Bannað að vinna í sumarfríinu

Danski sálfræðingurinn Henrik Tingleff gefur lesendum vefsins hjá Danmarks Radio sama ráðið varðandi sumarleyfið og hann gerði í fyrra – og hitteðfyrra. „Ekki vinna í sumarleyfinu, taktu frí!!“ Hann segir nefnilega að það hafi færst í vöxt að Danir vinni í fríunum sínum. Og er það ekki freistandi einmitt, að taka tölvuna með í fríið? Bara svona til að hafa hana við hendina. En Tingeloff er harður á þessu með fríið og notar skemmtilega samlíkingu.

Tékkaðu á orkureikningnum.

„Það er erfitt að passa uppá alla skapaða hluti í lífinu, börnin, hundinn, eiginmanninn eða konuna, hreyfinguna, vinina og hvað þetta heitir nú allt saman“, segir Tingeloff. Hann segist hvorki ætla að mæla með að menn einfaldi líf sitt, vinni 30 tíma á viku, eða setji starfsferilinn á bið á meðan börnin eru lítil. En hann vill minna fólk á yfirdráttinn. „Þegar kemur að peningum, eru flestir meðvitaðir um stöðuna á reikningunum hjá sér“, segir hann. Hvað er reikningurinn kominn langt yfir núna? Höfum við efni á að fara í sumarfrí? Þurfum við að leggja inn peninga til að komast hjá dráttarvöxtum? Er reikningurinn í plús eða mínus? „Menn eru ekki eins meðvitaðir þegar kemur að stressinu. Fæstir vita að orkureikningurinn virkar nákvæmlega eins og bankareikningurinn“, segir hann.

Það þarf að muna að leggja inn

Það er alveg hægt að nota heldur meira en maður á til inná orkureikningnum í ákveðinn tíma. Það er bara að taka smá yfirdrátt. Það er allt í lagi að hlaupa aðeins of hratt og vinna aðeins meira. Það er líka í lagi að byggja skúrinn á lóðinni, jafnvel þó við höfum varla tíma eða orku í það. En við verðum bara að muna að leggja aftur inná orkureikninginn. „Sumarfíin eru til þess“, segir Tingeleff, „og raunar eru öll frí til þess ætluð. Fríið er þitt tækifæri til að leggja inn á orkureikninginn sem er kominn í mínus. Það gefur þér möguleika á að lækka vaxtakostnaðinn sem þú hefur að undanförnu greitt með stressi, höfuðverk og lélegum svefni“.

Horfðu á grasið gróa

Og hann heldur áfram. „Þú getur jafnvel komið orkureikningnum, ekki bara á núllið, heldur upp fyrir það. Þá áttu inni á orkureikningnum í haust og þegar þú þarft að fara að skila verkefnunum í vinnunni.   Þú þarft ekki að klippa runnana fyrir Jónsmessu. Þú þarft ekki að bjóða öllum vinahópnum í grill. Þú þarft ekki endilega að gera húsið hreint í sumarfríinu, þú getur bara setið í garðinum þínum og notið þess að horfa á grasið gróa. En það MÁ alveg halda grillveislu, klippa runna og gera húsið hreint“, segir Tingeleff „en bara ef þú ert í stuði til þess og bara ef þú getur slappað af í leiðinni. Það er í lagi að gera þetta ef þig langar virkilega til þess, en ekki gera þetta til að geta merkt við verkefnin á listanum sem þarf að klára.

„Þetta eru engin geimvísindi. En fyrir marga virðist þetta vera erfiðara en geimvísindi“, segir hann. „Prinsípið er einfalt. Þú leggur háar upphæðir inná orkureikninginn í júlí, en nýtir yfirdráttinn á bankareikningnum til fulls“.

 

Ritstjórn júlí 6, 2015 14:36