Samtök aldraðra byggja 70-80 íbúðir

Samtök aldraðra er félag sem hefur staðið fyrir byggingu íbúða fyrir eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 1973. Á þeim tíma hafa samtökin byggt 12 fjölbýlishús með rúmlega 440  íbúðum. Þau eru við Bólstaðarhlíð, Dalbraut, Sléttuveg, Akraland og Aflagranda í Reykjavík og Kópavogstún 2-4 í Kópavogi. Þessar íbúðir eru eingöngu seldar þeim sem eru í Samtökum aldraðra.

Nýjar íbúðir á næstu þremur árum

Samtökin eru nú að byggja fjölbýlishús með 22 íbúðum í Kópavogsgerði í Kópavogi. Þær verða tilbúnar í september 2016. Þá hafa þau fengið vilyrði fyrir lóð hjá Reykjavíkurborg til að byggja 50-60 íbúðir á „Kennaraskólareitnum“ sem liggur að húsum Samtakanna við Bólstaðarhlíð. Öll húsin koma til með að tengjast þjónustumiðstöð borgarinnar sem er á milli húsanna sem Samtökin létu reisa á níunda áratug síðustu aldar. Þar eru 65 íbúðir í tveimur fjölbýlishúsum. Ekki er búist við að nýju íbúðirnar verði tilbúnar fyrr en árið 2018.

Teikning af væntanlegum húsum Samtaka aldraðra í Bólstaðarhlíð á móti Kennaraháskólanum

Teikning af væntanlegum húsum Samtaka aldraðra í Bólstaðarhlíð á móti Kennaraháskólanum

Mismunandi verð eftir byggingarárinu

Allar íbúðirnar eru eignaríbúðir. Verð íbúðanna er mismunandi eftir því hvenær þær eru byggðar. Þannig kosta 35 til 43 fermetra einstaklingsíbúðir sem voru byggðar á tímabilinu 1984-2003 frá 15 milljónum króna og uppí 19. Tveggja herbergja íbúðir eru á 20-25 milljónir króna, en þriggja herbergja íbúðirnar kosta frá 27 milljónum og upp í 34. Nýrri íbúðirnar eru dýrari. Í nýjasta húsinu á Sléttuvegi 29-31 eru 58 rúmgóðar tveggja og þriggja herbergja íbúðir sem kosta á bilinu 30-38 milljónir króna. Þær eru allar með bílastæði í kjallara og búnar nútímaþægindum. Þá er líka lítill samkomusalur í húsinu. Í nýja húsinu í Kópavogsgerði er verð íbúðanna hærra, enda lóðaverð þar hátt.

Elstu félagar í SA hafa forgang

Íbúðirnar í eldri húsunum ganga kaupum og sölum, en eingöngu meðal þeirra sem eru í Samtökum aldraðra. Endursöluverð er upphaflegur byggingarkostnaður framreiknaður með byggingarvísitölu. Þegar íbúð er seld, er hún auglýst í nokkra daga í fréttabréfi Samtakanna. Menn geta boðið í hana, en á hana er sett ákveðið hámarksverð. Þeir sem hafa verið lengst í Samtökunum hafa forgang að því að kaupa og fá að ganga inní hæsta boð í íbúðina, hafi þeir ekki átt það sjálfir.

Ekki hægt að selja án aðkomu SA

Félagar í samtökum aldraðra eru á þriðja þúsund, ef allir eru taldir. Fólk þarf að vera orðið 50 ára til að ganga í þau. Samtökin hafa forkaupsrétt að íbúðum sem losna. Eigendur geta því ekki selt íbúðirnar á frjálsum markaði, nema stjórnin hafi áður hafnað forkaupsrétti.

Ritstjórn júlí 9, 2015 12:27