Tengdar greinar

Bergnuminn af verkum Eggerts Péturssonar

Eggert Pétursson listmálari er kunnur fyrir myndir sínar af íslenskum jurtum. Hann hefur frá unga aldri verið heillaður af íslenskri náttúru einkum jurtunum og þegar hann, ungur maður, nýkominn úr myndlistarnámi, var beðin að myndskreyta bók um íslenska flóru var það auðsótt. Segja má að þar með hafi grunnurinn að ferlinum verið lagður. Nú er væntanleg bók um Eggert og list hans frá nýju forlagi, Kind útgáfu.

Það er Þröstur Helgason bókmenntafræðingur sem stendur að baki Kind. En hvernig kviknaði hugmyndin að því að gefa út bók um Eggert?

„Hugmyndin að því að KIND útgáfa gefi út bók um Eggert Pétursson verður til í samtali okkar Barkar Arnarsonar í i8 galleríi. Tíu ár eru síðan bók kom út um Eggert og sú er löngu uppseld. Nýja bókin inniheldur því mikið af nýjum og nýlegum verkum frá síðustu árum. Alls eru myndir af 109 málverkum í bókinni. Þetta er því stór og mikill gripur sem gefur gott yfirlit yfir feril Eggerts. Einar Geir Ingvarsson hannar bókina sem er verulega falleg og eiguleg.“

Eggert er áhugamaður um íslenska flóru og náttúru. Verk hans sýna fjölbreytileika íslenskra jurta og skapa sérstæðan blómaheim. Var það á einhvern hátt áhugi á blómum og gróðri sem varð til þess að þið ákváðuð að taka saman yfirlit yfir ævi og verk listamannsins?

„Í bókinni eru tvær greinar um verk Eggerts, ævi hans og feril,“ segir Þröstur. „Sjálfur skrifa ég um verk hans og Þorlákur Einarsson skrifar um ævi hans og feril. Ég hef lengi fylgst með Eggerti og alltaf verið bergnuminn af verkum hans. Í þeim endurspeglast hið smágerða gróðurlíf, sem Eggert málar í nærmynd, hinn stóra heim, náttúruna í öllu sínu veldi. Og það er í þessu samspili milli hins smáa og stóra sem galdurinn gerist. Ég reyni að útskýra það í minni grein. Bókin er sem stendur á forsölutilboði á vef forlagsins, www.kindutgafa.is. Þar kostar hún 14.900 kr.“

Er að vænta fleiri bóka frá Kind útgáfu? „KIND útgáfa mun senda frá sér fleiri bækur á næsta ári. Forlagið leggur áherslu á bækur um sjónlistir, fræði, vísindi, menningarsögu og fleira. „Ég held það sé mikill áhugi á bókum af þessu tagi. Fólk þyrstir í fróðleik um alls konar listir, sögulegan fróðleik, pólitík, vísindi osfrv. KIND útgáfa ætlar að einbeita sér að því að segja forvitnilegar sögur um það sem skiptir máli,“ segir Þröstur að lokum.

Ritstjórn nóvember 22, 2023 13:16