Ellert B Schram formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni skrifar:
Eins og flestum er ljóst er það ekki á valdi eldri borgara að stýra hlutverki almannatrygginga og þeim réttindum sem varða málefni elstu kynslóðarinnar. Við sitjum á biðstofunni hjá ráðamönnum og reynum að minna á, að hugsunin á bak við stofnun TR var og er sú að koma til móts við þá einstaklinga sem búa við fátækt. Það var grunnstefna Alþingis, stjórnvalda og kerfisins. Hlutverk almannatrygginga var og er að hjálpa fólkinu sem af ýmsum ástæðum er ekki á vinnumarkaðnum og á ekki í sig né á. Ástæður geta verið margskonar, engin laun, engar eignir, veikindi, einangrun o.s.frv. Félag eldri borgara er að reyna að benda stjórnvöldum á nauðsynlegar breytingar í kerfinu og skorar því á ráðamenn að koma til móts við þann hóp eldri borgara, sem verst standur.
Því miður hefur þróunin verið sú að greiðslur frá TR, hafa hægt og sígandi dregist aftur úr þeim framfærsluviðmiðum sem fyrir liggja. Og það sorglega er að þrátt fyrir fyrirgreiðslu frá tryggingunum, til að fólk geti staðið undir útgjöldum, þó ekki væri fyrir annað en að hafa húsrými og eiga fyrir mat, eru skattar teknir af „bótum“ og skerðingar settar, ef einhverjar aðrar tekjur eru fyrir hendi hjá því fólki, sem leitar til TR. Í þessu fyrirkomulagi er í rauninni fátæktargildra, þvert á upphaflegan tilgang almannatrygginga.
Núverandi ríkisstjórn, féllst á þá tillögu frá eldri borgurum að skipa starfshóp sem endurskoðaði og lagaði tryggingarkerfið, út frá þeirri stöðu sem blasir við. Þó ekki væri annað en það að lyfta „bótum“ úr kerfinu upp í þær upphæðir, sem standa undir lágmarks framfærsluviðmiðum og kjörum aldraðra. Öllum er ljóst að stuðningur við aldraða hefur dregist aftur úr, Í viðurkenndu framfærslumarki, hvað þá við launahækkanir og samanburði við neysluvísiitölur. Meginþorri eftirlaunafólks á Íslandi býr við mun lakari kjör en aðrir samfélagshópar og hvað þá í engum takti við undirstöðumörk nágrannaríkja okkar á Norðurlöndum.
Hér er ég að tala um tekjutengingar við maka, skerðingar vegna lífeyristekna, allt of lág frítekjumörk og skatta sem eru lagðir á gamalt fólk, sem er í augljósri fátækt. Yfir 30% ellilífeyrisþega eru með heildartekjur fyrir skatt sem eru undir skilgreindum fátæktarmörkum.
Meðan ég ræð einhverju í starfi eldri borgara, er það lykilstefna að minni hálfu, að rétta þessi rangindi . Koma til móts við fólkið sem á bágt, kynslóðina sem hefur staðið vörð um mannréttindi, jöfnuð og framfarir í þessu góða landi og lagt sitt að mörkum í þágu velsældar og velmegunar.
Já, þetta eru verkefni starfshópsins í ráðuneytinu, þar sem fulltrúar stjórnvalda og elstu kynslóðarinnar hafa tækifæri til að eiga skynsamlegt samtal og koma sér saman um augljósar, tímabærar tillögur um kjör eldri borgara. Ég hef trú á að, að það fólk sem í starfshópnum situr, komist að skynsamlegri og nauðsynlegri breytingu á því kerfi sem við búum við. Ég er bjartsýnn um lagfæringar. Ég er þeirrar vonar að starfshópurinn og ráðamenn ríkisins skili frá sér jákvæðum niðurstöðum í þágu eldri borgara. Hættum þessum svörum að breytingarnar séu dýrar. Fátæktin er enn þá dýrari. Hvað þá bjóðandi.
Leggjum niður lítt skiljanlegt kerfi. Réttum öldruðum höndina og hjálpina og hættum þessum sparðatíningi. Tryggjum öllum áhyggjulaust ævikvöld.