Gæludýr gefa lífsfyllingu og þau eru góð fyrir heilsuna. Að velja sér hund er hins vegar vandaverk. Það henta ekki allar hundategundir eldra fólki og það þarf að meta vel áður en ákvörðun er tekin hvernig félaga þú ert að leita eftir og hve mikið þú ert tilbúin/n að leggja á þig fyrir dýrið.
Skoðaðu fyrst lífsstíl þinn. Ertu mikið heima? Hversu mikið hreyfir þú þig? Viltu hreyfa þig meira? Áttu hægt með að þjálfa dýrið og getur þú sótt námskeið í þjálfun þess? Er rólegt dýr það sem þú óskar eftir og þá gæti verið sniðugt að skoða vélmenni eða róbótagæludýr. Glími fólk hins vegar við heilsubrest á borð við sjónskerðingu, skert jafnvægi eða annað er spurning hvort sérþjálfaður hjálparhundur geti nýst þér til að auka lífsgæðin.
Þegar hundategund er valin
Fyrst af öllu er gott að skoða þær hundategundir sem þú veist að auðvelt er að nálgast í nágrenni við þig. Eftirfarandi þættir eru lykillinn að því hvort einhver þeirra smellur við þig eða ekki:
Orka og hreyfiþörf: Margar hundategundir þurfa mikla hreyfingu og vilja stöðugt hafa eitthvað fyrir stafni. Svo orkumiklir hundar verða að búa á stöðum þar sem er aðstaða fyrir þá að hlaupa og fara út reglulega. Góður lokaður garður væri ákjósanlegur eða sumarbústaður sem heimsóttur er reglulega. Ef þú átt erfitt með að hreyfa þig eða býrð þröngt er slíkur hundur ekki heppilegur félagi.
Stærð: Almennt er auðveldara að eiga við minni hunda en stóra. Þeir eru viðráðanlegri í taumi og þrífast betur í minni íbúðum. Þeir þurfa ekki endilega aðgang að garði þótt það myndi gera þeim gott að geta farið út þegar þeir vilja. Smærri hundar geta hins vegar verið mjög hávaðasamir, enda margar tegundir þeirra aldar í gegnum aldirnar til að vara eigendur sína við óboðnum gestum. Athugaðu þess vegna vel hvort þessi tegund hafi slíka sögu. Litlir hundar hafa einnig mismunandi tilhneigingu til að stressast. Sumar tegundir eru mjög viðkvæmar fyrir streitu og áreiti og það þarf að skoða líka.
Aldur: Það getur borgað sig að taka fremur að sér eldri hund en hvolp. Þá losnar þú við að þjálfa hann og gera húsvanan. Persónuleiki hundsins er einnig þekktur og einstaklingseðli hans svo það er nokkuð skýrt að hverju þú gengur. Engu að síður tekur ávallt tíma fyrir hund að venjast nýju heimili og öðru umhverfi og það verður að gefa honum góðan tíma til þess. Samkvæmt rannsóknum er ein helsta ástæða þess að margt eldra fólk hikar við að taka að sér gæludýr er að það óttast að deyja frá dýrinu. Ef dýrið er þegar orðið nokkurra ára minnka einnig líkur á að það gerist.
Skapgerð: Líkt og mannfólk er skapgerð hunda mjög einstaklingsbundin. Þeir bera vissulega í sér genamengi sinnar tegundar en það getur verið mjög breytilegt hvaða eðliseinkenni eru ríkjandi eftir hverjum og einum. Það er hægt að hafa mikil áhrif á hvernig skapgerð hunds þróast með réttri þjálfun og nauðsynlegt að fá hjálp við að ala hann upp fyrstu mánuðina ef vel á að vera. Ef þú hefur tök á fáðu að heimsækja hvolpinn eða hundinn sem þú hefur valið og fylgstu með hvernig hann leikur sér og kemur fram innan síns hóps. Það gefur góða vísbendingu um hver hann er.
Hirðing: Allir hundar þarfnast umhirðu. Sumar tegundir fella ekki hár sem gerir öll þrif á heimilinu léttari en feld slíka hunda þarf að þvo reglulega, bursta og kemba, klippa og snyrta. Það er hægt að fara með þá á hundasnyrtistofu en margir hundeigendur njóta þess að sinna hundunum sínum sjálfir. Auðvitað er sjálfsagt að baða reglulega dýr sem býr inn á heimili með öðrum einfaldlega til að gæta vel að hreinlæti og það á einnig við um hunda sem fella feldinn. Þá er sjálfsagt að bursta þá vel og ná þannig öllum lausum hárum. Feldurinn verður með því móti gljáandi og fallegur. Það þarf einnig að klippa klærnar á öllum hundum reglulega.
8 bestu hundategundir fyrir eldra fólk
Auðvitað er mjög mismunandi hverju fólk sækist eftir þegar það velur sér gæludýr en eftirfarandi hundategundir eru taldar henta vel á heimili þar sem fólk er tekið að eldast:
Púðluhundar
Púðluhundar eru góðir félagar og mjög greind hundategund. Þá er auðvelt að þjálfa og þeir eru afskaplega tryggir og bindast eigendum sínum sterkum böndum. Þeir eru blíðlyndir og þægilegir. Gelta ekki mikið en finnst gaman að leika sér. Þeir gera sig hins vegar ánægða með rólega leiki og þurfa ekki endilega að elta bolta, togast á eða annað sem þarfnast líkamlegrar áreynslu. Þeir fella ekki feldinn en þurfa reglulega snyrtingu. Til eru þrjár stærðir púðluhunda, svokallaðir toy, miniatur og standard.
Cavalier King Charles spaníel
Þetta er rólegir hundar, almennt mjög þöglir og það þarf yfirleitt mikið til að þeir fari að gelta. Þeir eru fyllilega sáttir við að kúra í sófa með eiganda sínum lungan úr deginum en þurfa auðvitað gönguferð tvisvar á dag til að gera þarfir sínar og þeir hafa mjög gaman af að elta hluti, bolta eða annað. Þeir eru mjög greindir og auðvelt að þjálfa þá. Feldurinn er langhærður og ákaflega mjúkur en hann þarf að greiða reglulega, baða og klippa.
Yorkshire terríer
Þetta eru litlir hundar en góðir félagar. Þeir eru mjög trygglyndir og sýna eigendum sínum afskaplega mikla blíðu. Þeir eru ákaflega rólegir og gelta sjaldan. Þá er auðvelt að þjálfa og þeir þurfa ekki mikið pláss. Það er ekki erfitt að snyrta feldinn þeirra því hárin eru frekar stutt en gott að baða þá og greiða reglulega.
Maltese
Þetta eru mjög litlir hundar en dásamlegir félagar, snjallir, blíðir og fullir af leikgleði. Yfirleitt er mjög auðvelt að bæta maltese-hundi inn í hóp annarra gæludýra og þeim semur vel við ketti, aðra hunda og fleiri dýrategundir. Það er eftir því tekið hversu auðvelt þeir virðast eiga með að mynda vináttu við gerólík dýr. Þeir eru ákaflega athugulir og virðast skynja mjög fljótt breytingar á líðan eigenda sinna. Ef maltese-hundurinn þinn fer að hegða sér öðruvísi gagnvart þér gæti verið ástæða til að leita læknis. Þeir þurfa ekki mikla hreyfingu.
Corgi-hundar
Það er ekki skrýtið að corgi-hundar hafi verið í uppáhaldi hjá Elísabetu II Englandsdrottningu. Þetta eru einstaklega greindir hundar, fjörugir og skemmtilegir. Þeir þurfa talsverða hreyfingu og vilja mjög gjarnan hafa hlutverk á heimilinu. Þeir eru þéttvaxnir með stutta fætur og voru upphaflega ræktaðir sem fjárhundar. Þessi tegund er tilbúin að fylgja þér á löngum gönguferðum, jafnvel erfiðum fjallgöngum og þeir elska útiveru. Auk þess eru þeir góðir varðhundar og verja eigendur sína af mikilli heift sé ráðist gegn þeim. Þeir eiga hins vegar til að gelta talsvert og það er atriði sem þarf að taka tillit til þegar þeir eru þjálfaðir.
Beagle
Beagle-veiðihundar eru skemmtilegir, athafnasamir og svo hrekkjóttir. Þeir þurfa mikla hreyfingu og vilja alltaf hafa eitthvað fyrir stafni en eru þægilegir og notalegir í framkomu. Beagle-hundar elska að leika sér og ef þú hefur gaman af göngum og útiveru er þetta hundurinn fyrir þig. Þeir eru hins vegar skarpgreindir og ef þeir hafa ekki nóg að gera taka þeir upp á ýmsu. Þetta eru veiðihundar og finni þeir lykt sem þeim finnst áhugaverð fylgja þeir henni og þess vegna eiga þeir til að strjúka úr lokuðum görðum eða láta sig hverfa á göngu. Það þarf að hafa augun á þeim og vera meðvitaður um þetta.
Pomeranían
Pomeranían-hundar eru litlir og loðnir. Þeir eru ákaflega forvitnir og elska athygli, klapp og knús. Þeir þurfa ekki mikla hreyfingu eða útivist en það þarf að sinna þeim töluvert. Vera með þeim, leika við þá og bursta feldinn að minnsta kosti einu sinni í viku ef hann á að haldast fallegur. Þeir eiga til að vera geltnir.
Chihuahua
Chihuahuas eru pínulitlir hundar er miklir persónuleikar. Þeir eru uppátækjasamir og bráðskemmtilegir. Chihuahua þurfa ekki mikla hreyfingu en þeir vilja gjarnan hafa eitthvað að gera og fá að vera með í öllu sem eigandinn gerir. Þetta eru ákaflega hugrökk dýr og þess dæmi að þeir fari gegn dýrum sem eru margfalt stærri í viðleitni við að verja eigendur sína. Þeir njóta þess að láta klappa sér og eru blíðir en þurfa oft tíma til að sætta sig við ókunnuga og eru ekki alltaf góðir með börnum. Það þarf að gæta vel að þessu þegar hundurinn er þjálfaður og einfaldlega æfa hann í að taka vel á móti gestum hvort sem þeir eru ungir eða gamlir.