Tengdar greinar

Baráttan fyrir frelsinu

Borgarastríð braust út á Spáni þann 17. júlí árið 1936. Fransisco Franco hershöfðingi  steypti þá lýðræðislega kjörinni stjórn landsins og tók völdin í hluta landsins. Lýðveldissinnar börðust gegn Franco hershöfðingja og vel þjálfuðum hermönnum hans. Almennt voru lýðveldisinnar taldir kommúnistar en staðreyndin var svo að margar pólitískar fylkingar voru í landinu þar á meðal sósíalistar, anarkistar og menn nær miðjunni á litrófi stjórnmálanna. Menn sem vildu bæta stjórnarfar landsins skipuðu sér hins vegar undir merki P.O.U.M og þeir höfðu fæstir fengið þjálfun í vopnaburði eða hernaði. Þeir stunduðu þess vegna skæruhernað og í byrjun gekk þeim nokkuð vel en svo tók að síga á ógæfuhliðina.

Bretar, Frakkar og Bandaríkjamenn litu á þetta sem innanríkismál á Spáni og skiptu sér ekki af átökunum. Hitler og Mussolini stukku hins vegar fljótt á vagninn og studdu Franco. Vegna þess áttu lýðveldissinnar ekki annars úrkosti en að leita til Sovíetríkjanna og fá þaðan vopn og hernaðaraðstoð. Ótalmörgum hugsjónamönnum um allan heim blöskraði lögleysan og yfirgangur herforingjanna og héldu niður til Spánar til að leggja frelsinu, lýðræðinu og bræðralaginu lið. Meira segja héðan frá Íslandi lögðu menn land undir fót. Í hópi þeirra sem komu til að berjast voru rithöfundar, listamenn og blaðamenn. Hemingway skrifaði Hverjum klukkan glymur um reynslu sína af borgarstyrjöldinni og George Orwell Lofgjörð til Katalóníu.

Ólíkar en áhrifamiklar bækur

Þessar tvær bækur eru gjörólíkar en báðar áhrifamiklar og vel skrifaðar. Meðan Hemingway segir okkur ástarsögu, skáldaða en byggða á eigin upplifunum er George Orwell að lýsa raunverulegum atburðum með frá sínum sjónarhóli. Hann segir frá ringulreiðinni, hversu grimmt, miskunnarlaust og tilgangslaust stríð er og um leið sýnir hann fram á hve vonlaus barátta lýðveldissinna var frá byrjun. Hann barðist inni í Barcelona, á Römblunni sjálfri og vegna þess hve hreinskilinn hann er vitum við margt hefði mátt betur fara.

Í fyrri hluta bókarinnar er Orwell í Aragón, langt uppi í sveit og þar berjast skæruliðarnir fyrst og fremst við kuldann, aðstöðuleysið, skítinn, mýs og rottur. En í Barcelóna er barist í návígi og af ofsa. Það er ekki eining meðal skæruliðanna. Þeir eru of ólíkir til að það gangi. Sumir eru sannafærðir kommúnistar, aðrir anarkistar og enn aðrir vilja lýðræði og frelsi en hafa ekki trú á né hollustu gagnvart Sovíetríkjunum.

Það er engin vafi að þessi bók Orwells var málstað lýðræðissinna ekki til framdráttar þótt í dag þyki hún fyrst og fremst ádeila á stríð og tilgangsleysi þess. Margir telja að hún hafi verið Ken Loach innblástur þegar hann gerði myndina Land and Freedom. Á það hefur hins vegar verið bent að George Orwell hafði ekki alveg kynnt sér nægilega vel þau öfl sem lágu að baki borgarastyrjöldinni á Spáni þegar hann skrifaði bókina og sagnfræðingar hafa síðar útskýrt að sum atvik sem hann lýsir í frumútgáfu af bókinni séu ekki í samræmi við sannleikann. Meðal annars lýsir hann anarkistanum Antonio Martin Escudero sem píslarvotti en í raun var hann smyglari og óþokki sem réði lögum og lofum við landamæri Frakklands í Pyrenea fjöllum. Hann og flokkur óþokka sem flykkt höfðu sér um hann frömdu margs konar voðaverk og að lokum snerist fólkið þarna gegn honum og drap hann.

Að auki hafa menn talað um að hluti af þeirri togstreitu og óróa sem George varð var við þegar hann kom til Barcelona hafi ekki stafað af sundrungu meðal liðsmanna lýðræðissinna heldur einnig vegna efnahagslegs hruns og félagslegra vandamál í kjölfar þess. Meira en 300.000 flóttamenn höfðu komið til Katalóníu og álagið við að finna þessum fjölda húsnæði, fæða hann og klæða skapaði alls konar erfiðleika og árekstra. Ástandið var eldfimt og George Orwell hafði ekki aðgang að æðstu stjórnendum lýðræðishreyfingarinnar og hafði þess vegna ekki næga yfirsýn til að geta fyllilega skilið það sem gekk á.

En þrátt fyrir að Lofgjörð til Katalóníu hafi verið umdeild frá því bókin kom út er hún ómetanleg söguleg heimild, frábærlega vel skrifuð og áhrifamikil. Það má alveg ímynda sér að reynsla hans af borgarastyrjöldinni á Spáni hafi lagt grunninn að bókum á borð við Animal Farm og Nineteen Eighty-Four. Bókin er sérlega vel þýdd af Guðmundi J. Guðmundssyni og frábært að hún sé aðgengileg á íslensku.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn ágúst 17, 2024 07:00