Kvöldstund fyrir framan sjónvarpið

Þeir sem ætla að vera heima um helgina og langar að  leigja sér kvikmynd til dæmis á VOD-inu, geta valið úr aragrúa mynda. Hérna eru fimm kvikmyndir sem Lifðu núna telur óhætt er að mæla með.

The Mountain Between Us

Kvikmyndin The Mountain Between Us, er mynd sem kemur á óvart.  Skurðlæknir og blaðamaður sem liggur á að komast til síns heima, leigja saman flugvél þegar flug sem þau ætla að taka heim fellur niður. Þau þekkjast ekkert en lenda í flugslysi en komast lífs af, lengst úti í óbyggðum. Ekkert bólar á hjálp og að lokum neyðast þau til að standa saman og  finna leiðina til byggða. Leikstjóri myndarinnar er Hany Abu-Assad, en með aðalhlutverkin fara þau Kate Winslet og Idris Elba.

Viktoría drottning og Abdul

Viktoría og Abdul

Það var ekki undarlegt að margir yrðu hissa þegar Viktoría Englandsdrottning, sem þá hafði verið drottning í rúma sex áratugi, fékk ungan indverja Abdul að nafni til að kenna sér um trú og siði múslima. Abdul sem var sendiboði og þjónn, hafði fært henni gjöf frá heimalandi sínu og  heillað hana með framkomu sinni og þekkingu á Kóraninum.  Góð mynd eftir leikstjórann, Stephen Frears með sjálfa Judi Dench í hlutverki Viktoríu. Ali Fazal leikur Abdul. Þessi mynd er byggð á sannsögulegum atburðum.

The Party

Þessi mynd er stórskemmtileg, að minnsta kosti fyrir þá sem aðhyllast skoðanir hinnar svokölluðu 68 kynslóðar. Leikstjórinn er kona að nafni Sally Porter. Timothy Spall og Kristin Scott Thomas eru í aðalhlutverkum hjóna, sem halda matarboð til að halda uppá frama hennar í stjórnmálum. Þangað koma gamlir vinir þeirra, meðal annarra lesbíupar sem á í hjónabandserfiðleikum og afar samfélagslega meðvituð vinkona þeirra hjónanna, ásamt manni sínum. Það er skemmst frá því að segja að matarboðið fer algerlega úr böndunum og ýmis leyndarmál skjóta upp kollinum. Ekki er allt sem sýnist

 

Úr kvikmyndinni Dunkirk

Dunkirk

Fyrir þá sem misstu af kvikmyndinni Dunkirk þegar hún var sýnd í  bíó og hafa ekki enn séð hana,  er hægt að leigja hana á VOD-inu . Myndin sem hlaut lofsamlega dóma fjallar um baráttu Breta í síðari heimsstyrjöldinni., atburðinn þegar Þjóðverjar höfðu umkringt þá í Dunkirk.  Fyrir þá sem eru búnir að sjá myndina um Churchill og stöðu hans í heimsstyrjöldinni síðari, er þessi mynd góð viðbót.

 

Allied

Brad Pitt og Marion Cotillard í myndinni Allied

Tregablandin mynd sem segir frá Max, kanadískum njósnara,sem fær það verkefni í síðari heimsstyrjöldinni að fara til Casablanca í Marokkó og myrða þýska sendiherrann þar. Samstarfskona hans í verkefninu er Marianne, úr frönsku andspyrnuhreyfingunni. Þau laðast að hvort öðru, þó slíkt geti verið lífshættulegt í þeirri atvinnugrein sem þau stunda. Þau flytja til London til að hefja líf saman en fortíðin eltir þau uppi. Myndin er eftir Robert Zemeckis. Í aðalhlutverkunum eru Brad Pitt og Marion Cotillard.

 

Ritstjórn febrúar 23, 2018 10:04