær skýringar að það fái ekki vinnu vegna aldurs. Það er ekki okkar reynsla að sú skýring sé gefin að aldurinn skipti máli heldur eru það aðrir þættir. Það er gríðarlega mikilvægt að hafa þekkingu og færni til að sinna starfinu sem sótt er um og hvata til þess,“ sagði Jakobína og bætti við að fyrirtæki hafi sjaldan ákveðna stefnu um hvernig aldurssamsetning hópsins á að vera sem starfar hjá því. Það sé eitt af því sem fyrirtæki mættu fara að marka ákveðna stefnu í.