Árið 2007 tóku 22 íslenskar konur sig saman og fóru til New York til að ganga þar í „Avon“ göngunni til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini. Forsprakki hópsins var Gunnhildur Óskarsdóttir sem hafði greinst í tvígang með brjóstakrabbamein. Hópur kvenna sem tengdist henni ákvað að skella sér með og svo fleiri konur sem tengdust þeim. Þær söfnuðu fé til að styrkja bandarísku rannsóknirnar og jafnframt tóku þær ákvörðun um að safna sömu upphæð og leggja til rannsókna á brjóstakrabbameini hér heima.
Næstum 500 félagar
Starfsemi hópsins var fljót að vinda uppá sig. Núna eru tæplega fimm hundruð félagar í Göngum saman og undanfarin ár hafa styrktargöngur verið haldnar um á allt að 14 stöðum á landinu. Þar að auki hafa hönnuðir og listamenn lagt félaginu lið. Hlín Reykdal skartgripahönnuður hefur til dæmis í þrígang hannað skartgripi sem eru seldir til styrktar málefninu. Nú hefur hún hannað tvær gerðir af hálsfestum sem verða seldar á næstu dögum til styrktar grunnrannsóknum á brjóstakrabbameini. „Þetta er í þriðja skiptið sem ég vinn með Göngum saman, fyrst voru það armbönd, þá lyklakippur og nú festar. Brjóstakrabbamein snertir nánast hverja fjölskyldu og ég er ánægð með að geta lagt þessu málefni lið“, segir Hlín.
Vigdís Finnbogadóttir tók við fyrstu festinni
Frú Vigdís Finnbogadóttir verndari samtakanna tók við fyrstu festinni. Gunnhildur Óskarsdóttir formaður Göngum saman sagði af því tilefni „Það skiptir félagið og mig persónulegu máli að hafa Vigdísi í okkar röðum. Það vita allir að Vigdís læknaðist af brjóstakrabbameini og við sem fáum meinið þráum að gera það líka. Vonin skiptir svo miklu máli.“
„Það er rétt að vonin og trúin á bata skipta svo miklu máli, segir Vigdís,“ en það læknar okkur ekki eitt og sér. Vísindin verða að hafa sigur og þessi stuðningur okkar í Göngum saman við vísindin auka líkurnar á því að sá sigur náist.“
Engin yfirbygging
Gunnhildur segir að félagið hafi frá upphafi notið mikillar velvildar en allir sem leggja félaginu lið vinna í sjálfboðavinnu. Yfirbyggingin er engin og allt fé sem safnast rennur óskert til rannsókna á brjóstakrabbameini. Frá upphafi til dagsins í dag hefur félagið styrkt íslenska vísindamenn um 50 milljónir króna. Á mæðradaginn 10. maí nk. verða göngur á vegum samtakanna haldnar um allt land og á þessu ári er ætlunin að veita 10 milljónir til rannsóknastarfsins sem er sama upphæð og á síðasta ári.
Salan á festunum fer fram í vinnustofu Hlínar á Fiskislóð 75, næstu tvær vikur, eða meðan birgðir endast. Einnig er tekið við pöntunum í gegnum skilaboð á facebook síðu félagsins ef fólk vill fá festarnar í póstkröfu.