Ömmur og afar heyrast stundum tala um hvað það sé skemmtilegt að vera afi og amma. Þeim finnst barnabörnin yndisleg og það að sé jafnvel skemmtilegra að vera afi og amma en pabbi og mamma. Við rákumst á grein á vefnum sixtyandme þar sem höfundurinn velti þessum hlutverkum fyrir sér. Það rifjaðist upp fyrir honum að hafa heyrt tilvitnun í Gore Vidal sem sagði „Ekki eignast börn – bara barnabörn!“ og hann vitnar líka í greininni í Lois Wyse sem er bandarískur rithöfundur sem sagði „Ef ég hefði vitað hvað það er dásamlegt að eiga barnabörn, hefði ég eignast þau fyrst!“ Margir afar og ömmur tengja örugglega við þetta.
Mamma eða amma
„Þegar þú eignast barnabörn, er mjög líklegt að þú myndir við þau alveg sérstakt samband, sérstaklega ef þú hittir þau oft. Það er ekki öruggt að það gerist, en það er algengt að það gerist“, segir höfundur greinarinnar. „Og þú ferð kannski að velta fyrir þér, hvers vegna það er bæði auðveldara og skemmtilegra að vera amma, en mamma“ Við þessum spurningum eru að hans mati ýmis svör. Og við stiklum á stóru í greininni og endursegjum.
Að skila börnunum
Ömmur tala oft um það hvað það sé yndislegt að vera með barnabörnunum og líka hversu gott það er að geta skilað þeim til foreldranna, eftir langa samveru yfir daginn.
Húrra fyrir því. Langir dagar með litlum börnum taka á, sama á hvaða aldri fólk er, en sérstaklega þegar við förum að eldast. Þá er ekkert betra en að slaka á þegar þau eru farin heim, fara í heitt og hella víni í glas, en: „Eins og þetta er algeng skýring, þá held ég samt ekki að þetta sé meginástæðan“, segir höfundurinn.
Að dekra við þau
Aðrir segja að helsta ástæðan fyrir því hversu gaman er að vera með barnabörnunum sé að það megi dekra þau. Gefa þeim aðeins meiri köku, leyfa þeim að gera það sem þeim þykir skemmtilegt, aðeins lengur, leyfa þeim að vaka frameftir.
Þú hefðir ekki leyft börnunum þínum að gera þetta, af því að þá varst þú ábyrg fyrir því að móta skoðanir þeirra og kenna þeim sjálfsaga.
Hin hliðin á peningnum var einmitt sjálfsaginn. Þú varst alltaf upptekin við að kenna börnunum þínum, hvaða afleiðingar gjörðir þeirra hefðu, eða fá þau til að velta hlutum fyrir sér og kenna þeim mannasiði. Þú varst alltaf á varðbergi, vegna þess að ef þau hegðuðu sér ekki eins og þér fannst þau eiga að gera, þá var það á þitt hlutverk að sjá til þess að þau gerðu það.
Afar og ömmur finna ekki jafn sterkt fyrir þessari ábyrgð. Sum okkar langar ef til vill að kenna barnabörnunum ákveðin gildi, en við vitum að það er ekki okkar hlutverk. Við getum reynt að halda uppi merki foreldranna og því sem þau vilja, en aðallega getum við bara slappað af með þeim.
Og enn segir höfundurinn að þetta sé líklega hluti af skýringunni en ekki skýringin öll á því, hvers vegna það er auðveldara að vera afi og amma, en pabbi og mamma.
Við erum eldri og viturri
Við erum örugglega eldri en við vorum þegar börnin okkar voru að alast upp og viljum líka trúa því að við séum líka vitrari og líklega erum við það. Þar sem við afar og ömmur erum gjarnan komin á eftirlaun, hvíla ekki jafn miklar skyldur á okkar herðum og áður, þannig að við getum slappað af. Og ef við erum afslöppuð, getum við staldrað við og notið barnabarnanna til fulls. Sum okkar gátu gert þetta með fyrstu börnunum, en sum náðu því ekki.
En hvað er þá í gangi?
Öðruvísi samband
Höfundurinn kemst að þeirri niðurstöðu að það að vera afi og amma, sé ákveðinn gæðahringur, sem verði betri og betri með tímanum. Hann sé nokkurs konar andstæða vítahrings, sem verði verri og verri eftir því sem tíminn líður.
Þegar fyrstu barnabörnin koma eru afi og amma yfir sig spennt að hafa aftur lítið barn á heimilinu. Þau er líka oft afslappaðri en þau voru, þau eru orðin eldri og hafa ekki á sér jafn miklar kvaðir. Þau langar til að gleðja og örva barnabarnið eins mikið og þau geta.
Þar við bætist að það er nokkuð algengt að afar og ömmur – meðvitað eða ómeðvitað – vilji bæta fyrir það að þau voru ekki nógu góðir foreldrar á sínum síma. Kannski hafa þau verið of ströng við sín eigin börn og of fljót að dæma þau og finnst þau nú hafa fengið tækifæri til að gera allt betur.
Barnabörnin koma til afa og ömmu og hegða sér yfirleitt vel. Við vitum flest að við eigum að hegða okkur vel í öðrum húsum og það gildir að sjálfsögðu líka um þau. Þau finna að við elskum þau og að þau eru velkomin til okkar.
Þetta er fínn grunnur. Báðir aðilar vilja gera hinum til geðs og báðum finnst hinn aðilinn „sérstakur“ af því hann tengist þeim fjölskylduböndum. Þetta gerir að verkum að barnabörnunum líður vel hjá afa og ömmu og sú tilfinning styrkist enn frekar þegar kærleikur ræður ríkjum.
Sýna sínar bestu hliðar
Þau sjá okkar bestu hliðar og við sjáum þeirra bestu hliðar. Er hægt að hugsa sér eitthvað betra? They see us at our best and we see them at their best. What could be better?
Hjá afa og ömmu er yfirleitt ekki fyrir hendi neinn núningur sem getur auðveldlega orðið að deilum þegar þau eru heima hjá sér með foreldrunum. Annað hvort deilum milli foreldranna, eða milli foreldranna og barnanna.
Þegar barnabörnin stækka og þroskast, segja þau afa og ömmu stolt frá þeim nýju áföngum sem þau ná í lífinu og afi og amma gleðjast með þeim. Gott samband sem kærleikur og tími er lagður í, verður til.
Heimili afa og ömmu getur orðið griðastaður, ef eða þegar barnabörnin verða unglingar í uppreisn gegn foreldrunum. Þau hafa engan áhuga á að gera uppreisn gegn afa og ömmu.
Mismunadi aðstæður og væntingar.
Samband afa og ömmu við barnabörnin er öðruvísi ef þau hitta þau sjaldan. Þá er minni tími til að þróa sambandið við þau. Það er líka öðruvísi ef afar og ömmur eru í þeirri stöðu að sjá algerlega um uppeldi barnabarnanna, annað hvort vegna veikinda, skilnaða eða annarra vandamála hjá foreldrunum. Í slíkum tilvikum gegna þau foreldrahlutverki gagnvart barnabörnunum sem er annað en hlutverk afa og ömmu, eins og því er lýst í þessari grein.
Höfundurinn segist oft lenda í því að börnin hans tali um að barnabörnin hegði sér allt öðruvísi hjá afa og ömmu, en heima. Eða þau segja „Ég vildi að hann væri svona góður heima“. Þá segist höfundurinn sem í þessu tilviki er kona, brosa sakleysislega, en börnin velti því heilmikið fyrir sér, hvernig í ósköpunum amma fari að þessu.