Andlitslyfting með laser er einföld aðgerð

Það þarf ekkert að útskýra það fyrir konum sem eru komnar yfir miðjan aldur að húðin slappast og hrukkur verða áberandi í andlitinu. Margar konur líta á þetta sem sjálfsagðan hlut, en aðrar vilja gera eitthvað í málinu, til dæmis fara í andlitslyftingu. Andlitslyfting með skurðaðgerð er töluvert inngrip. Skurðaðgerðin tekur nokkrar klukkustundir og það þarf að fara mjög varlega með sig eftir hana. Það er einnig hægt að fara í andlitslyftingu sem er gerð með lasertækni. Það er mun einfaldara og það tekur miklu skemmri tíma að jafna sig eftir hana.

Bryndís Alma Gunnarsdóttir

Bryndís Alma Gunnarsdóttir

Andlitslyfting án skurðaðgerðar

Bryndís Alma Gunnarsdóttir eigandi húðmeðferðarstofunnar Húðfegrun, segir að munurinn á þessum andlitslyftingum sé hvernig þær séu framkvæmdar. Hin hefðbundna andlitslyfting er framkvæmd með skurðagerð en laserlyfting er gerð með lasertækni eins og heitið bendir til. Bryndís segir að laserlyftingin sé framkvæmd með þeim hætti að lasergeislanum sé beint að því svæði sem verið sé að meðhöndla. Geislinn berist undir ysta lag húðarinnar og byggi upp kollagen og elastínþræði í undirlagi hennar, en það er það sem hefur áhrif á teygjanleika húðarinnar. „Þetta er gert án þess að skaða húð eða nærliggjandi vefi“, segir Bryndís.

Sambærilegur árangur

Hún segir að strax eftir laserlyftingu hefjist uppbygging húðarinnar og í kjölfarið dragist hún saman og þéttist. Hrukkur og línur minnki og áferð húðarinnar verði fallegri. Endurnýjun og örvun kollagen húðarinnar haldi áfram í allt að mánuð eftir meðferðina. Hún segir að árangurinn af laserlyftingu sé alveg sambærilegur við árangur af andlistslyftingu með skurðaðgerð. Það sem laserlyfting hafi fram yfir skurðagðerðina sé að einstaklingar vinni húðina til baka með náttúrlegum hætti, með því að byggja upp undirlag hennar og enginn sársauki fylgi meðferðinni. Einstaklingurinn geti farið beint í vinnu eftir meðferð.

Árangurinn endist í um 4 ár

Bryndís segir það sitt mat að það sé alltaf betra að þurfa ekki að leggjast undir hnífinn og nýja lasertæknin sé frábær. Hún segir að þeir sem hafi komið til sín séu mjög ánægðir með árangurinn. Hún segir að hann endist flestum í að minnsta kosti fjögur ár og lengur hjá þeim sem viðhaldi húðinni vel. Eftir þann tíma byrjar ferlið aftur hægt og rólega. Það fer að slakna á elastínþráðum, draga fer úr kollagen framleiðslu og smám saman með tímanum slappast húðin aftur. „Þá er gott að koma í eina laserlyftingu til að viðhalda árangrinum“ segir Bryndís.

Fjórar meðferðir 240 þúsund krónur

Hún segir að verðið á laserlyftingu sé breytilegt eftir því hvaða svæði sé tekið, hver meðferð kostar 30.000-100.000 kr. Hún segir algengast að einstaklingar séu að taka laserlyftingu á neðra andliti þar sem hver meðferð kostar 60.000 kr. Til að ná sem bestum árangri þurfi flestir að taka um 4 meðferðir og þá sé heildarverðið 240.000 kr. Til samanburðar kostar andlitslyfting með skurðaðgerð á öllu andlitinu um 600.000 kr., sem þarf að borga úr eigin vasa ef um fegrunaraðgerð er að ræða. Ef einungis er tekin ennislyfting með skurðaðgerð kostar það um 300.000 kr.

Ritstjórn október 21, 2015 12:38