Stækkunarspegillinn er þarfaþing

Það eru alls kyns atriði sem fara að skipta máli í sambandi við snyrtingu og útlit  þegar við erum komnar yfir sextugt. Þessu lýsir Andrea Pflaumer, í grein á vefnum sixtyandme. Hún byrjar greinina á að segja frá vinkonu sinni sem gaf móður sinni stækkunarspegil í afmælisgjöf þegar hún varð níræð. Vegna þess að þú veist… sagði vinkonan en greinarhöfundurinn áttaði sig ekki á hvað hún meinti fyrr en nýlega.

Af óendanlegri miskunnsemi sinni, hefur Drottinn komið því svo fyrir að sjónin daprast með aldrinum. Kannski til þess að við og ástvinir okkar, horfum á hvert annað í gegnum nokkurs konar þoku. Það gerir að verkum að ýmis ellimörk sjást alls ekki. Þetta gildir um hár í nefi, eyrum og á kinnunum, lengra nef , þynnra hár og fellingar á bakinu.

En það er auðvitað þannig að sumir nota gleraugu. Nokkur gróf hár í andlitinu fara ekki framhjá þeim. Hvort þetta „lýti“ vekur athygli annarra fer eftir því hvar í heiminum fólk býr. Þar sem ég  bý í Berkeley í Kaliforníu er allt leyfilegt. Konur þar voru þekktar fyrir að flétta hárin í handarkrikanum og keppa um hver gæti safnað mestu hári í vöngunum.

Það sem þú sérð ekki getur skipt máli uppá útlitið

Greinarhöfundur lýsir góðri vinkonu sem hefur andlit og sérstaklega varir, sem ýmsar konur myndu borga lýtalæknum dágóðar upphæðir fyrir. Hún sé hins vegar farin að sjá svo illa með aldrinum að það sé tilviljunum háð hvort varalitalínan sem hún dregur sé einhvers staðar í grennd við varirnar sjálfar. Uppá síðkastið hafi svo bæst við að leifar af morgunmatnum sitji eftir á vörunum. Þetta virðist þó ekki trufla hana.  Maðurinn hennar sé svo þekktur fyrir að vera stundum með opna búð. Þetta séu hins vegar smámunir, þar sem þeim líði vel saman, jafnvel eftir öll þessi ár.

Hún lýsir líka annarri vinkonu sem máli þykkar svartar línur í kringum augun. Þetta geti verið smart en vegna þess að hún er tilfinninganæm og tárast reglulega, fer línan fyrir neðan augun að leysast upp  þegar líður á daginn og þá líkist hún döprum trúð.

„En hvað sem líður búsetu, hjónabandi eða menningu, getur stækkunarspegill komið sér vel fyrir okkur þegar við eldumst“, segir hún. Það er raunar reynsla okkar hjá Lifðu núna að stækkunarspegill sé þarfaþing þegar aldurinn færist yfir. Það er lítið mál að útvega sér einn slíkan, þeir fást í flestum apótekum og kosta engin ósköp.

Gott að eiga spegil þar sem hægt er að sjá sig í fullri stærð

Greinarhöfundurinn ræðir líka annað vandamál, sem við sjáum ekki svo glatt ef við horfum einungis framan á okkur í spegli. Það eru fellingar á bakinu. Kannast einhver við þær? Þær koma vel í ljós ef stærðin á brjóstahaldaranum er ekki rétt eða þú ert í of þröngri peysu og eru ekki flottar ef þú ert að reyna að vera virkilega smart. Speglar sem sýna þig í fullri stærð, eða speglar sem eru í sumum fataherbergjum og gera þér kleift að sjá þig frá öllum hliðum, sýna hvernig ástandið er í raun og veru.  „Ég hef hætt við að kaupa gallabuxur og aðrar buxur sem líta vel út að framan, en hafa verið ömurlegar aftanfrá“, segir hún.

Eigum við að benda vinkonum okkur á að þær ættu að fá sér stærri spegil, stækkunarspegil eða flísatöng? Eigum við að benda þeim á að þær séu með áberandi hár í andlitinu eða útúr nefinu? Þannig spyr bandaríski greinahöfundurinn, en hvað myndu íslenskar konur gera? Líklega fer það algerlega eftir manneskjunni og sambandi hennar við vinkonuna. Það eru konur sem myndu fagna því að fá slíkar ábendingar.  En það er líka hægt að sleppa öllum slíkum ábendingum, segja ekkert, vera ekki að dæma aðra og vona að enginn sé að dæma þig.

Ritstjórn nóvember 10, 2020 12:00