Ást og kynlíf um sjötugt og áttrætt

 

Ágúst Ó. Georgsson þjóðfræðingur

Ágúst Ó. Georgsson þjóðfræðingur

Fólk er kynferðislega virkt á meðan það getur, þar skiptir aldurinn ekki máli, segir Ágúst Ó Georgsson þjóðfræðingur á Þjóðminjasafni Íslands, en safnið hefur sent út spurningaskrá sem fólk er beðið um að útfylla eða svara með öðrum hætti, og lýsa upplifun sinni af að eldast. Það sem hefur komið honum einna mest á óvart er að fólk sem er komið um sjötugt eða áttrætt tjáir sig opinskátt um tilfinningar og kynlíf. Það er ekki að fela neitt. „Margir verða líka ástfangnir á þessum aldri“, segir hann,“ en slíkt getur vakið bæði afbrýðissemi hjá aðstandendum og ánægju“.   Ágúst segir að ástæðan fyrir því að farið var út í að safna þessum upplýsingum sé að það skorti almennt þekkingu um hugmyndir fólks, tilfinningar og upplifun af því að eldast. Þjóðminjasafnið hafi talið þetta áhugavert efni og ástæðu til að lyfta því fram.

Breytist fatasmekkurinn með aldrinum?

Það kemur jafnframt fram hjá þeim sem hafa svarað spurningaskránni að mörgum finnst þeir ekki farnir að eldast fyrr en eftir sjötugt. Mörgum finnst þeir 10-30 árum yngri en þeir eru, raunar finnst eiginlega öllum þeir vera yngri en aldurinn segir til um. Það eru margar áhugaverðar spurningar í spurningaskrá safnsins svo sem eins og: „Finnst þér að þjóðfélagið líti með virðingu til eldra fólks eða hefur þú það á tilfiningunni að fólk í þessum hópi sé afgangsstærð í samfélaginu? Getur tæknin verið hindrun fyrir eldra fólk? Upplifir þú þig öðruvísi í dag en þegar þú varst yngri? Finnst þér fatasmekkur þinn hafa breyst eftir því sem þú eldist?“

Efnið verður geymt í gagnabanka Þjóðminjasafns

Ágúst segir að nokkur fjöldi fólks hafi þegar svarað spurningaskránni, en hana er að finna á heimsíðu þjóðminjasafnsins. En hann segir að safnið vilji gjarnan fá fleiri til að svara. „Því fleiri, því betra“, segir hann. Upplýsingarnar þurfa ekki að vera persónugreinanlegar, en koma þarf fram af hvaða kyni sá er sem svarar, á hvaða aldri hann er og hvar hann býr. Þessar upplýsingar verða geymdar í gagnabanka Þjóðminjasafnsins og verður efnið aðgengilegt öllum, en það eru einkum fræðimenn sem notfæra sér efni eins og þetta. Verkefnið er hluti af þjóðháttasöfnun Þjóðminjasafnsins sem Kristján Eldjárn setti af stað árið 1960.

Spurningalistinn Að eldast

 

Ritstjórn júlí 21, 2014 13:56