Tuttugufaldur öldrunarstimpill !

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir forseti hug- og félagsvísindadeildar HA skrifar

Ég las í Morgunblaðinu í vikunni viðtal við konu sem átti 100 ára afmæli. Hún var meðal annars að segja frá því hvað henni hefði þótt gaman að fljúga og að hún saknaði þess að fara ekki lengur í ferðalög. Allt í einu sá ég þetta glæsilega afmælisbarn fyrir mér sitjandi við netið að bóka flug út í heim. Af myndinni að dæma virtist þessi kona ekki deginum eldri en sjötíu og fimm ára og ég vona að hún láti drauminn rætast.

Hve oft hefur maður ekki heyrt þá fullyrðingu að aldur sé afstæður. Nú sigli ég hraðbyr í áttina að sjötugs afmælinu örlagaríka, þegar ríkið sendir mér þurrt uppsagnarbréf í afmælisgjöf og ökuskírteinið mitt rennur út á sjálfan afmælisdaginn. Ég veit ekki hvernig ferlið er við endurnýjun þess. Kannski vil ég ekki vita það strax enda eitt og hálft ár í þessi tímamót þegar klisjan um að aldur sé afstæður hættir að gilda.

Við sem lifum í þeirri sjálfsblekkingu að við séum enn í fullu fjöri og til í hvað sem er, rekum oft augun í orðalag og orð sem staðfesta allt aðra sýn á þennan aldurshóp. Ég á nokkrar gamaldags orðabækur í bókaherberginu mínu. Ég nældi mér í þá latnesku, norsku, ensku og íslensku og bar saman nokkur orð yfir þetta aldursskeið. Í gömlu Oxford orðabókinni minni er orðið old útskýrt sem advanced in age eða far on in natural period of existence. Þá vitið þið það! Það er ekki mikil bjartsýni í þessu. Í ensk- norsku orðabókinni er orðið old þýtt á norsku sem gammel, fiffig, dreven, klok. Ég er alveg til í að vera bæði fiffig og klok. Það er flottur hljómur í þessum tveimur norsku orðum. Í latnesku orðabókinni fæ ég að vita að öldungur heitir senex, eða senator. Mér þykir orðið senex hættulega nálægt seníl þannig að ég halla mér að orðinu senator. Í íslensku samheitaorðabókinni er orðið öldungur það sama og gamalmenni eða öldurmenni og það að vera öldurmannlegur er að vera fyrirmannlegur. Nú erum við að tala saman. Ég vil gjarnan vera fyrirmannleg á mínum efri árum.

Við sendum út skilaboð með því hvaða orð við notum. Ef manneskja yfir sjötugt kaupir farmiða í strætó milli landshluta stendur aldraðir og öryrkjar á miðanum. Sjálfstraustið hrynur þegar svona miðum er troðið niður í dúnkinn fremst í bílnum. Mig minnir að maður þurfi að troða yfir 20 miðum með þessari áletrun niður áður en maður sleppur inn í bílinn. En hvað gera Norðmenn ? Ég fór í norskan strætisvagn í sumar og þá var hægt að velja um þrjár tegundir farmiða: barn, voksen og honör. Í norsku orðabókinni minni er orðið honör þýtt sem æresbevisning eða heiðursviðurkenning. Ég keypti með stolti honör miða. Þetta fallega orð þýðir á íslensku m.a.heiður, frami, sómi, vegsemd og virðing.Mér þætti óneitanlega skemmtilegra og betra fyrir sjálfstraustið að geta keypt mér sómamiða eða heiðursmiða og geta sest bein í baki niður í þægilegt sætið í strætó og notið ferðarinnar, laus við öldrunarstimpilinn í tuttugasta veldi.

 

 

 

 

 

 

Sigrún Stefánsdóttir nóvember 9, 2015 11:09