Átta leiðir til að draga úr hættu á beinþynningu

Halldóra Björnsdóttir.

Halldóra Björnsdóttir og Ásdís Halldórsdóttir  skrifa:

Það er aldrei of seint að huga að heilsunni og breyta lífsvenjum til að auka lífsgæðin. Eitt af því sem vert er að huga að er heilbrigði beinanna. Það er staðreynd að það er aukin hætta á byltum og beinbrotum á efri árum. Ein af ástæðum beinbrotanna er beinþynning. Beinþynning er sjúkdómur sem einkennist af því að beinmagn og beinþéttni minnkar. Afleiðingarnar geta verið beinbrot við lítinn eða engan áverka því beinin eru ekki ekki eins sterk og ella. Fólk sem er með beinþynningu á háu stigi getur brotnað við venjulegar athafnir í daglegu lífi, við lítinn eða engan áverka, jafnvel við handtak eða faðmlag. Algengustu beinbrotin eru framhandleggsbrot, samfallsbrot í hrygg og mjaðmarbrot sem eru alvarlegustu brotin. Beinþynning er dulinn eða þögull sjúkdómur því margir einstaklingar sem eru með beinþynningu vita ekki af því þar til þeir hafa brotnað einu sinni eða oftar og síðan farið í beinþéttnimælingu. Sem betur fer er hægt að gera ýmislegt til að sporna gegn beinbrotunum. Aukin vitund um beinþynningu og áhættuþætti er fyrsta skrefið. Næstu skrefin eru síðan að breyta venjum sínum.

Helstu orsakir beinþynningar

Ásdís Halldórsdóttir.

Í uppvextinum stækkar beinagrindin og beinin styrkjast og þéttast fram yfir tvítugt þar til hámarks beinþéttni er náð. Síðan helst beinþéttnin nokkuð jöfn, ef allt er eðlilegt, fram að tíðarhvörfum hjá konum. Þá minnkar styrkur estrógens (kvenhormón), sem hefur áhrif á beinmyndun, og við það dregur úr þéttni beinanna. Beintapið er talsvert fyrsta áratuginn eftir tíðahvörf en síðan verður beintapið það sama og hjá körlunum. Orsakir beinþynningar eru mismunandi en beinþynning hjá konum í kjölfar tíðahvarfa er algengust. Karlar geta einnig fengið beinþynningu. Orskökin getur þá verið tengd erfðum eða öðrum undirliggjandi sjúkdómum.

Hversu algeng er beinþynning….

Rannsóknir benda til þess að þriðja hver kona yngri en 50 ára sé í áhættu á að brotna af völdum beinþynningar og önnur hver eftir fimmtugt. Talið að áttundi hver karl fyrir fimmtugt sé í hættu á að brotna af völdum beinþynningar en fimmti hver eftir fimmtugt. Ungt fólk getur einnig fengið beinþynningu.

Það má skipta áhættuþáttum beinþynningar í tvennt. Það sem við getum ekki ráðið við svo sem:

Aldur
kyn
erfðir (fjölskyldusaga)
aðrir sjúkdómar (sjúkdómar í meltingarvegi)
lyf (t.d. sykursterar sem eru bólgueyðandi lyf, krabbameinslyf)

og síðan það sem við getum haft áhrif á svo sem:

Kalkskortur
D-vítamínskortur
Hreyfingarleysi
Að vera undir kjörþyngd
Reykingar og óhófleg áfengisneysla

Afleiðingar beinþynningar eru, eins og fram hefur komið, beinbrot við lítinn áverka. Brotin geta valdið ómældum þjáningum og langvarandi líkamlegri hömlun. Þeir sem hafa brotnað af völdum beinþynnngar eru í aukinni hættu á að brotna aftur. Endurtekin samfallsbrot í hrygg valda því að líkamshæð lækkar og líkaminn bognar þannig að það myndast herðakistill. Alvarlegustu brotin eru mjaðmarbrot. Þá þarf að gera aðgerð og er dánartíðni talsvert há. Allt að 20% þeirra sem mjaðmabrotna deyja innan árs frá broti. Oft getur fólk ekki lifað lengur sjálfstæðu lífi og verður að treysta á umönnunaraðila.

Fólk á miðjum aldri ætti að fara í beinþéttnimælingu.

Það er hægt að greina beinþynningu áður en beinin brotna 

Beinþéttnimæling er einföld og sársaukalaus rannsókn sem sýnir ástand beina á augabragði. Þetta er ákveðin gerð röntgenrannsóknar sem mælir kalkmagn í beinum og segir þannig til um hvort um beinþynningu sé að ræða. Við rannsóknina er notað  svokallað DEXA-beinþéttnimælitæki. Rannsóknin tekur um 15-25 mínútur, allt eftir því hversu ítarleg rannsóknin er.  Oftast er mældur beinmassi í hryggjarliðum, framhandlegg, lærleggshálsi og mjöðm. Hægt er að fá upplýsingar um beinþéttnimælingu á næstu heilsugæslustöð og einnig á Landsspítala háskólasjúkrahúsi í Fossvogi og á Sjúkrahúsinu á Akureyri þar sem mælingar fara fram.

Hvað getum við gert til að draga úr áhættu á beinþynningu, byltum og brotum: 

  1. Borða hollan og kalkríkan mat (800-1500 mg á dag er ráðlagt).
  2. Gæta að því að fá nægilegt D-vítamín með því að taka lýsi daglega (400-800 IU).
  3. Hreyfa sig reglulega, helst á hverjum degi í 30 mínútur. Ekki sitja lengi í senn!
  4. Byltuvarnir: í þeim felast m.a. góður skóbúnaður, góð lýsing innan dyra, forðast lausar snúrur og mottur og gætið að hálku, bæði innan dyra og utan (á blautu gólfi og þegar ísing er utandyra).
  5. Forðast reykingar og neytt áfengis í hófi.
  6. Haft samband við Beinvernd og afla sér upplýsina á vefnum beinvernd.is
  7. Kanna áhættuna í reikninlíkaninu Beinráður
    http://osteoporosis.expeda.is/OsteoAdvisor/Public
  8. Sækja um aðild að félaginu

    Öll hreyfing er góð fyrir beinin.

Hreyfing í formi styrktarþjálfunar er gagnlegust til að sporna gegn beinþynningu. Þegar vöðvarnir styrkjast, þá styrjast beinin um leið. Fólk sem hreyfir sig lítið sem ekkert er í hættu á að vöðvarnir rýrni og þá geturhreyfigetan minnkað. Hreyfing í formi styrktarþjálfunar leiðir aftur á móti til þess að beinmyndun örvast.

Auk þess er mikilvægt að huga að fjölbreyttu fæðuvali. Roskið fólk þarf sérstaklega að huga að því að fá nægt prótín en þegar fólk eldist hefur það ekki alltaf burði til að elda prótínríkar máltíðir. Þá er hætt við því að vöðvarnir rýrni sem dregur úr jafnvægi og styrk og eykur hættu á byltum og beinbrotum. Ráðlagt er að eldra fók miði við að 18% af heildarorkunni komi úr prótínum.

 

 

 

Ritstjórn ágúst 29, 2017 12:36