Altura var eitt sinn fiskimannaþorp á suðurströnd Portúgal og er skammt frá landamærum Spánar. Þar sitja íslenskar mæðgur í garðinum fyrir framan lítið raðhús. Handan við götuna er stórt svæði með appelsínu lundum, hestum á beit og hænum nágrannans á vappi. Mæðgurnar tína sér appelsínur úr lundinum frá nóvember og fram í mars og njóta með morgunmatnum, sem er borðaður úti flest alla daga vetrarins.
“Þegar maður er orðinn vanur nýtíndum appelsínum, þá er lítið varið í venjulegar. Ég segi stundum við vin minn, sem trúir mér reyndar ekki, að þessar appelsínur séu betri en sex,” segir Maríanna Friðjónsdóttir og hlær í Portúgal, en blaðamaður ræddi við þær mæðgur í gegnum tölvuna og öfundaði þær af að sitja í rólegheitum í 19 stiga hita, á þessum dásamlega stað. Yfir vetrartímann búa 3.500 manns í þorpinu og allir heilsast á förnum vegi, en á sumrin springur ferðamannaiðnaðurinn út og þá eru þar um 50.000 manns.
Grímuskylda á götunum
Þetta er í fimmta skiptið sem Maríanna dvelur mánuðum saman í Altura að vetrarlagi, ásamt móður sinni Viktoríu Særúnu Gestsdóttur. Að þessu sinni komu þær til landsins 1. Nóvember og ætla að vera til loka apríl. Í fyrravetur voru þær hins vegar í 9 mánuði í Portúgal. Þær lokuðust inni vegna Covid. „Það var ekkert flogið. Fólki var bannað að fara út úr húsi. Maríanna fór í búðina en ég var í rólegheitum heima“, segir Viktoría. Maríanna segir að núna séu neyðarlög.“Það er grímuskylda á götum, einungis ákveðnum fjölda hleypt inn í matvörubúðirnar í einu og alls staðar bannað að selja áfengi á kvöldin”, segir hún.
Hundurinn Zorró kominn yfir nírætt
Viktoría sem býr á Akureyri og Maríanna sem hefur aðsetur í Kaupmannahöfn lifa ákaflega rólegu lífi í Portúgal, ásamt hundinum Zorró. Þar sem starf Maríönnu fer fram í gegnum tölvu á netinu, getur hún unnið hvaðan sem er.
Þær segja að Zorró sé fallegur og geðgóður og hann sé líka orðinn öldungur á hundavísu. „Hann er kominn yfir nírætt“, segir Maríanna hlæjandi. Það er nokkuð fyrirtæki þegar þær mæðgur ferðast saman til Portúgal, með bæði farangur og hund, en þær segja að það sé ekkert mál. „Evrópusambandið ákvað fyrir mörgum árum að allir sem vildu, ættu að eiga þess kost að ferðast. Flugfélögin fengu það hlutverk að tryggja slíkt“, segir Maríanna. Hún segir að fólk bóki aðstoðina um leið og það panti farseðilinn. „Það er hægt að fá hjólastól alveg frá tjekk-inn og um borð í flugvél. Það er ókeypis og gæti gert fleirum kleift að ferðast, en það eru allt of fáir sem vita af því“, segir hún.
Finnst ég hafi yngst um mörg ár við að vera hér
Viktoría segir að það sé alger Paradís að fara með Maríönnu til Portúgal yfir veturinn. „ Mér datt ekki í hug að ég ætti þetta eftir. Heimilislæknirinn var búinn að segja mér að ég þyrfti að komast í hlýrra loftslag, en ég er með gigt. Fólki finnst að ég hafi yngst um mörg ár við að fara hingað. Þetta er lúxuslíf sem við lifum hér. Maríanna dekrar við mig, hún þvær af mér og eldar, ég er eins og prinsessa!“, segir hún. Ef henni finnst of heitt, sest hún í skuggann. Hún þolir ekki sólina í augun og gengur alltaf með hatt, en finnst gott að vera i hlýjunni. „Þetta er dásamlegt á allan hátt og frábrugðið vetrarlífinu á Akureyri“, segir Viktoría sem er Siglfirðingur í húð og hár. „Það er sérstakt fólk. Maríanna er líka fædd þar, þess vegna er hún eins og hún er“, segir hún kímin á svip á tölvuskjánum. Hún segist hafa búið víða, bæði á Íslandi og erlendis og sé hálfgerð förukona. Á Akureyri bjó hún sem ung kona og hefur núna búið þar aftur í 20 ár og líkar vel. Til Akureyrar flutti hún frá Noregi þar sem hún bjó og vann í 11 ár. „Ég fæddist í kreppunni, ólst upp á Siglufirði, var í síldinni, kaupakona í sveit, en þegar ég var orðin fullorðin lærði ég sjúkraliðann, ég þurfti að hafa fastar tekjur, einstæð móðir með þrjá krakka. Seinna var ég heilbrigðisfulltrúi með stærsta umdæmi landsins sem vinnusvæði.“
Lífið í Portúgal
Þegar þær mæðgur eru beðnar um að lýsa lífinu sem þær lifa í Portúgal á veturna segjast þær vakna með sólinni, svona milli sjö og átta. Fara á fætur og borða morgunmat úti í hlýjunni. „Svo förum við í göngutúr, Maríanna með hundinn og ég með mig. Hún er að vinna í tölvunni en ég að vinna eitthvað í höndunum“, segir Viktoría. Þær læra portúgölsku, en hún segir að Maríanna sé búin að læra miklu meira en hún. Svo kemur matur og eftir það síesta, en þá leggja þær sig í um það bil klukkutíma. Eftir síestuna er það kaffi og konfekt. Þá er komið að því að fara aftur út að ganga. Svo taka þær til við að vinna fram eftir degi. Eftir það er kvöldhressing og stundum horft á sjónvarp eða hlustað á hljóðbækur. „Svo förum við í háttinn milli 9 og 10, en hér er komið myrkur klukkan 18. Svo fer ég einu sinni í viku til sjúkraþjálfara og Maríanna líka“ segir Viktoría.
Ágætis hugleiðsla að hengja þvott á snúru
„Það er svo mikið að gera hérna að þú myndir ekki trúa því. Maður hefur ekki undan að lifa“, segir Maríanna. „Ég er náttúrulega að vinna, með fjölmarga viðskiptavini á Íslandi og í Skandinavíu. Fólk er búið að tala svo mikið um hvað það sé mikið vesen að vinna heima. Ég er búin að vinna mest að heiman með nokkrum hléum síðan 1998 og hef náð leikni í því hvernig maður vinnur og sinnir öðru sem þarf að sinna. Margir eru að vandræðast með þetta, gleyma að standa upp og teygja úr sér. Ég raða heimilisstörfunum inn í vinnudaginn, því ég vinn ekki “bodyhours” heldur “brainhours”. Ég get farið og þvegið þvott, eldað mat og leyst verkefni í heilanum á meðan. Að hengja þvott uppá snúru er ágætis hugleiðsla og gefur ró á milli verkefna. Ég get unnið á meðan ég geng og gert líkamsrækt við uppvaskið, til dæmis grindabotnsæfingar. Við erum með arinn, sem er eina kyndingin í húsinu. Við vorum að fá eitt tonn af timbri til að hita með í vetur. Við erum ekkert að spara viðinn og kveikjum yfirleitt upp seinni partinn. Húsin eru köld hér og yfirleitt er kaldara inni en úti. En við erum flesta daga úti frá morgni þar til síðdegis. Það eru kannski fimm dagar á ári sem við borðum ekki morgunmatinn úti“. Maríanna lætur vel af nágrönnunum í raðhúsalengjunni, hún kann vel við alþjóðlegt andrúmsloftið en þarna búa meðal annara ítalskt par, við hliðina á þeim mæðgum eru þýsk hjón, portúgalskt par og gamall, einstæður blaðamaður, sem var mjög þekktur þar í landi, býr líka í húsinu. „Hann heldur núna fullt af köttum og síðan er það konan sem býr í húsí inní miðjum appersínulundinum, hún er með hænur, unga og hana sem vekur íbúana á morgnana”, segir Maríanna.
103 ára listamaður fer á laun frá ríkinu til æviloka
Þær segjast ekki verða þreyttar hvor á annarri þegar þær búa saman í 5 – 6 mánuði. „Við höfum aldrei rifist“ segir Viktoría. „Maríönnu fannst ég þröngsýn og gamaldags þegar hún var ung, en það lagaðist með aldrinum“, segir hún og Maríanna bætir við að það eina sem hún hafi haft áhyggjur af væri að mömmu sinni fyndist hún leiðinleg. „Hún hefur þessa hugmynd af því að hún er ekki að tala við mig allan daginn. Hún þarf að vinna og ég skil það mjög vel“, segir Viktoría sem sjálf hefur nóg að gera og hefur til dæmis verið í saumaklúbbi í gegnum netið. Viktoría verður 88 ára í janúar og það er mikið langlífi í hennar ætt. Mamma hennar varð til dæmis 91 árs og amma hennar 94 ára. Maríanna segist hafa séð fyndna sögu á netinu um daginn. Þar var verið að segja frá því að Lis Nörgaard, rithöfundur sem skrifaði sjónvarpsþættina Matador, hefði verið útnefnd heiðurslistamaður í Danmörku 103 ára – og – fengi laun það sem eftir er ævinnar!!! Sýnir í hnotskurn hvað aldur er afstæður á stundum.
Heilsan breyttist á betri veg
Viktoria lítur mjög vel út en glímir við líkamlega kvilla eins og margir á hennar aldri. „Ég er með svona fimm til sex sjúkdóma“, segir hún kímin, þrjár tegundir af gigt, hjartveiki, meltingarvandamál og æðaþrengsl. Hún segist vera mun betri til heilsunnar núna, en fyrir fimm árum, eða áður en hún fór að dvelja í Portúgal á veturna. Eitt sem skiptir þar miklu máli er að Maríanna breytti algerlega mataræði hennar. „Ég trúi frekar á mat en meðul og að maður sé það sem maður borðar“, segir Maríanna. „ Við búum við hreint mataræði, allt er eldað frá grunni úr hreinum hráefnum. Við notum mikið af grænmeti og ávöxtum, hér er dásamlegur fiskur og gott kjötmeti. Við borðum úti alla daga, en förum aldrei á veitingastað. Á Íslandi er verið að drepa gamla fólkið með hratfæði. Byggð eru hjúkrunarheimili með fullkomnum eldhúsum sem kosta milljóna tugi, en svo er fólki gefinn aðkeyptur iðnaðarmatur eins og hann var verstur fyrir 50 árum. Þetta veldur algjörum heilsubresti hjá heimilisfólkinu. Við leggjum alla áherslu á að borða vel. Það er mun ódýrara að lifa hér en á Íslandi eða í Danmörku. Við erum ekki sérlega fjáðar, hvorug okkar, en það kostar ekki mikil útlát að borða vel hérna. Hráefnið er einstakt og hægt að kaupa beint af bændum eða á matarmarkaði.“
Þykir ekki jafn eðlilegt að gamalt fólk fari í geymsluna
Þær njóta báðar samverunnar í Portúgal. „Maður er ekki einn, ég hef hana mér til halds og traust. Það er óskaplega notalegt að vera með henni, mér finnst það mikil lífsgæði. Ég á tvö börn á Akureyri sem sinna mér mjög vel þegar ég er þar, en það er öðruvísi að búa með annarri manneskju“, segir Viktoría. Maríanna segir að þeim líði ágætlega saman. „Ég held að rosalega margir séu hræddir við að eldast. Það að vera meira með eldra fólkinu sínu breytir því. Það er mín reynsla. Þú færð ekki sérlega mikið út úr því að hitta fólk í klukkutíma eða tvo á viku. Það er allt önnur upplifun en að búa saman. Mér finnst að við eigum að taka þessa umræðu oftar. Það er búið að rjúfa samninginn milli kynslóða. Þegar við erum börn er samningurinn sá að foreldrarnir annast okkur. Síðan sinnum við okkur og okkar börnum, en þegar foreldrar okkar verða aldraðir, þá rjúfum við þennan samning og ýtum fólki út úr samfélaginu. Í stað þess að taka törnina þangað til við þurfum sjálf að fá aðstoð frá okkar börnum.
En við fjarlægjum eldra fólkið á fleiri sviðum, til dæmis í sambandi við atvinnu. Fólk sem er orðið fimmtugt fær að vita að það sé verðlaust á vinnumarkaði.
Hér í Portúgal eru elliheimili eins og annars staðar, en það þykir eðlilegra að sinna eldra fólkinu innan fjölskyldunnar. Það er alveg algengt að fjórar kynslóðir búi saman. En þetta því miður verðmætamat markaðssamfélagsins. Fólk verður “verðlaust”.
Lifandi líkamsrækt býr í blómunum
Maríanna segir að þær hafi tekið málin í eigin hendur og segist þakklát fyrir að vera í þeirri stöðu að geta unnið hvaðan sem er. Hún þurfi ekki að vera á ákveðnum stað til að vinna fyrir sér og geti þess vegna unnið í strætó frá Altura til Faro. Hún segir allt of margt gamalt fólk sitja á stofnunum og kasta á milli sín bolta. „Mamma reitir illgresi og plantar blómum, það er hennar hreyfing. Hún er úti og teygir á líkamanum við að sinna lifandi verum. Það er skelfilegt hvernig farið er með gamalt fólk, því er bara hent eins og rusli. Við eigum að hafa samfélagið þannig að þar sé pláss fyrir fólk á öllum aldri. Pláss fyrir alla. Ég vonast til þess að miklu fleiri velti fyrir sér að vera meira með eldra fólkinu sínu, alveg eins og með börnunum. Það hefur hlaupið tíska í barnauppeldið. Það er ekki eins erfitt að vera með eldra fólkinu sínu og maður heldur og við ættum að innleiða þá tísku sem allra fyrst.
Ég hef ekki tíma, ekki efni.. segja menn en þetta eru máttlausar afsakanir Fólk er að drepa sig á að vinna fyrir bankann og samfélagsþjófana í stað þess að stoppa aðeins við og vera bara manneskjur fyrir hvert annað. Það er nefnilega eina lífið”.