Skömmu áður en Alþingi fór í sumarfrí voru samþykkt lög um bann við mismunun á vinnumarkaði. Með lögum er skýrt kveðið á um bann við allri mismunun fólks á vinnumarkaði, hvort heldur beina eða óbeina, á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar. Þetta þykir mikilvægt til að stuðla að virkri þátttöku sem flestra á vinnumarkaði en atvinnuþátttaka er talin ein þýðingarmesta leiðin til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og fátækt. Við lagasetninguna var höfð hliðsjón af tilskipun ráðherraráðs Evrópusambandsins um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífinu. Ásmundur Einar Daðasons félagsmálaráðherra sagði meðal annars þetta þegar málið kom til fyrstu umræðu á þingi í vetur. „Aldur, fötlun og skert starfsgeta eru þættir sem almennt má ætla að geti haft áhrif á færni einstaklinga til að sinna ákveðnum störfum en ekki öðrum. Engu að síður er hætta á að sömu einstaklingar fái ekki sömu tækifæri til jafns við aðra til að gegna störfum sem eru við hæfi þeirra eingöngu vegna neikvæðra ímynda tengdum aldri, fötlun eða skertri starfsgetu fremur en einstaklingsbundinnar starfshæfni hlutaðeigandi.“ Hann sagði ennfremur: „Ég vil þó benda á að gert er ráð fyrir að ákvæði er varða mismunandi meðferð á grundvelli aldurs á innlendum vinnumarkaði taki ekki gildi fyrr en 1. júlí 2019. Ástæðan er sú að aðilar vinnumarkaðar þurfa ráðrúm til þess að skoða aldurstengdar reglur í kjarasamningum milli aðila. Þar á meðal aldurstengdar starfslokareglur og gera breytingar til samræmis við ákvæði frumvarpsins ef þörf er á.“
Ætli málefni eldra fólks komist á dagskrá þingsins fyrir sumarfrí.