Jú, þú getur víst litið frábærlega út í „leggings“

Margir spyrja hvort það sé við hæfi að konur eftir fimmtugt gangi um í „leggings“. Og hver hefur ekki heyrt fullyrðinguna um að ,,leggings” séu ekki buxur. Staðreyndin er sú að konur, sama á hvaða aldri þær eru, geta litið frábærlega vel út í slíkum fatnaði.

Auðvitað eru nokkur atriði sem við ,,þroskuðu konurnar” ættum að hafa í huga þegar við veljum okkur ,,leggings”.

Hver er skilgreiningin á ,,leggings”?

Almenna skilgreiningin á slíkum fatnaði er að þetta séu þröngar, teygjanlegar buxur. Með tilkomu spandex í fataefni nú til dags er hægt að framleiða sérlega þægilegan fatnað. Mörgum þykja slíkar buxur svipa til sokkabuxna en leggings eru úr þykkara efni og því meiri flík.

Hvaða afbrigði og stílar eru í boði?

Algengastar eru svartar leggings fyrir konur. Gott er að hafa í huga að velja fyrstu eintökin háar í mittið og áríðandi er að þær séu þykkari en sokkabuxur.

Bestu tegundirnar af leggings eru merktar ,,Ponte knit”. Það þýðir að þær eru blanda af rayon, polyester og spandex. Efnið er þéttofið sem þýðir að það heldur lit sínum og lögun vel.

Það eru auðvitað aðrar tegundir af slíkum buxum. Nýlega kynntu framleiðendur gervileðurbuxur sem eru þröngar og glansa. Kosturinn við þessa tegund, fyrir utan að líta vel út, er að hár og ryk festist ekki við þær. Þær fást líka í mörgum mismunandi litum.

Og nýlega fóru þessar leggings að fást líka munstraðar sem geta verið mjög smart með einlitum flíkum.

Svo eru slíkar leggings líka fáanlegar stuttar, þ.e. öklasíðar og eru gjarnan með stífu framstykki sem hjálpar við að halda maganum inni ef þarf.

Betra að leggja í heldur meiri kostnað

Leggings eru að jafnaði mjög þægilegur fatnaður en það er eins með þær eins og annan fatnað að maður fær það sem maður borgar fyrir. Og svo er ekki regla að leggings þurfi að vera þröngar eins og sést á myndunum sem fylgja þessari grein.

Hvernig fatnaður fer best með leggings?

Flestum konum líður betur að klæðast peysu eða jakka sem nær niður fyrir rass. Þess vegna fara víðar skyrtur eða peysur mjög vel með hvers konar leggings. Þar með er ekki sagt að efri hluti klæðnaðarins eigi að vera hólkvíður en hann ætti ekki að vera mjög þröngur. Það er líka mun þægilegra að hafa hann í víðari kantinum.

Síðar peysur eru nú í tísku og þær fara einstaklega vel með þröngum leggings.

Fallegar skyrtur og stuttir kjólar er tilvalinn klæðnaður með leggings.

Skór með leggings

Með þannig klæðnaði er til valið að vera í hnéháum leðurstígvélum. Sér í lagi fyrir þær sem búa í kaldara loftslagi. Leggings fara svo þægilega ofan í slík stígvél og taka ekki pláss um kálfana.

Eins og sést á myndunum fara lág stígvél líka mjög vel við leggings.

Ritstjórn desember 8, 2021 13:57