Þurfa ekki að sýna skilríki í göngferðunum

 

Þeir sem ganga reglulega í náttúrunni þekkja kraftinn sem sækja má í þessa orkuuppsprettu sem náttúran er. Það er sama hvort gengið er meðfram sjónum, uppi á fjöllum, á heiðum eða innan borgar- og bæjarmarkanna því alls staðar er náttúran söm við sig, kraftmikil, heillandi og gefandi. Sá sem nýtur þeirra forréttinda að geta komist  í tæri við ómengaða íslenska náttúru ætti ekki að láta það fram hjá sér fara.

Ferðafélag Íslands stendur fyrir spennandi gönguferðum á stór Reykjavíkursvæðinu ætlað félögum á eftirlaunaaldri. Þetta eru hressandi gönguferðir um falleg svæði en ólík. Ferðirnar eru félögum FÍ að kostnaðarlausu en þeir sem ekki eru í félaginu eða vilja ekki vera þar, geta greitt sérstaklega fyrir þetta verkefni.

Markmiðið að fá fólk út

,,Þessar ferðir eru hugsaðar fyrir félaga okkar á eftirlaunaaldri en við biðjum nú ekki um skilríki,“ segir Ólöf Sigurðardóttir leiðsögumaður hlæjandi, þegar spurt er um aldurstakmörk. ,,Markmiðið er að fá fólk út hversu gamalt eða ungt það er!“

Hvers vegna ferðir fyrir eldri borgara?

,,Í félaginu okkar, Ferðafélagi Íslands, eru margir eldri félagar sem hafa fylgt félaginu í fjölda ára. Sumir hverjir treysta sér kannski ekki lengur í erfiðari ferðir en hafa gaman af hreyfingu og vita hvað það er gott og gefandi að fara í góðan göngutúr með góðu fólki. Það uppsker  hreyfingu, skemmtilega samveru, góðan félagsskap, útiveru í fallegu umhverfi og gott loft á einu bretti. Það gerist ekki betra.“
Gengið er nú tvisvar í viku frá miðjum apríl fram að miðjum júní en einnig voru þessar göngur sl. haust.
Hvernig er skipulagið í þessum ferðum?

,,Fyrsta ferðin í vor var farin 11. apríl og sú síðasta er áætluð 16. júní. Við hittumst tvisvar sinnum í viku, alla mánudaga og fimmtudaga á þessu tímabili og leggjum af stað klukkan ellefu. Við hittumst á mismunandi stöðum því ég hef reynt að hafa göngurnar fjölbreyttar og leitað eftir að finna eitthvað áhugavert til að segja frá. Einnig hef ég reynt að finna mjúka göngustíga sem fara betur með okkur. Þessar gönguferðir eru flestar á jafnsléttu og gengið að jafnaði í 60 – 90 mínútur eða u.þ.b. 3-5 km.

Þurfa að vera í góðum skóm

Þarf sérstakan klæðnað eða útbúnað í þessar ferðir?

,,Nei, alls ekki. Eina sem fólk þarf að huga að er að vera í góðum skóm eins og alltaf þegar farið er út að leika sér. Léttir gönguskór eða strigaskór með grófum sóla henta vel en stígvél og sandalar henta ekki í þessar ferðir. Þeir sem eru vanir að ganga með göngustafi ættu að taka þá með en mörgum finnst verra að vera með slíka stafi svo þeir skilja þá eftir heima. Svo er eins og alltaf að klæða sig eftir veðri og muna að það er aldrei vont veður á Íslandi! Við förum að sjálfsögðu aldrei af stað í brjáluðu veðri – það gefur auga leið.“

Þarf fólk að taka með sér nesti?

,,Nei, alls ekki. Þar sem við erum að miða við ekki lengri ferðir en rúman klukku tíma á ekki að vera þörf á nesti en aftur á móti gætu þessar ferðir boðið upp á að þeir sem hefðu áhuga á gætu farið saman á kaffihúsi eftir gönguna og fengið sér kaffi og eitthvað með því. Þannig gætu ný vinasambönd orðið til. Þetta er þó ekki hluti af ferðinni en gæti verið gaman. Við höfum einstaka sinnum endað á kaffihúsi. Maður er jú alltaf manns gaman.“

Er fjöldatakmörkun í þessum ferðum?
,,Nei, við erum ekki með neinar fjöldatakmarkanir. Allir sem hafa áhuga á og treysta sér til eru velkomnir í hópinn en nauðsynlegt er að skrá sig í verkefnið hjá fi.is. Þátttakendur fá svo netpóst um hvar eigi að mæta eða fylgjast með á Facebook-síðu verkefnisins FÍ Göngur eldri og heldri .“

Eru ekki að finna upp hjólið

Ólöf Sigurðardóttir hefur verið fararstjóri í þessum ferðum þrjú undanfarin misseri en verkefnið hafði verið tvisvar sinnum áður. Ólöf hefur verið fararstjóri hjá FÍ í um 15 ár bæði á Hornströndum og í léttum göngum á Höfuðborgarsvæðinu. ,,Það hefur verið einstaklega gaman að leiða þessar göngur og margir tekið þátt. Nú er fólk meira í ferðalögum og mætir því í göngurnar þegar þeim hentar, sagði Ólöf að lokum.“

Ritstjórn febrúar 10, 2020 15:02