Bara stoltur

Gísli Pálsson prófessor

Gísli Pálsson prófessor

Á árunum uppúr 1968 bar mikið á pólitískri baráttu námsmanna, bæði hér á landi og annars staðar. Myndin hér fyrir ofan var tekin þegar íslenskir háskólastúdentar mótmæltu heimsókn William Rogers, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í Árnagarð, fyrir rúmum 40 árum, en ætlunin var að sýna ráðherranum íslensku handritin. Mótmælendur komu sér fyrir á tröppunum við húsið með borða þar sem Víetnam stríðinu var mótmælt og á skyggninu fyrir ofan dyrnar stóðu tveir námsmenn með fána Þjóðfrelsishreyfingarinnar í Víetnam. Skemmst er frá því að segja að ráðherrann sneri frá og ekki varð af heimsókninni.

Þjóðfélagsleg gerjun í gangi

Gísli Pálsson prófessor tók þátt í mótmælunum í Árnagarði, en þetta var í maí árið 1972. Það má sjá Gísla undir dyraskyggninu  haldandi við mótmælaborða, en hann er annar frá vinstri á myndinni, með mikið hár og skegg.  Hann segist muna þegar límósínu ráðherrans, sem var fánum skrýdd, var snúið við á bílastæðinu og ekið uppá Suðurgötu. Þangað hljóp hluti mótmælenda á eftir honum, en bílnum var ekið framhjá þeim á ógnarhraða. „Ég er bara stoltur af því að hafa tekið þarna þátt“ segir Gísli. Það hafi verið mikil þjóðfélagsleg gerjun í gangi og á þessum tíma hafi kennsla í félagsvísindum verið að hefjast í Háskóla Íslands.

Mikil orka í mótmælin

Mótmæli stúdenta voru nær daglegt brauð á þessum árum og Gísli segir að mikil orka og tími hafi farið í þau. Blöð voru gefin út og fundir haldnir. Þetta var mikil vinna með fullu námi og Gísli var líka í hálfu starfi til að fjármagna námið. Stundum segist hann brosa að því í dag hvað menn eyddu miklum tíma í þetta og mótmælin hafi líklega ekki valdið straumhvörfum í heimsmálunum. En hann segist ekki vita til þess að námsmenn hafi meitt neinn eða valdið teljandi spjöllum í þessum aðgerðum. Þeir hafi hins vegar náð að setja fingurinn á ákveðin þjóðfélagsmein. Varðandi mótmælin gegn heimsókn Rogers í Árnagarð, hafi námsmenn komið ákveðnum skilaboðum gegn Víetnam stríðinu til ráðherrans. „Sagan sýnir að við höfðum rétt fyrir okkur“ segir hann. „Bandaríkjamenn hefðu átt að hætta þessu vonlausa stríði miklu fyrr en þeir gerðu“.

 

Ritstjórn ágúst 27, 2014 14:37