Tengdar greinar

Ekki steypa þér í skuldir um jólin

Það er margt sem þarf að kaupa fyrir jólin og sumir kaupa bæði jólaskraut, ný jólaföt og alls kyns aðra jólalega hluti, að ógleymdum jólagjöfunum, sem geta vegið þungt í buddunni fyrir jólin.

Hlaupa af stað til að gera góð kaup

Afsláttartilboðunum á sérstökum tilboðsdögum, degi einhleypra og svötrum föstudegi sem stóð í marga daga, rignir yfir landsmenn í aðdraganda jóla. Það liggur við að fólk hlaupi af stað til að gera góð kaup og sjálfsagt er það reyndin með marga. Þeir eyða jafnvel mun meiri peningum en þeir ætluðu sér. Það má jú setja þetta á vísa kortið og borga seinna. Það er meira að segja hægt að notfæra sér netgíró og dreifa útgjöldunum á næstu mánuði.

240.000 krónur í jólagjafir?

Það getur verið skemmtilegt að versla fyrir jólin, einkum ef peningaeyðslunni er stillt í hóf og menn finna „réttu“ jólagjafirnar handa fjölskyldu og vinum. En hversu miklum peningum ætlar þú að eyða í jólagjafir í ár. Þeir sem eru komnir yfir miðjan aldur eiga flestir stækkandi fjölskyldur og jólagjöfunum fjölgar ár frá ári. Ef vil tökum par milli sjötugs og áttræðs, sem á fjögur uppkomin börn, þrjú tengdabörn og 10 barnabörn alls. Hjá þeim eru þetta 19 jólagjafir, ef við gerum ráð fyrir að allir fái eina gjöf og makarnir gefi hvor öðrum gjöf.  9 handa fullorðnum og 10 handa börnunum.  Ef þeir fullorðnu fá gjöf að andvirði 10.000 krónur hver, en börnin gjöf að andvirði 15.000 krónur, kosta gjafirnar fyrir þetta fólk 240.000 krónur. Ef verð gjafanna er lækkað um helming, er jólagjafakostnaðurinn 120.000 krónur.

Gera fjárhagsáætlun fyrir jólin

Þetta er ímyndað par og aðstæður eru misjafnar hjá fólki. En það sem þarf að ákveða er hversu miklum peningum má eyða í jólagjafirnar í ár og sníða sér svo stakk eftir vexti. Það þarf sem sagt að gera fjárhagsáætlun tímanlega fyrir jólin og ákveða hverjum á að gefa, hvað á að gefa og hversu mikið það má kosta. Ef þær gjafir fást svo á tilboðsdögunum á góðu verði, er hugsanlegt að grípa þær þá. Það versta er að fara af stað, bara til að kaupa „eitthvað“ handa öllum. Það getur líka verið ávísun á meiri útgjöld en innistæða er fyrir.

Að steypa sér í skuldir

Allra verst er þó að steypa sér í skuldir vegna jólagjafakaupa og vera í marga mánuði að borga þær niður. En okkur langar heldur ekki að skera gjafirnar svo við nögl, að við tímum varla að gefa þær. Skoðum hvað lesendum systursíðu Lifðu núna, AARP í Bandaríkjunum er meðal annars ráðlagt þegar kemur að innkaupum fyrir hátíðarnar.

1.Útbúðu gjafalista

Búðu listann til í nóvember, áður en aðal kaupæðið hefst. Þegar þú gerir listann, taktu þá ákvörðun um hverjum þú ætlar að gefa jólagjöf og  upphæðina sem þú hefur efni á að eyða í hverja gjöf.  Haltu þig svo við það. Stundum  er erfitt að láta vera að kaupa gjafir handa öllum sem þig langar til að gefa eitthvað um jólin, en fjárráðin leyfa það oftast nær ekki.

2.Ekki versla á svörtum föstudegi eða rafrænum mánudegi. Það er mikil pressa á fólk að kaupa eitthvað á þessum dögum, auglýsingaflóðið og allir afslættirnir hrífa okkur með sér. En Neytendasamtökin vara menn við því að verðið kunni sums staðar að hafa verið hækkað fyrir þessa afsláttardaga, til þess eins að það sé hægt að sýna meiri lækkun þegar stóri dagurinn rennur upp. Þess vegna skaltu ekki hugsa um að kaupa neitt þessa daga.  Hvernig var þetta í fyrra, raukstu þá af stað og keyptir alltof mikið? Slakaðu á, haltu þig við jólagjafalistann og leggstu uppí sófa með góða jólabók á föstudaginn svarta.

Það er rétt að með því að vanda valið, er hægt að gera góð kaup á svörtum föstudegi og rafrænum mánudegi. Margar verslanir byrja jafnvel fyrr með afslættina. Ef innkaupin eiga það hins vegar til að fara út böndunum í hita leiksins, skaltu minna þig á að það er hægt að fá alls kyns tilboð árið um kring. Það er jafnvel  betra að kaupa sjónvarpstækið seint  í janúar en gera það  á svörtum föstudegi.

3.Kaupið skreytingar og smágjafir í lágvöruverslunum

Það er hægt að fá jólapappír, jólakort og smágjafir í verslunum á borð við Tiger og Söstrene Grene, fyrir mjög lágt verð.

4.Búið sjálf til jólagjafirnar

Jólagjafakaup, sérstaklega fyrir vini og ættingja sem þið hittið sjaldan, geta orðið dýr og verulega stressandi. Ef fólki finnst jólakort kannski ekki duga þá er hægt að búa til litlar jólagjafir. Ef mögulegt er má virkja barnabörnin í það með sér. Það sem hægt er að gera er meðal annars:

Baka smákökur og setja í stórar glerkrukkur, með rauðum borða

Prjóna húfur eða vettlinga til að gefa.

Gera jólasultu og setja í skreyttar krukkur og gefa.

Pakka fallega inn servíettum og tveimur kertum.

5. Að styðja góð málefni

Í stað þess að gefa fólki sem á allt, jólagjafir um hver jól, má gefa peninga í nafni þeirra til alls kyns hjálparstarfs og samtaka. Sem dæmi má nefna.

Samhjálp

Mæðrastyrksnefnd

Konukot

Rauða krossinn

Hjálparstarf kirkjunnar, en þar er hægt að gefa peninga í mörg verkefni, bæði hér innanlands og utan.

Fjölmörg félög og samtök eru starfandi sem vinna sjálfboðaliðastarf með ýmsum hópum, svo sem föngum

Ritstjórn desember 8, 2022 07:00