Notalegt um jólin

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir forseti hugvísinda og menntasviðs Háskólans á Akureyri skrifar

Notalegt heitir nýtt jólalag með Sigríði Thorlacius og Sigurði Guðmundssyni. Það er mikið spilað fyrir þessi jól. Það er eitthvað í þessu lagi sem höfðar til mín, afslappað og gerir engar kröfur um hvít jól og Jesú í jötunni. Ég er nefnilega meðal þeirra sem kvíða  jólunum. Einu sinni sagði ég samstarfskonu minni frá þessu og hún játaði strax að hún væri eins. Hún spurði hvort ég hefði átt erfið jól í æsku eins og hún. Svarið var nei. Ég átti yndisleg bernskujól í góðri fjölskyldu. Rjúpa á aðfangadagskvöld, gjafir og dansað í kringum gervijólatréð. Heimasaumuð náttföt, bók frá afa, handavinna frá frænkunum og laufabrauð til þess að mylja ofan í hrein sængurfötin.  Allt eins og það átti að vera.

Sem krakki hlakkaði ég ósegjanlega mikið til jólanna. En svo gerðist eitthvað. Ég týndi smám saman eftirvæntingunni og fór að kvíða öllu stressinu sem bættist ofan á prófayfirlestur, eða gerð áramótaannáls fyrir RÚV. Allt þurfti að klárast  eins og enginn væri dagurinn eftir hátíðina. Jólamaturinn olli valkvíða. Hvernig toppar maður góða matinn sem við borðum á hverju kvöldi? Hvað gefur maður  barnabörnum sem eiga allt og hver borðar með hverjum á hvaða degi. Hangikjöt, rjúpur, laufabrauð smákökur  og jólaskreytingar – við getum ekki búið í eina húsinu sem ekki er með jólaljós. Eða hvað?

Svo gerðist það eitt árið sem við bjuggum í Danmörku. Fyrstu jól án barna og barnabarna. Bara við tvö. Ég lagði til við manninn minn að við slepptum jólunum. Hann var ekki á því og vildi að minnsta kosti hafa jólatré í stofunni. Við komum okkur loks saman um að gera þetta að hvíldarjólum – nokkurs konar vetrarfríi. Við höfðum ekkert á borðum sem minnti á íslensk jól. Á aðfangadag var humar og nýr soðinn þorskur eftir danskri forskrift. Sparifötin voru ónotuð inni í skáp og  gönguskórnir ósparlega notaðir í langar gönguferðir. Við áttum nóg að lesa og höfðum það notalegt. Þetta eru ein bestu jól sem ég hef átt á fullorðinsárum og þetta varð til að losa okkur út úr fjötrum hefðanna.

Ég á systur sem er haldin þessum sama jólakvíða. Hún segist minna sig á það fyrir hver jól að jóladagarnir séu jafnfljótir að líða og allir aðrir dagar ársins. Það er mikill sannleikur í því. Mín tillaga til þeirra sem ekki finna jólagleðina er sú að horfa fram hjá hefðunum og reyna að láta hver jól vera sérstök og öðru vísi en í fyrra. Prófa eitthvað nýtt og muna að þessir dagar eru horfnir fyrir hornið áður en við vitum af.

Gleðileg, notaleg jól !

Sigrún Stefánsdóttir desember 12, 2016 10:39