Spurningin „hvar eru þau nú?“ á kannski ekki við um ástsælasta leikara landsins, Arnar Jónsson, sem hefur aldrei haft jafnmikið að gera og eftir að hann hætti að vinna. Hann hætti á föstum samningi hjá Þjóðleikhúsinu fyrir nærri áratug, þegar hann varð sjötugur, en hann er ennþá fullur af starfsorku sem hann beinir í ýmsar áttir. Hann verður 79 ára innan skamms.
„There’s never a dull moment,“ segir Arnar þegar blaðamaður Lifðu núna slær á þráðinn til hans. Hann er þá að ganga af fundi um ný verkefni sem bíða hans. „Það er enginn afsláttur gefinn. Ég er að leika í Rómeó og Júlíu sem stendur, en sonur minn plataði mig í það. Svo er ég að lesa mikið inn, t.d. fyrir Storytel, og einnig er ég kallaður talsvert til þegar lesa þarf upp.“
Leikarinn með silkiröddina er mikið fenginn til að lesa upp ljóð og sjálfur segist hann hafa mikið dálæti á ljóðlist. Yrkir hann kannski sjálfur? „Aðeins til heimabrúks. En hvernig litist þér á það að ég gæfi út ljóðaupplestur á vínilplötu? Og kannski bók samhliða?“ spyr hann í fullri alvöru.
Arnar las síðast upp í útför vinkonu sinnar, Vilborgar Dagbjartsdóttur, og einnig heyrðist hann lesa upp í útgáfuhófi í Iðnó á dögunum þar sem Guðni Elísson kynnti Ljósgildruna sína.
Í næstu viku verður tekinn upp þráður sem slitnaði í kórónuveirufaraldrinum, þegar allar píanósónötur Beethovens verða fluttar í Salnum í Kópavogi. „Þar fæ ég að flytja fróðleiksmola á milli atriða um tónskáldið mikla, en hugmyndin er komin frá Jónasi Ingimundarsyni.“
Arnar segir að flestir dagar séu þéttskipaðir og hann fari því snemma á fætur. „Dagurinn byrjaði í morgun klukkan hálf átta í ræktinni, svo fór ég að lesa inn til hádegis, fór þá á vinnufund og hitti svo vin minn og drakk með honum kaffi. Ég tek varla eftir því að ég sé að eldast. Meðan ég hef röddina ætla ég að halda mig stanslaust við það að koma einhverju frá mér. Svo stunda ég golf og hef mikla ánægju af því.“
Arnar útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1964 og hefur leikið fjölmörg burðarhlutverk við Þjóðleikhúsið og víðar. Meðal verkefna hans eru Útsending, Horft frá brúnni, Dagleiðin langa, Lér konungur, Pétur Gautur, M. Butterfly, Ríta gengur menntaveginn, Abel Snorko býr einn, Sjálfstætt fólk (1999 og 2014), Veislan og Jón Gabríel Borkmann. Meðal kvikmynda sem hann hefur leikið í eru Útlaginn, Atómstöðin og Á hjara veraldar. Hann hefur farið með fjölmörg hlutverk í útvarpi og sjónvarpi. Hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir túlkun sína á Lé konungi og var tilnefndur fyrir Veisluna.
En hver er ávinningurinn af því að eldast? „Maður hefur safnað í sarpinn og situr að því. Ef þú hefur átt fjölbreytt líf, verið á mörgum vígstöðvum og kynnst mörgu góðu fólki, hefur þroskast í þinni kúnst í gegnum árin, þá býrðu að því á efri árum. Það er ómetanlegt. Svo hefur lífið kannski verið að lemja þig töluvert, það er missir og það er sorg og allt mögulegt sem hefur á daga þína drifið á langri leið. Við erum alltaf að uppskera á meðan við höfum heilsu til.“