Tengdar greinar

Kostir og gallar þess að vera „eldri“ pabbi

Það er ekki óþekkt að karlar eignist börn á efri árum. Þegar það gerist, lyfta menn brúnum  í undrun og feðurnir verðandi fá yfir sig spurningaflóð, nokkuð sem leikararnir Al Pacino 83ja ára og Robert De Niro 79 ára þekkja mæta vel, en De Niro eignaðist nýlega sitt sjötta barn og Al Pacino á von á fjórða  barninu.

Leikararnir tveir eru hins vegar alls ekki elstu feður sem vitað er um. Samkvæmt heimsmetabók Guinness, er það Ástralinn Les Colley sem á þann heiður að vera elsti faðir í heimi, en hann eignaðist son þegar hann var 92 ára.

Fleiri þekktir Hollywood leikarar hafa eignast börn á efri árum. Billy Joel eignaðist yngsta barn sitt þegar hann var 68 ára, Clint Eastwood 66 ára og Eddi Murphy 57 ára.

Það hefur verið að færast í vöxt í Bandaríkjunum að karlar eignist börn síðar á ævinni og fjöldi feðra á fertugsaldri tvöfaldaðist til dæmis  á árunum 1972-2015.

John Duffy er sálfræðingur sem hefur sérhæft sig í  málefnum foreldra, segist hafa skipt um skoðun varðandi eldri feður.  Það fyrsta sem komi upp í hugann varðandi þá, sé að þeir verði ef til vill ekki til staðar þegar barnið kemst á unglings- og  fullorðinsaldur. „Ég skal viðurkenna að ég hafði áhyggjur af þessu“, segir hann. „ Mér fannst þessir karlar of gamlir til að standa í barneignum, vegna þess hversu mikla orku, tíma og þolinmæði það útheimtir að ala upp barn. En ég hef skipt um skoðun, það er hægt að vera öflugur faðir, þó menn séu komnir yfir sextugt. En þeir eru annars konar feður en karlar sem eru á þrítugs og fertugsaldri.

En að hverju eiga karlar að hyggja þegar þeir íhuga barneignir á eftir árum? Í greininni er bent á kosti og galla við barneignir þegar aldurinn færist yfir.

KOSTIR

Hafa reynslu af föðurhlutverkinu

Eldri feður segjast sumir, ekki hafa jafn miklar áhyggjur af barninu og þeir höfðu þegar þeir urðu feður á yngri árum. „Hluti af skýringunni á  því er að maður hefur reynslu af föðurhlutverkinu, en ég held að þetta snúist líka um að viðhorf manns eru önnur núna, en þegar maður var yngri,  sem gerir það að verkum að maður tekur föðurábyrgðina alvarlegar en maður gerði ungur“, segir einn þeirra sem eignaðist barn um sextugt.

Bent er á það í greininni að eldri feður séu jafnvel sjálfsöruggari en yngri feður, enda hugsanlega búnir að sanna sig í starfi og eru ekki lengur að reyna að fóta sig á vinnumarkaði eða eignast húsnæði, Mörgum stórum verkefnum sé þannig okið þegar fólk er komið á efri ár.

Fjárhagslegt öryggi

Eldri feður eru komnir á lygnan sjó hvað fjárhaginn varðar og hafa oft gert það gott fjárhagslega. Þeir búa við fjárhagslegt öryggi sem tryggir þeim hugsanlega meiri tíma og sveigjanleika í starfi, þannig að þeir hafa meiri tíma til að hugsa um barnið.  Átakinu við að  koma sér fyrir í lífinu er að baki. Og – þeir hafa efni á því að ráða sér aðstoðarfólk, sem gerir þeim það auðveldara að sinna barninu.

Þeir þurfa heldur ekki að hafa teljandi áhyggur af því að safna fyrir skólagöngu barna sinna eins og svo margir ungir foreldrar standa frammi fyrir.  Þar sem fjárhagsáhyggur eru minni, er meiri tími fyrir tilfinningalega nánd við barnið og  meiri tími til að sinna uppeldinu.

Það heldur þeim ungum

Það gerir eldri feðrum gott að leika við börnin sín, fíflast og haga sér eins og krakkar. Þess vegna finnst svo mörgum það gaman að eignast barnabörn. En það er auðvelt að detta úr leik-gírnum með aldrinum og verða alltof alvarlegur pabbi. Lítil börn halda feðrunum á tánum hvað þetta varðar.

Upplýstari feður

Að verða faðir sextugur eða eldri, er allt annað en að verða faðir á þrítugsaldri. Eldri pabbi hefur ef til vill meiri tíma til að hugsa um næringuna og matinn sem barnið fær. Einnig hvað það er skaðlegt að barnið verji of miklum tíma fyrir framan skjáinn og hann er líklegur til að vita ýmislegt  um nýjustu rannsóknir og uppeldisaðferðir.

Eldri feður  kunna einnig að verað meðvitaðri um það að þeir séu börnunum fyrirmynd. Það geri að verkum að þeir þurfi að hugsa vel um það hvernig þeir ali börnin upp. Ef þeir vilji halda að börnunum góðri næringu og hreyfingu og kenna þeim að hanga ekki alltaf við skjáinn, verði þeir að gefa gott fordæmi sjálfir. Einn eldri faðir orðar það svo. „Ég held að ég sé meðvitaðri um að gera það sem er rétt, vegna þess að hann horfir á mig og lærir af mér“.

ÓKOSTIR

Heilsufarsþættir

Nokkrar rannsóknir hafa sýnt að börn sem eiga feður sem eru komnir vel við aldur, séu líklegri til að glíma við heilsufarsvandamál. Rannsókn sem gerð var við Stanford háskólann árið 2018, sýndi að ungbörn sem áttu eldri feður, áttu frekar á hættu að þurfa að glíma við heilsutengd vandamál. Rannsóknin náði til rúmlega 40 milljón barna, sem áttu feður sem voru 35 ára og eldri. Þessi börn voru líklegri en börn sem áttu yngri feður, til að fæðast léttari og til að fá krampa.  Því eldri sem feðurnir voru, þeim mun meiri áhætta.

Þá sýnir rannsókn sem var gerð árið 2019 við Rutgers University, að börn eldri feðra fæðast frekar með arfgenga hjartasjúkdóma eða klofinn góm, svo einhver dæmi séu nefnd. Þegar þessi börn eltust áttu þau einnig frekar á hættu að glíma við heilsufarsvandamál, fá barnakrabbamein, glíma við geðræna erfiðleika eða þjást af  einhverfu.

Ólust upp í allt öðru umhverfi

Eldri feður eru ef til vill ekki alveg með á nótunum hvað er að gerast í heimi litlu barnanna þeirra. Sumir skilja ekki samfélagsmiðla og þau áhrif sem þeir geta haft á sjálfsálit barnanna. Þeir mega hafa sig alla við til að læra þetta.

Þeir verða líka að gera meira af því að hlusta en tala, og það getur verði erfitt fyrir eldri feður sem voru vanir því að þeirra feður héldu yfir þeim stutta „fyrirlestra“ um það hvernig heimurinn sneri.  „Börn í dag eru vön því og ætlast beinlínis til þess að hafa eitthvað að segja um eigið uppeldi“, segir sálfræðingurinn John Duffy

Þetta kann að vefjast fyrir föður sem lítur hefðbundnum augum á hlutverk sitt. Nokkuð sem nútímabörn gera ekki. Þau vilja vita ástæður fyrir þeim ákvörðunum sem eru teknar um uppeldi þeirra og fá skýringar. Þau krefjast þess að fá að ræða málin, sem eldri foreldrar hafa hreint ekki vanist.

Minni orka

Föðurhlutverkið krefst þess að menn hafi krafta í kögglum.  Það þarf að skríða á gólfinu eða hlaupa hring eftir hring í garðinum. Duffy hvetur eldri feður til að taka eins mikinn þátt í uppeldinu og þeir framast geta. Ef pabbi þarf að leggja sig á hverjum degi, er ekki lengur við hestaheilsu eða á erfitt með að hreyfa sig, getur verið snúið að hlaupa eftir litlu barni allan daginn. En Duffy segist ekki vilja að þessir feður fari á mis við gleðina sem fylgir því að vera foreldri. „ Tíminn er mikilvægur og líður mjög hratt. Engir eru jafn meðvitaðir um það og eldri feður“, segir hann.

 

Þessi grein er styttri útgáfa af samnefndri grein á systurvef Lifðu núna í Bandaríkjunum, aarp.org

Ritstjórn júní 27, 2023 07:00