Augabrúnirnar mikilvægastar í andlitssnyrtingunni

Það er fallegt að hafa vel snyrtar augabrúnir, ekki í of dökkum lit“, segir Ragna Fossberg förðunarmeistari RÚV meðal annars, um andlitsförðun fyrir eldri konur.  „Þær ramma inn augnumgjörðina sem er mjög mikilvægt“.  Hún segir  það persónubundið hvort fólk vilji fara á snyrtistofu til að fá sér ekta lit, en bendir á að það sé hægt að lita sig sjálfur.  En hún segir það góða leið að nota augnskugga og pensil til að lita augabrúnirnar, þá sé hægt að tempra litinn og menn sitji ekki uppi með alltof dökkar augabrúnir í kannski 10 daga!!

Ragna Fossberg

Ljótur eyeliner verri en enginn

Ragna segir að eldri konur eigi að varast svarta augnblýanta í kringum augun og mikið sanseraða liti.  Mattir jarðlitir séu heppilegastir.  Hún segir líka að konur eigi ekki að nota eyeliner nema þær kunni að nota hann. “ Þær sem kunna ekki að setja á sig eyeliner eiga að sleppa því“ segir Ragna, „ljótur ásettur eyeliner er verri en enginn“.

Maskari með nettum bursta

Ragna segir að sér finnist best að nota maskara með nettum bursta.  Hann megi ekki vera of stór. En það sé mismunandi hvað konum finnist um þetta.  Hún segir líka að það eigi að byrja að setja maskarann í augnhárin sem næst auganu og renna honum síðan eftir augnhárunum í þá átt sem þau liggja,  alveg eins og þegar hár sé greitt.  Hún segir að það eigi ekki að „hræra maskaranum í augnhárin“ það er, að færa hann þversum fram og tilbaka.

Augnhárunum fækkar með aldrinum

En augnhárunum fækkar með aldrinum og þeir sem hafa mjög lítil augnhár ættu kannski að sleppa maskaranum segir Ragna.  Hún segir að fallegar augabrúnir, góður varalitur og  svolítið „blush“ í kinnarnar geti komið mjög fallega út .

 

Ritstjórn september 17, 2014 15:12