Umbúðir, bakkastærðir, verðlag, skilaréttur, nýtt app sem hægt er að nota til að fylgjast með verðlagi, vaxtaokur og greiðsluþáttaka í heilbrigðiskerfinu, var meðal þess sem bar á góma á fræðslufundi um Neytendamál sem var haldinn hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík. Þar var einnig rætt um hugsanlegt samstarf félagsins og Neytendasamtakanna, en Ólafur Arnarson formaður samtakanna var gestur á fundinum.
„Brjálæðisleg“ álagning
Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður FEB talaði meðal annars um „brjálæðislega“ álagningu verslana hér á landi og velti meðal annars fyrir sér hvort langir opnunartímar verslana færu beint út í verðlagið. Hún sagði að um 8000 eldri borgarar byggju einir, en bakkastærðir í verslunum væru ekki miðaðar við það. „Það er bara hægt að kaupa hálft kíló af hakki, eða eitt kíló“ sagði hún og benti líka á að það væri dýrara að kaupa tvær kjúklingabringur en þrjár til fjórar. Þá þyrfti fólk að athuga að lesa strimlana úr verslununum vel. Hún hefði reynslu af því að þannig væri hægt að spara töluvert fé.
App sem fylgist með verðlagi
Neytendasamtökin binda miklar vonir við nýtt app sem heitir Neytandinn. Appið er notað til að skanna inn strimla úr búðum og þannig má fylgjast nákvæmlega með verðlagi matvöruverslana frá degi til dags. Appið er ókeypis og auðveldar neytendum til dæmis að fylgjast með því hvort og hvenær lækkun opinberra gjalda skilar sér til þeirra – eða ekki. Ólafur Arnarson formaður NS sagði að þetta væri eina appið sinnar tegundar sem væri hugsað á forsendum neytandans. Draumurinn væri að þróa það áfram, jafnvel þannig að hjón gætu notað það saman til að auðvelda innkaupin og að hægt yrði að nota það til að bera saman verð hér á landi og í útlöndum.
Verðkannanir til Neytendasamtakanna
Ólafur sagðist telja eðlilegra að verðkannanir væru að vegum Neytendasamtakanna en ASÍ, þar sem aðildarfélög sambandsins tengdust lífeyrissjóðunum beint. Sjóðirnir væru ráðandi í stórum verslunarkeðjum og það væri óheppilegt að ASÍ sæi um að kanna verðlag hjá þeim. „Ég vil fá þetta til Neytendasamtakanna, þetta á að vera hjá óháðum aðila“, sagði hann.
Getum við dregið úr vaxtaokrinu?
Ólafur sagði Neytendasamtökin opin fyrir samstarfi við aðila utan samtakanna. Hann talaði um viðvarandi samvinnu við samtök eins og Félag eldri borgara, en mörg hagsmunamál eldri borgara væru hrein og klár neytendamál. „Annað samstarf getur verið tilfallandi þegar hagmunir fara saman í tilteknu máli. Ég get nefnt sem dæmi að við viljum virkja aðila vinnumarkaðarins með neytendum í baráttu fyrir eðlilegra vaxtaumhverfi hér á landi, öllum til hagsbóta“, sagði hann.
Mörg hagsmunamál eldri borgara eru neytendamál
Sem dæmi um neytendamál sem vörðuðu hagsmuni eldri borgara, nefndi hann heilbrigðismálin. „Það er margt sem snýr að heilbrigðiskerfinu, svo sem eins og það að gjaldtaka er að aukast í kerfinu. Það er mál sem stendur í vegi fyrir að eldri borgarar geti nýtt sér heilbrigðisþjónustuna. Þetta er neytendamál í mínum huga, en það eru mörg önnur svið og þar getur félagið líka komið með ábendingar til okkar og svo leggjumst við saman á sveifina“, sagði Ólafur á fundinum.
Neytendasamtökin eru óháð félagasamtök, með um 8000 félagsmenn. Árgjaldið er 5.500 krónur.