Fá metafslátt hjá Slippfélaginu

Slippfélagið veitir eldri borgurum 40 prósenta afslátt af þeirri málningu sem félagið framleiðir, en milli 15 og 20 prósenta afslátt af innfluttum málningavörum og lakki.  Þetta gildir um þá sem eru með afsláttarkort Félags eldri borgara.  Þröstur Ingvason sölustjóri hjá Slippfélaginu segir að þetta tilboð félagsins hafi fengið góðar viðtökur og Slippfélagið leggi einnig metnað sinn í að veita góða þjónustu.

Afsláttur af vörum Slippfélagsins

Þröstur segir að Slippfélagið framleiði bæði innanhúss og utanhúss málningu, en einnig málningu á þök og járn og þeir sem eru í Félagi eldri borgara geta fengið 40% afslátt af henni.   Hann segir að enginn framleiði lengur spartsl á Íslandi og heldur ekki verkfæri eða málningarúllur eftir að Rúllugerðin var seld. Það sama gildi um tröppur og stiga. Allt slíkt sé því innflutt. Þröstur segir að íslenski markaðurinn sé það lítill að það séu ýmis efni sem borgi sig ekki að framleiða hér. Þá sé betra að fara í samstarf við erlenda aðila og Slippfélagið sé í samstarfi við sænska fyrirtæki Alcro og fái lakk á glugga og innréttingar frá þeim.

Svara öllum spurningum

Þröstur segir að afslátturinn hjá fyrirtækinu hafi mælst vel fyrir og það sé þekkt fyrir að veita góða þjónustu. Hann segir ástæðuna þá, að þeir séu með málarameistara í vinnu. Menn sem hafi verið í faginu í lengri tíma vinni í verslunum Slippfélagsins. Góð þjónusta sé þeirra aðalsmerki „Það á enginn að geta gengið hingað inn með spurningu sem enginn getur svarað“, segir Þröstur.   Hann segir að fólk á landsbyggðinni sé ánægt með tilboðið fyrir eldri borgara, enda borgi það einnig flutninginn á vörunni.

 

Ritstjórn október 7, 2015 09:08